laugardagur, nóvember 26, 2005

Enn kvenmannslaus ólíkt heimskum junki

“Er ég landsins mesti piparpúki?
Piparsveinn er heima húki?
Er ég bjáni? Eða kjáni?
Einn, hreinn sveinn; kvenmannslaus”

Söngsveitin Randver


Um langt skeið hef ég reynt að miðla fræðum knattspyrnunnar til mér yngri manna. Einn lærisveina minna, sem var í minni umsjá í heil fimm ár (kappinn er tíu ára í dag), hafði undir það síðasta djúpstæðar áhyggjur af hjúskaparstöðu minni. Hann botnaði ekkert í því hví ég væri einhleypur, fannst að ég ætti að vera tvíhleypur. Þessi mál ræddi hann sífellt við móður sína og lýsti hvað eftir annað furðu sinni á þessum ráðahag mínum. Einu sinni sagði hann hugsi við móður sína: “Krissi kann örugglega bara ekki að tala við stelpur á sama hátt og ég”. Þar hafði hann örugglega ýmislegt til síns máls. Í sumar, þegar piparjunksfárið var sem mest, kom hann uppljómaður til foreldra sinna og bað þá um að skrá mig í basselörþáttinn. Þannig gæti ég kannski náð mér í kvensu. Hann lagði einnig hart að mér að bjóða mig fram og varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég ákvað að gera það ekki.

Hér fyrir stundu sá ég hins vegar glefsur úr umræddum þætti og verð að lýsa yfir óánægju minni með helvítis junkinn. Þetta er bara djöfulsins garmur. Áðan var hann að þakka fyrir sig á amerískum veitingastað og varð að orði “And as we say in Iceland; takk fyrir versta hamborgara sem ég hef smakkað!”. Glansdúkkan, deitið hans varð vitaskuld vandræðaleg og þá spurði forsmánin: “Fannst þér þetta ekki fyndið sem ég sagði?”. Svo hló mannkertið.

Um leið og ég hafði skipt um stöð og hrækt smánaryrðum að sjómbanum varð mér hugsað til stráksa sem óður vildi að ég yrði hórumangari Íslands. Og eitt lítið augnablik var ég sannfærður um að ég væri betri piparjunkur en þessi gúbbi sem birtist stundum á sjónvarpsskjánum mínum.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Hnattvæðing

Var að þjálfa eitt sinn um hávetur. Útiæfing í alkuli, snjó og strekkingi á gervigrasinu í Krikanum. Eftir æfingu hafði ég hvorki tilfinningu í fingrum né tám. Gekk snögglega frá boltum og keilum og gerði mig kláran fyrir að labba heim. Þetta var 20 til 25 mínútna labb þegar veður var gott. Samt labba ég mjög hratt. Stormurinn varð sífellt ágengari. Snjóhríð, stundum haglél og mikill vindbylur mér í mót. Ég bölvaði því að búa á illu skeri á norðurhjara. Bölvaði þessum ógeðisútnára. Ég skjögraði áfram Álfaskeiðið í hatrammri baráttu við mótvindinn þegar ég heyrði í símanum mínum. Svaraði og þrátt fyrir óhljóð veðurs og vinda heyrði ég mann segja: “They never did like mama's homemade dress; Papa's bankbook wasn't big enough.”

Ég hljóp eins og fætur toguðu að gömlu kjörbúðinni á Álfaskeiðinu (þar sem nú er bílaleiga) og faldi mig bakvið gám. Kengboginn og samanrekinn lá ég í skjólinu og hlustaði á manninn í símanum. Ég hreyfði hvorki legg né lið í sirkabát fimm mínútur. Þegar ég loksins stóð upp og gekk frá símanum sá ég að ókunnugum manni var starsýnt á mig. Hann var klæddur í snjógalla og með risastóra loðhúfu á höfði, stóð með undarlegan svip en steig annað slagið nokkur skref til baka enda með strekkinginn beint í fangið. Hann þurfti að kalla hátt svo ég heyrði: “Er í lagi með þig?”. Af svipnum að dæma var hann með miklar áhyggjur af mér. Ég reyndi að afstýra þessum misskilningi og láta áhyggjur mannsins hverfa: “Jáááá, bróðir minn er á tónleikum með Bob Dylaaan!”. Áhyggjur mannsins hurfu þó ekki við þetta og ég þurfti að útskýra allt saman eins og ég væri að tala við fimm ára krakka. Hann áttaði sig þó að lokum.

