miðvikudagur, apríl 20, 2005

Bloggið búið

Þá er víst komið að skuldadögum. Ég á að afhenda kennaranum mínum dagbókarfærslur vetrarins. Vonandi tekur kennarinn þessa færslu með þegar hún fer yfir þetta. Er svo að spá í að gefa bloggsíðuna til munaðarlausra barna í Ghana.

Held ég kveðji með orðum skáldsins:

“Nú er ég farinn,
meinilla farinn og búinn að vera.
Nú er ég farinn, sjúbbísjarei.”

(Væri e.t.v. við hæfi ef lesendur lokuðu augunum um stund og hummuðu saxafónsóló í virðingarskyni. Samt helst ekki.)

KEF - Eftirmáli

Að gefni tilefni skal þess getið að sagan hér á undan er hugarburður einn. Persónurnar eru ekki til í raunveruleikanum og atburðarásin algjör skáldskapur. Líta ber á söguna sem dægrastyttingu sem á sér engar áþreifanlegar stoðir. Engar. Svo vorum við hvort sem er svo fullir...

Golden boys

Oft ræða menn hvernig gullaldarlið litu út. Hvernig besta landslið Íslandssögunnar liti út. Ég fann svarið í dag þegar ég ætlaði að læra en gat það ekki vegna einbeitingarskorts. Í mínu liði er enginn Eiður Smári eða Ásgeir Sigurvins. Í mínu liði eru bara menn sem eru tilbúnir að leggja sig fram. Mitt lið er svona:

Spilum 4-3-3 undir stjórn Snorra goða Þorgrímssonar (Njáll í mesta lagi aðstoðarþjálfari, er ekki eins góður í að halda mönnum sáttum og Snorkurinn).

Markmaður: Finnbogi (Urðarköttur) Ásbjarnarson. Ótrúlegur á velli, stór, útsjónarsamur og réttsýnn. Menn gætu líka haft á orði að hann væri eins og köttur í markinu.

Hægri bakvörður: Eiríkur rauði. Reyndar líklegur til að fá rauð spjöld en engu að síður áræðinn leikmaður sem siglt getur upp kantinn og valdið usla.

Miðvörður: Grettir sterki Ásmundarson. Sterkur í loftinu og öflugur í návígum.

Miðvörður: Egill Skalla-Grímsson. Sýnið mér þann mann sem vinnur Egil og Gretti í návígum. Níðvísur Egils gætu ruglað andstæðinginn allverulega í ríminu.

Vinstri bakvörður: Skarphéðinn Njálsson. Örfættur, kappsamur og skynsamur fram á við.

Varnarsinnaður miðjumaður: Víga-Styr Þorgrímsson. Feikilega harður Kjalleklingur sem tæklar eins og bardagamaður.

Miðjumaður: Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda. Dregur sig gjarnan til baka og dreifir spilinu. Er þó áræðinn og marksækinn.

Miðjumaður: Helgi Droplaugarson. Teknískur andskoti að austan. Lætur boltann vinna og er síduglegur.

Sóknarmaður, hægra megin: Gísli Súrsson. Kallar ekki allt ömmu sína. Er sókndjarfur, með frábærar fyrirgjafir og snjall í að taka menn á.

Sóknarmaður, vinstra megin: Króka-Refur Steinsson. Ein af stjörnum liðsins. Tækniundur með baneitraðan vinstri fót.

Stormsenterinn: Björn Breiðvíkingakappi Ásbjarnarson. Slúttari af guðs náð. Sterkur í loftinu.

Þetta lið hefði rústað EM 1014 ef menn hefðu haft rænu á að halda slíkt mót...

...

Annars vona ég bara að fólk dæmi mig ekki of hart vegna þessa...