Ég kvaddi manninn og hélt áfram förinni en nú með bros á vör. Mér var ekki lengur uppsigað við veðrið eða þennan alheims útkjálka sem ég var staddur á og arkaði löturhægt áfram um leið og ég raulaði ‘Tangled up in blue’ í hljóði.

A poem should not mean, but be

Það er einn gaur sem er skáld. Drullufínt skáld alveg. Og hann var með ljóðaupplestur um daginn sem hafði verið auglýstur út um allar trissur svo dögum skipti. En þegar stóra stundin rann upp voru bara fjórir mættir. Mamma skáldsins, tveir hundgamlir og frekar subbulegir kallar og vinur skáldsins sem var hvort eð er að læra á bókasafninu sem upplesturinn fór fram á. Þegar ég frétti þetta fór ég mikið að spá. Hefur fólk ekki áhuga á ljóðum lengur eða eigum við kannski engin skáld sem trekkja að? Og ég fór á stúfana. Krufði m.a. mest lesna ljóðasmið landsins til mergjar og reyndi að komast að því hvað það væri í kvæðum hans sem heillaði fólk. Fólki til glöggvunar hef ég ákveðið að birta eitt verka skáldsins. Athugið að athugasemdir mínar eru í svigum.

Hvar er ég?
eftir Birgittu Haukdal

ég horfi í augun þín skær
mig langar að komast miklu nær (nær hverju?)
hleyptu mér að þér
sjáðu hér stend ég ein og sár
ég vil ei sjá þig hverfa mér frá (sár rímar illa við frá)
aðeins þig (aðeins þig hvað? Í hvaða samhengi er þessi ljóðlína?)

hvar er ég?
inní þér? (hvernig getur ljóðmælandi verið inni í einhverjum öðrum?)
langar að vita miklu meir
veit ég vil
finna frið (vil rímar ekki við frið frekar en ég við þér á undan)
þú veist ég vil bara aðeins þig (bara aðeins? Þýða þessi orð ekki það sama?)

þótt tíminn standi stundum kyrr (hvenær þá? Útskýra, takk!)
ég hugsa meir um þig en fyrr (hvað kemur það því við að tíminn standi kyrr?)
ég standa vil með þér
tíminn hverfur mér frá (hefur hún skyndilega ekki tíma fyrir hann? Þarf hún að fara? Hvað merkir þessi lína?)

hvern dag sem dvel ég mun þér hjá (hvaðan kemur þetta ‘mun’? Fáranleg ljóðlína)
þig ég vil (vill hún hann semsagt bara þá daga sem hún dvelur hjá honum?)

Verkið ‘Hvar er ég?’ kýs ég að túlka svo að höfundur varpi ákveðinni gátu fram með heiti ljóðsins og að hið rétta svar sé að hann sé í góðu sýrupartíi í Kristjaníu. Á svona 'Fear and loathing' trippi. Reynist þetta ekki meining höfundar skil ég ljóðið alls ekki.

Spurning hvort ég hafi loksins fundið BA-verkefnið mitt: Söngvaskáldið Gitta.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Kórpartí

Kórpartí eru rugl. Því fékk ég að kynnast í eina skiptið sem mér hefur verið boðið í kórpartí. Heima hjá Jóa á Álfaskeiðinu fyrir mörgum, mörgum árum. Ekki það að ég hafi verið í kór samt. Jói sá um það. Ruglpartí alveg. Við Danni vorum reyndar svolítið utanveltu, húktum í eldhúsinu og blönduðum snilldardykki í einhverjum blandara. Á meðal hráefna var heill banani, vanilluís og gomma af áfengi. Reyndum þetta oft seinna en klúðruðum alltaf uppskriftinni.

En kórpartí taka ávallt enda. Það var býsn áliðið þegar við sátum fjögur eftir á Álfaskeiðinu í rólegheitunum. Ég, Jói, Danni og stór og áfengisdauð, belglaga stelpa í sófa í stofunni hjá Jósa. Ég þekkti þessa stelpu ekki neitt, var ekki einu sinni viss um að hún væri í helvítis kórnum. Allt í einu ljómaði Jói upp og sagði: “Vitið þið hvað væri algjör snilld?”. Það vissum við ekki svo hann bar undir okkur þá hugmynd að troða eyrnapinnum í eyru og nef dauðrar stelpunnar. Danni var geim og þeir hófust handa. Hlógu og skríktu. Ég horfði á og hló smá líka.

Allt í einu tók belgurinn að ókyrrast í sófanum og okkur dauðbrá. Jói náði að hlaupa fram í eldhús en við Danni grúfðum í sófann og þóttumst sofandi. Bjórbelgurinn reif eyrnapinnana framan úr sér og stóð upp. Kvendið hóf að erfiða við að girða niður um sig brækur. Ég pírði augun og reyndi að fylgjast með. Svo reyndi kella að labba áfram með brækur á hælum og gekk það seinlega. Hún fékk sér loks sæti í borðstofunni og athafnaði sig þar. Eins og í að míga. Á stólinn. Í teppið. Út um allt. Hysjaði upp brækur, tölti aftur í sófann og sofnaði á ný. Við Dannsi trítluðum fram í eldhús til Jóa og felldum þar tár af hláturs sökum. Jóa fannst þetta ekkert tilefni fyrir spé og var fúll í bragði. Hann gekk rösklega fram úr eldhúsi, til telpu og spurði hana út í verknaðinn. Hún sór allt af sér og neitaði að þrífa. Jói sneri aftur til okkar með skottið milli lappa, algjörlega úrræðalaus. Ég hló. Skellihló eins og kelling sem er uppalin á Akranesi. Danni varð hins vegar reiður og vildi toga sannleikann upp úr kellu. Hann gekk að sófanum og skipaði henni að byrja að þrífa. Ég hló. Hún játaði loks sakir og stóð upp. Gaufaði í kringum vettvang glæpsins en þreif lítið. Sagðist svo þurfa að fara. Jói þreif rest. Ég hló.

Eftir atburðinn hef ég oft farið í matarboð á heimili Jóa, ekki síst af þeim sökum að við erum helvítis frændur. Mér stendur stuggur af þessum boðum þar sem algjör óvissa hefur verið um hver stólanna við borðið er hlandstóllinn frægi. Það er við aðstæður sem þessar að hlátrinum loksins linnir.

Need a little time to wake up, wake up

“When I look so far away
Please don't wake me from my daze
I'm just wondering who I could be
If I lived inside my dreams

I could be a king or a football star
Drive around in a big sports car
An astronaut or a millionaire
I could do anything or go anywhere”
R.D. Davies


Á morgnana manar maður sig út í kuldann, fer í vinnu eða skóla, stritar, lærir, les, borðar, vinnur. Á kvöldin er maður yfirleitt kominn heim, fær sér sæti og slekkur á sjálfum sér um leið og maður kveikir á sjónvarpinu. Svo sækir höfginn á mann og svefninn tekur við. Maður festir blund, dreymir, svífur langt yfir hinu jarðbundna, langt yfir flatneskjulegum hversdagsleika. Breytist í allt, ekkert og ýmislegt þar á milli. Allt þar til flautan gellur í raunheimum og maður þarf að vakna.