KEF – III. HLUTI

Nói þótti æði ráðagóður þessa stundina, æddi út aftur og sagði: “Nú skulum við drekka í okkur næturlíf Keflavíkur!”. Eins og vangefnar hýenur eltum við Janni hann upp í næsta leigubíl. Þar var spurt: “Hver er heitasti staðurinn í bænum?”. Og skömmu síðar skilaði fjörgamall bílstjórinn okkur á heitasta stað Keflavíkur það kvöldið, nefnilega Duushús. Við fengum okkur bjór og kaffi. Ekki veitti af að vera með öll skilningarvitin í lagi þegar stórborg eins og Osló beið okkar. Menn rembuðust við að meðtaka koffínið og þykjast geðveikt vakandi. Pleisið var pakkfullt og við kannski pínu smeykir við ansi framandi umhverfi. Þarna voru stelpur. Stelpur frá Keflavík. Og ein þeirra kom full og í stuttu pilsi til okkar. Talaði fullmikið fyrir minn smekk. “Úr bænum? Djöfull eruði sætir… Íhíhííí”. Janni, sem oftar en ekki hefur verið talinn okkar skynsamastur beit á agnið. Spurði hvort hún ætti kærasta. Hún átti kærasta. Spurði Janni hvað hann héti. “Jón Ingi”, sagði druslan. “Vá, rímar við aumingi”, svaraði Janni. Fór Janni svo og dansaði við gæruna. Á meðan ræddum við Nói málin. Sjálfur var ég dauðadrukkinn og hóf að ræða mál mín og einhverrar kvensu sem ég hafði verið í tygjum við. Málglaður reyndist ég og gjarn á smáatriðin. Nói var fullur samúðar. En svo þurftum við að bruna aftur á KEF. Við Nói röltum fram, ætluðum að pikka Jannann upp á leiðinni og fara út á völl er við sáum að Janni hafði lent í illræmdum slagsmálum við innfædda. Hafði verið laminn fyrir það eitt að dansa nokkur spor við áðurnefnda glyðru. Og það af Jóni Inga, kærasta hennar. Okkur leist ekki á blikuna og rifum Janna með á brott. Burt frá Duushúsi. Út á völl. Janni var með glóðarauga. Lífskrafturinn hafði líka verið dreginn pínulítið úr honum. Smá bömmer í gangi. En vart þýddi að láta einhver erkifífl úr Keflavík tjónka við samstöðunni og góða skapinu sem réði lögum og lofum. Og er út á völl var komið á ný var bjartsýnin allsráðandi í brjósti mér. Nú var það ég sem gekk fremstur að afgreiðslukvendinu og sagðist vera á leið til Osló. Nói stoppaði mig þó af í miðjum klíðum. “Gussi, ég held að ég sé orðið í smá fokki með peningamál… Veit ekki hvort ég nái að fara með ykkur til Osló…”. Mér var brugðið. Enda höfðum við Janni nokkurn veginn treyst á að Nói myndi lána okkur fyrir farinu. Vissum að hann ætti peninginn. Hann hélt áfram: “Kærastan var líka að hringja og… hún sagði að ef ég færi bara til útlanda sisvona væri þetta bara búið…”. Við Janni vorum brjálaðir. Ég stökk út og byrjaði að sparaka af öllum kröftum í ruslatunnu. Janni hné niður inni á stöð. Eftir góða stund fór ég aftur inn á fund þeirra. Þögnin var löng. Nói sagði svo: “Það kostar veit ég bara þúsara að taka Flæbössinn heim!”. Ég hljóp aftur út og sparkaði nú í súlu. Fór næstum að gráta. Við Janni vildum helst fara tveir út. En við vissum að við ættum ekki pening. Ekki nema við slægjum Nóa um lán. Einhvern veginn vissum við að örlög okkar voru að taka Flybössinn. Með öllum ógeðslegu túristunum í jöklaúlpunum sveiflandi helvítis landakortunum. Mér var litið á sjónvarpsskjáinn á vellinum. Þann sem greinir frá hvaða flug voru að koma og hver væru að fara og svona. Og ég bara starði vonsvikinn á helvítis skjáinn. Hugsaði hvað í andskotanum ég væri að gera í Keflavík. Hugsaði að nú væri rétti tíminn til að skipta um vini. En fyrst og fremst beindust hugsanir mínar að vinkonu minni á Kaffibrennslunni sem ég hafði fórnað á altari ævintýraþrár. Já, ég hugsaði um Helgu. Var litið á Janna. Sá að hann var ekki minna fúll en ég. Þetta var líka virkilega ljótt mar á fési hans. Í sömu andrá litum við Janni á Nóa sem virtist standa á sama um þetta ferðalag. Hann brosti kumpánlega og sagði: “Jæja, hann fer í bæinn eftir tvær!”.

KEF – II. HLUTI

Ég féllst á að panta annan bjór á meðan Janni róaði mig niður og Nói fór í símann. Seinna kom á daginn að hann var að hringja á Leifsstöð að tékka á flugi til Kaupmannahafnar. Kvöldið sigldi þó áfram og menn fóru að spjalla um ýmislegt annað en utanlandsferðir. Ég minntist til að mynda aftur á vinkonu mína á Kaffibrennslunni og svo ræddum við um dverga og hversu fyndið væri að sjá gormæltan dverg á einhjóli syngja Rabbabara-Rúnu. Ákveðið var þó að yfirgefa knæpuna og einhverra hluta vegna enduðum við næst á Litla andarunganum. Ég man að ég vildi fara á Dillon en strákarnir höfðu vinninginn. Drykkir voru pantaðir og málin enn rædd til hlítar. Einhvern veginn fannst mér samt eins og vinir mínir væru farnir að plotta einhvern óskunda á bakvið mig þó ég hafi látið sílkar hugsanir með öllu ósagðar. Stig ölvunar fór senn upp úr öllu valdi. Skyndilega stóð ég sjálfan mig að því að hoppa fram á klósett, taka upp símann og slá á þráðinn til títtnefndrar vinkonu minnar af Kaffibrennslunni. Ég hringdi tvisvar, ef ekki þrisvar áður en hún tók upp tólið. Var vinkona þá á einhverjum subbulegum dansstað ofar í bænum. Hún var þó hress með eindæmum og við mæltum okkur mót á Dillon seinna um kvöldið. Um leið og ég henti fram hverju fimmauragríni á fætur öðru í átt að kvendinu gjóaði ég augunum að vinum mínum sem virtust kukla dularfullar gjörðir á borðinu okkar á Litla andarunganum. Ég kveið því strax að heyra ráðagerðir þeirra.