Eða vaknar maður? Gæti verið að þá fyrst sofni maður? Þegar maður skríður úrillur og óvær fram úr rúmi eftir óvænt ævintýri nætursvefns, alveg að fara að takast á við hluti sem maður hefur tekist á við þúsund sinnum áður? Gæti verið að þá fyrst sé maður sofandi?

Hvernig get ég réttlætt fyrir sjálfum mér að hætta að dreyma gallsúra, geðfatlaða en frábæra drauma í rúminu mínu svo ég geti farið út í frostið og ferðast inn í höfuðborg til þess að læra um forníslenskar orðmyndir?

...

Jæja, vika 1267 nýhafin og enginn tími fyrir hugsanir. Ætla út í kuldann. Búrr.

Við og þeir

"Us and Them
And after all we're only ordinary men"

Ég hef aldrei verið haldinn hatri í garð gyðinga, samkynhneigðra, litaðra, araba eða Haukara. Hef í raun lagt mig í líma við að vera ekki fordómafullur. Eitt er það þó sem ég þoli verr en fordóma. Það eru helvítis Ólafsvíkingar. Ef það er eitt sem knattspyrnan hefur kennt mér þá er það að Ólsarar eru aum mannkerti og svikulir gígalóar upp til hópa.

Ég hef bara einu sinni komið á Ólafsvík. Ekki langað aftur eftir það. Þetta var fótboltaferð. Var í 3. flokki. Það sumarið vorum við með b-lið sem lék í 7-manna bolta. Gekk frekar illa. Liðin út á landi unnu yfirleitt alltaf þar sem þau tefldu fram a-liði. Ekki með 11-manna lið vegna manneklu. Einu sinni vantaði Garðar Smára þjálfara, leikmenn til að fara vestur á Ólafsvík og bauð öllum hópnum að spila. Þeir sem vildu máttu koma. Við með öðrum orðum að svindla smá. Ég ákvað að skella mér. Eins komu Davíð, Palli og Bjössi man ég. Við vorum svindlmenn.

Við fórum í langferðarbíl. Bílstjórinn var sköllóttur, feitur og opnaði ekki munninn nema til þess að láta lélegan fimmaurabrandara flakka. Varð brátt þreytandi. Garðar Smári tjáði okkur að Ólsarar væru víst með hörkulið, þyrftu nauðsynlega að vinna þennan leik til að komast í einhvern úrslitaleik. Við hlógum að þessu, vorum sannfærðir um að við myndum leika okkur að þeim enda með óhreint og kolólöglegt mjöl í pokahorninu.

Það var frábært veður þennan dag og aðstæður til fyrirmyndar. Fjölmargir bæjarbúar voru mættir á leikinn, greinilegt að hann skipti miklu máli fyrir Víking Ólafsvík. Andstæðingar okkar voru tröll að burðum. Mikla eftirtekt vakti risavaxinn lurkur sem slagaði í tvo metra og var pottþétt 150 kíló. Gat ekki verið að hann væri jafngamall okkur. Hinir voru töluvert léttari en ekki mikið lægri í loftinu. Þegar leikurinn hófst kom líka á daginn að þeir voru ágætir í fótbolta, komust strax í 3-0. Þeir voru jafnframt fastir fyrir, enda líkamlega sterkari en við. Við brugðumst illa við þessu og brutum oft klaufalega af okkur. Þá urðu þeir grófir á móti og spörkuðu okkur annað slagið niður. Strax í byrjun fóru menn að hnýta hverjir í aðra, rífast og skammast. Hatrið stigmagnaðist. Við jöfnuðum í lok fyrri hálfleiks, staðan var orðin 3-3. Í þeim síðari var ljóst að þeir ætluðu að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að vinna leikinn. Við vorum trekk í trekk bombaðir niður. Palli svaraði einu sinni helvíti vel fyrir sig en var kýldur í smettið. Sá sem kýldi var sendur í bað. Dómarinn réði ekki neitt við neitt en reyndi að róa heimamenn enda greinilegt að hann þekkti þá ágætlega. Kallaði einu sinni: "Dúddi minn, slakaðu aðeins á og farðu að hugsa um að spila fótbolta!" en fékk svarið: "Þegiðu, pabbi og reyndu að dæma eins og maður!".

Þegar búið var að kýla Palla var eins og við ákváðum að fara að spila fótbolta, fyrst við vorum komnir gætum við alveg eins unnið helvítis leikinn. Og fljótlega komumst við yfir. Þá varð allt brjálað. Fengum fleiri spörk, svöruðum æ oftar fyrir okkur og tvívegis þurfti dómarinn að stöðva leikinn og láta þjálfarana róa liðin niður. Hatrið var nær áþreifanlegt milli liðanna. Gaurinn sem dekkaði mig var farinn að hrækja á mig og braut nánast alltaf á mér þegar ég fékk boltann. Þeir jöfnuðu í 5-5 þegar lítið var eftir. Skömmu seinna náði ég að koma okkur yfir. Ég fagnaði ekkert með liðsfélögunum heldur hljóp gaurinn sem dekkaði mig uppi, horfði í augun á honum, öskraði: 'jeeeeessssss' og fagnaði eins og óður maður. Settum svo sjöunda markið og ég gerði nákvæmlega það sama. Kannski ekki mín stoltasta stund en sagði pínulítið um andrúmsloftið. Unnum 7-5 og fögnuðum í leikslok, einkum til að pirra Ólafsvíkinga enn frekar. Heimamenn fóru að rífast í okkur og Palli lenti aftur í slagsmálum. Stóri, feiti lurkurinn í liði Ólsara hafði ekkert komið inn á leiknum en var að springa úr gremju. Hann öskraði út í víkina og gekk berkserksgang, fór að angra Davíð sem svaraði fyrir sig með vel völdum orðum. Lurkurinn ætlaði þá að berja Davíð, vaggaði þunglamalega að honum og ég var sannfærður um að við yrðum allir lamdir í stöppu. Ólsararnir munduðu hnefana og voru greinilega til í að láta vindlana að sunnan finna til tevatnsins. Morgunljóst að þeir hefðu lamið okkur alla í klessu. En á ögurstundu kom hjálp úr óvæntri átt. Þegar lurkur var að nálgast Davíð stökk sköllótti, feiti bílstjórinn upp, hljóp á ógnarhraða á vettvang og sneri lurk þeirra Ólsara niður med det samme. Bílstjórinn var miklu minni en sveitadurgurinn en hélt honum í heljargreipum og kallaði um leið til okkar: "Náið í töskurnar út í búningsklefa og hlaupið út í bíl!". Við gerðum sem okkar var sagt og vorum á skotstundu komnir út í bíl með allt okkar hafurtask. Bílstjórinn hljóp til okkar, startaði bílnum og brunaði af stað en Ólsararnir hlupu á eftir og köstuðu grjóti í bílinn.

Það var mikil svitalykt í langferðabílnum á leiðinni heim en aulabrandarar bílstjórans urðu einhverra hluta vegna fyndnari og fyndnari. Hann hafði í einni svipan orðið að hetju. Án hans hefðum við allir verið lamdir. Það hefði þó vart breytt því að við sviptum Ólsaragreyin einhverjum úrslitaleik. Og við með kolólöglega leikmenn innanborðs.

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að einhvern veginn svona hefjist styrjaldir. Með ranghugmyndum okkar um þá og þeirra um okkur.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Jólin, jólin, jólin, jól-i-i-in (I’m begging of you please don’t take my man)

“Hey Santa! Pass us that bottle, will you?”
... sagði guðspjallamaðurinn Ian Andersen


Julebryg er kominn til byggða og mín kanna stendur full uppi á stól, bíðandi eftir að verða drukkin. Ég hef alltaf verið hrifinn af fullum bjórkönnum rétt eins og fullum bensíntönkum og fullum konum.