En þær gat ég víst ekki flúið. Piltarnir tveir viðruðu á ný þá uppástungu að flytja partíið yfir á KEF, á flugstöð Leifs Eiríkssonar. Taka þar flugið til Köben, redda ódýrri gistingu og vera í glasi fram á mánudag eða þriðjudag. Ég faldi fés mitt í greipum mér.

Rökræður fóru fram. Ég barðist eins og ég gat, læddi inn sterkum punktum en var borinn ofurliði. Þeirra málstaður var sterkari. Auðvitað er ekki til tærri snilld en að fara beint úr bænum til Köben með kumpánunum. Ef ekkert markvert skilur eftir sig úr slíkri ferð er hugmyndin ein og sér í raun nóg. Nóg til að segja barnabörnunum frá. Sem dæmisögu um hvernig heimskt fólk hagar sér.
Tvær mínútur liðu og allt í einu vorum við staddir í leigubíl. Nói hafði sagt: “Ég splæsi í leigubíl. Ég tékkaði á því og það er enginn rúta á leiðinni”. Við sögðumst ætla að splæsa á hann litlum Carlsberg á Strikinu. Leigubílstjórinn var kátur. Hotel California var í útvarpinu. Við vorum á leið til útlanda. Það var sungið: “Plenty of room at the Hotel California. Any time of year (any time of year), you can find it here.” Leifur heppni blasti þá við okkur. Nói borgaði brúsann og hvínandi hugur var í föruneytinu. Menn óðu inn á flugstöðina sem reyndar var galtóm, eiginlega beint inn á einhverja skrifstofu þar sem Nói var manna ágengastur: “Þrjá miða með fyrsta flugi til Köben”. Við Janni brostum hýrir á brá til afgreiðslukvennanna sem litu stórum augum á okkur. En ekki vorum við hýrir lengi. Kom á daginn að enginn var að fljúga neitt til Köben. Og þegar flugin voru skönnuð var Osló eftir þrjá tíma eina lausn okkar bræðra. Nói leit til baka á okkur og sagði svo hátt og snjallt: “Osló skal það verða!”. Samt ákváðum við að borga ekki á staðnum heldur seinna um nóttina af einhverjum ástæðum.

KEF – I. HLUTI

Mér leið eins og glópi. Allt var til einskis. Janni var sofandi við hliðina á mér og ég tók eftir því að Þjóðverjarnir héldu fyrir nef sín enda áfengisbrælan af okkur yfirþyrmandi. Við vorum forvarnarauglýsing holdi klædd. Hvílík byrði að vera svona heimskur. Ég tafsaði að gott væri að fara að láta rútubílstjórann henda okkur út og skömmu seinna stoppaði hann bifreiðina glottandi. Ég vakti Janna og sagði með mínu bitrasta tónfalli: “Komdu, drullum okkur heim.”


Það var sumar. Hlýtt, svo hlýtt. Á sumrin á ég oft erfitt með að skemmta mér eins mikið og lög gera ráð fyrir þar sem ég vinn yfirleitt um helgar. Sömu sögu var að segja af félögum mínum tveimur sem unnu vaktavinnu. En þetta kvöld var tilvalið til skemmtunar. Allir voru lausir og sannarlega til í að sletta úr klaufunum. Mætti jafnvel segja að kappið hafi verið meira en forsjáin. Ég fór í bæinn þetta laugardagskvöld og meðreiðarsveinar mínir hétu Janni og Nói.

Fram eftir kvöldi höfðum við súpt á öli. Í huga okkar voru markmið kvöldsins skýr; að verða ölvaðir, að vera með hortugheit og leiðindi, að gera eitthvað heimskulegt og njóta kvöldsins. Njóta þess að sötra saman án þess að hafa vinnu eða kvenfólk húkandi yfir okkur.