Jólasveinki með röntgenaugum er byrjaður að fylgjast með. Ef maður er góður fær maður karamellu, óþekkir fá kartöflu. Kallast held ég jákvæð styrking eða umbun í uppeldisfræðum. Jóli sér um að vega og meta hegðun barna og þegar jólahátíðin rennur upp rennur stund sannleikans upp líka.

Ég veit um tvo menn með röntgensjón. Hinn heitir Guðsi. Þeir eru báðir allt í öllu út um allt og ekki hægt að leika á þá. Þá blöffar enginn. Það kemur líka að því að Guðsi fellir yfir þér dóminn. Umbun í húfi fyrir þæga.

En Jóli er plat. Allir fatta það á endanum að fullorðna fólkið stendur á bakvið allan áróðurinn, vopnað karamellum og kartöflum. Tvífari hans og röntgenbróðir, Guðsi, er meiri ráðgáta. Ætli fullorðna fólkið sé líka að grilla í okkur hvað hann varðar? Að halda okkur þægum?

Skiptir það máli á föstudögum? Held ekki.

Ég er ekki aðdáandi jólaauglýsinga í október og nóvember. En ég er aðdáandi Tuborg Julebryg og ljóst er að eitthvað helvítis almanak nær ekki að stía okkur vinunum í sundur svo glatt. Það má kalla þetta tvöfalt siðferði. Hann rennur allavega drullugreiðlega niður þetta árið.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Feðranna frægð þó ekki alveg fallin í gleymsku og dá

Í dag er sérstakur dagur. Þó ekki dalúndagur. Nei, dagur íslenskrar tungu. Fæðingardagur meistara Jónasar. Listaskáldinu til heiðurs hrinti ég útlendingi niður stiga á bókasafninu í dag.

“Þetta mark Ástrala réði baggamuninn”, sagði Adolf Ingi svo hróðugur í fréttunum. Vonandi hrindir einhver honum niður stiga.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Ókindin

Á sumrin var snilld að spila fótbolta við nunnuklaustrið. Toppgras, ljósastaurarnir fínar stangir og klausturveggurinn snilldarbatti. Þegar yfirhöfuð var hægt að spila á grasi fórum við þangað í ein’snertingu, naut eða skiptum bara í tvö. Ég, Stebbi, Gubbi, Davíð, Hjalti, Andri og allir kapparnir í bekknum. Kannski níu ára gamlir. Kannski ellefu.

En leikvangurinn var ekki alveg lýtalaus. Gamanið tók heldur að kárna þegar boltinn fór yfir helvítis vegginn og inn í garð nunnanna. Við vorum skíthræddir við nunnurnar. Þær voru eitthvað svo dularfullar. Sáust nær aldrei á almannafæri. Heyrðum þær samt oft hjala tómt rugl á pólsku þegar þær unnu í kálgarðinum. Þessu pólska babli hreyttu þær yfir vegginn og í okkur meðan við eltum leðrið á ‘Nun Stadium’ í Klausturhvamminum. Ég skildi hraflið alltaf þannig að þær væru sannarlega ekki að fíla að deila veggnum með okkur.

Og einn afdrifaríkan sumardag lenti ég í því óhappi að sparka mínum eigin bolta yfir. Í þá daga vissi maður örlög sín ef maður sparkaði knettinum yfir. Ef einhver annar hefði sparkað honum hefði sá þurft að sækja hann. En böndin bárust að mér. Ég vissi vel af frægri sögu um eldri strák sem var að dingla sér í nunnugarðinum og uppskar þá refsingu að vera rifinn inn í klaustur og skammaður á pólsku fyrir að dirfast inn í garðinn. En ég vissi líka að ég varð að freista þess að endurheimta boltann. Varð að tefla djarft og leggja í þessa svaðilför.

Þó afar fáir þorðu inn í garðinn vissu allir hvernig maður komst þangað. Fyrst þurfti að klifra upp á bílskúr og svo að þiggja ‘fótstig’, eins og það var kallað, frá félögunum. Þetta gerði ég, um leið og hjartað barðist um í brjósti mér. Ég var á leið í hóp örfárra en valinkunnra villinga í hverfinu sem barið höfðu garð nunnanna augum. Og senn blasti hann við mér. Tré, kálgarðar, runnar og blóm hvert sem augað eygði. Mér var hugsað til Edengarðsins úr kristinfræðitímunum. Ég stökk mígandi hræddur inn í garðinn og þakkaði guði fyrir að engin nunna væri í sjónmáli. Ég hljóp hratt milli trjárunna og faldi mig ávallt stundarkorn þegar ég gat mögulega skýlt mér bakvið þá. Það var góð aðferð. Ég fann fyrir æ meira hugrekki og æ minni hræðslu. Þetta var ekkert mál. Ég var alveg að koma að staðnum þar sem mig grunaði að boltinn væri. Ég lét vaða, hljóp framhjá stóru tré sem byrgði mér töluvert sýn en snarstoppaði skyndilega og rak upp kvenlegt óp. Gegnt mér var ófrýnileg, stórvaxin nunna í kálgarði með stóra hrífu í hendi. Hún var eldrauð í framan og svipljót. Ég var augliti til auglitis við þessa vambmiklu og ótótlegu forynju. Mér fannst reiðisvipur og ygglibrún nunnunnar segja mér: ‘Ég ætla að éta þig!’. Ég skríkti skyndilega af hræðslu, sneri við og tók til fótanna. Hljóp hraðar en nokkru sinni fyrr í átt að klausturveggnum. Ég leit til baka og sá þá tröllvaxna nunnuna halda í kuflfaldinn og hlaupa á eftir mér. Ég man hvernig ég stundi af hræðslu á sprettinum. Var með grátstafina í kverkunum. En mér til happs var hún feit og svifasein. Hægfara silakeppur. Ég var skotstund að klifra upp vegginn og til strákanna. Hún mátti auðvitað ekki elta okkur út fyrir klausturvegginn en þó ég vissi að ég væri hólpinn var ég svo hræddur að ég fór beinustu leið heim. Var lengi móður og másandi og enn lengur í algjöru andlegu ójafnvægi.

Nokkrir mánuðir liðu. Það var vel liðið á haust þegar síminn hringdi heima. Svenni bróðir svaraði. Einkennileg, eiturhress rödd hljómaði.
-Jállóóó, jir Krjessmúndúr hjeima?
Svenni var handviss um að þarna væri einhver félagi minn að gera gott grín og svaraði um hæl.
-Jálló, Krjistmúndúr ér sko hjeimaaaa.
Svenni kallaði á mig í símann. Í símanum var nunna. Hún var glöð í bragði og tjáði mér að hluti kartöfluuppskeru nunnanna þetta árið hefði verið hvítur fótbolti.
-Adíns of stjór tila vjíra kjardöfflur, sagði hún og hló skærum, manískum nunnuhlátri.

Ég þorði ekki að vitja knattarins nema í fylgd Svenna bróður og hans úrræðagóða vinar, Sigga E. Ég var skíthræddur um að tröllvaxna nunnuómyndin í kálgarðinum tæki á móti okkur og myndi snappa á mig. Sem betur fer kom smávaxin, vinaleg nunna til dyranna í klaustrinu og lét mig fá boltann. Hann var vel merktur: ‘Kristmundur s. 5 1261’.