Við fórum fyrst á Kaffibrennsluna og skvettum í okkur illum óþverra. Það var hugur í mönnum. Menn hugsuðu stórt. Einhver minntist á að nú þyrftum við að fara að endurtaka leikinn og fara aftur til útlanda. Sjá leik í enska boltanum eða eitthvað svoleiðis. Menn ræddu jafnvel dagsetningar. Hvenær best hentaði og svona.

Skyndilega komu inn tvær lögulegar dömur sem félagar mínir könnuðust við. Önnur var að vinna með þeim. Hin var sæt. Held hún hafi heitið Helga. Þær settust hjá okkur. Strákarnir voru að vinna í sundlaugum og báðar dömurnar líka svo þau fóru að tala um sundlaugar af kappi. Klór og handsápu og bara ýmislegt sem tengist sundlaugum. Var ekki alveg að hlusta. Óheppni að almenningssundlaugar voru óvart utan míns áhugasviðs þá. Og pakkið rausaði áfram af eldmóði og áhuga um sundlaugar. Sérstaklega vinnufélagi þeirra. Í huga mér blastaði ég hnefanum í andlit hennar svo blóðið flæddi úr nefinu og sagði: “Syntu í þessu, fáviti”, en ég hætti því þegar sæta stelpan fór allt í einu að tala um fótbolta. Og kom í ljós að hún var ekki bara öldungis foxí heldur fótboltakvendi í, að mig minnir, Stjörnunni. Fórum við að ræða spyrnur og innköst og kom á daginn að hún var hin efnilegasta dama. Einhvern veginn fékk ég símann hjá henni og allt. Það var áður en strákunum leiddist þófið og hugðu að brottför.

Næst man ég eftir okkur á Kofa Tómasar frænda. Ég var eiginlega annars hugsi, segjandi: “Jáá, hún var nú allt í lagi, þessi Helga þarna”. En strákarnir voru í öðrum og meiri hugleiðingum. Utanlandsferðin næsta haust átti hug þeirra allan. Ættum við að sjá Arsenal eða Liverpool? Nú eða Newcastle? Fylleríin úti í Englandi sem aldrei urðu að veruleika voru skipulögð í þaula. Þangað til eitthvað loksins þaggaði í Nóa. Góðu heilli. Það sást langan veg að hugmynd hafði fæðst í höfði hans. Við biðum í ofvæni eftir að hann kæmi henni í orð. Augu hans leiftruðu af ánægju þegar hann loksins stumraði út úr sér: “Núna!”. Við Janus litum hvor á annan. Hann hélt áfram: “Við förum núna! Tökum rútuna suður í Keflavík og bombum okkur til Köben fram á mánudag. Það þarf ekkert vegabréf eða neitt. Bara kortin!! Mixum þetta bara núna! Pælið í þessu! Ég er snillingur!! Snillingur!!” Löng þögn fylgdi á eftir enda þurfti að meðtaka ansi mikið. Ég rauf loks þögnina: “Nói, þetta er flónskulegasta hugmynd sem ég hef heyrt og ef þú ert ekki bara mesta flón sem ég hef á ævi minni kynnst þá...”. Lengra komst ég ekki. Janni gaf mér skyndilega en kurteisislega merki um að þegja og sagði rólegur og alvarlegur í bragði: “Bíddu aðeins Gussi. Ræðum þetta aðeins. Ef við gerum þetta ekki núna hvenær þá? Væri þetta ekki bara eitt það nettasta sem maður gæti gert? Krissi, vertu svolítið sponteiníus, maður. Aðeins meiri víðsýni”. Ég svaraði um hæl: “Ha? Hver er Krissi? Ég heiti Gussi, manstu... Gussi!”

Úbbsí :) :) :)

Jæja, langt síðan ég hef bloggað síðast :) :) Búinn að vera geðveikt latur í þessu helvítis bloggi. Fólk örugglega drulluþreytt á að koma inn á síðuna og sjá bara gamlar færslur :( En ókei, nú hef ég loksins tíma til að blogga smá og bæta upp fyrir bloggleysið :) :) Abbabúbbs... hvað ætti ég eiginlega að blogga um? Það er af svo mörgu að taka! :) Búinn að gera svo geðveikt mikið síðan ég bloggaði síðast! Eiginlega mánuður síðan ég bloggaði síðast :) :) !!!! Vóhó! Heill mánuður! Ýkt lélegur bloggari!! :)

En takk fyrir að lesa þetta, vona að þið hafið gaman af blogginu mínu og ég reyni að blogga aftur fljótt. Næ kannski að blogga aftur á morgun og segja betur frá því sem ég hef verið að gera. Búinn að vera að læra mikið og vinna :( Samt geðveikt gaman að eiga eigin bloggsíðu eins og allir svölu krakkarnir :) :) Og já... allir að skrifa í gestabókina!!! Bæjó.

...

Búinn að lesa alltof mikið af bloggi undanfarið og ákvað bara að prófa nýjar áherslur.