Ég fór aldrei aftur yfir vegginn. Samskiptareglurnar milli mín og nunnanna voru skýrar eftir þetta. Þær áttu að fá að vera í friði. Ég þorði aldrei með þegar krakkarnir bönkuðu upp á hjá þeim og sníktu biblíumyndir. Safnaði fótboltamyndum í staðinn.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Keep on running to the hills like hell*

Það var frí í skólanum og ein stelpan í bekknum nýbúin að halda upp á afmæli sitt. Við vorum í 9. bekk. Ég, Kiddi klútur og Danni vorum ekki á því að fara heim alveg strax eftir afmælið svo við klifruðum upp á þak leikskóla og spjölluðum þar. Fórum að raula sönglög út í nóttina. Klukkan var margt og líklegt er að íbúar í kring hafi látið lögguna vita af kvaki okkar ærslabelgja. Við vorum komnir niður af þakinu og alveg að fara heim þegar löggan mætti á svæðið og beindi vasaljósi að okkur. Okkur krossbrá og fyrr en varði heyrðist í Kidda klút: “Hlaupum!”. Hann og Danni tóku til fótanna en ég stóð sauðalegur eftir og skildi lítið í hvert þeir væru að fara svona skyndilega. Upphófst æsilegur eltingaleikur. Kiddi klútur stökk yfir grindverk eins og fimasti fákur og Danni hélt í humátt á eftir. Danni rak sig þó kauðalega í grindverkið, fór úr axlarlið en hélt áfram að hlaupa fyrir lífi sínu með aðra hendi hangandi með síðu. Spretthörð lögga elti þá en ég horfði á þennan einkennilega sjónleik í forundrun og spurði lágt út í myrkrið: “Hvert eruð þið að fara, strákar?”. Brátt kom önnur lögga að mér og bað mig að koma í bílinn til sín sem ég gerði umsvifalaust. Í glæpamyndum gengur oft bagalega að fá skúrka til að skvíla þegar lögginn heimtar upplýsingar en þegar hann spurði mig um nöfn flóttamannanna tveggja stóð ekki á svörum: “Þeir heita Kristinn Bergmann og Daníel Scheving. Eiga heima á Ölduslóð 20 og Lækjarhvammi 23. Kennitölur eru ...”. Hjartsláttur minn var sem samrunninn trommuheila í lagi með 2 Unlimited og skjálftinn í röddinni var upp á níu á Richter. Samt vissi ég vel að við höfðum ekkert gert af okkur.

Sá löggi er elti strokumennina tvo sneri fljótt aftur með Kidda klút. Reif í peysuna hans og dró hann svo harkalega að klúturinn var allur skakkur á höfði hans. Kiddi settist hjá mér í aftursæti löggubílsins. Löggurnar tjáðu okkar að annar löggubíll hefði gómað Danna fyrir utan heimili hans. Einhver var búinn að segja þeim allt um hvar Danni ætti heima. Búið var að kippa öxl Danna í lið aftur. Við héldum upp á stöð. Danni var bara einn í hinum bílnum og lenti í harðvítugri löggu með attitjúd sem m.a. spurði Danna hvað hann hygðist gera eftir grunnskóla. Danni sagðist vera að spá í að fara í MR en þá hló löggi hrossahlátri og sagði: “Þú meinar Iðnskólann, ræfillinn þinn!”.

Á stöðinni hófst yfirheyrslan. Yfir hausamótum okkar flögruðu spurningar: ‘Hvar er fjórði pilturinn? Af hverju voru þið að brjótast inn í skólann ykkar? Hvar fenguð þið flugeldana?’ Við svöruðum skipulega og fljótt varð ljóst að við vorum bara blásaklausir götustrákar sem urðu hræddir þegar löggi fór að beina vasaljósi að okkur. Þegar löggurnar föttuðu þetta var allur vindur úr þeim. Ein þeirra mökkaðist reyndar öll upp og sagði okkur að fara úr fötunum, þeir ætluðu að henda okkur í lækinn. Okkur var ekki skemmt. Hann ítrekaði skipunina: “Setjiði fötin í skápinn hérna, við tökum lækinn á þetta fyrst þið viðurkennið ekkert!”. Eftir langa þögn sagði Kiddi klútur með titrandi rödd: “Hei, nenniði ekki bara að skutla okkur heim?”. Súrir í bragði umluðu þeir ‘jú’ og skutluðu okkur heim.

Danni jafnaði sig aldrei í öxlinni eftir þetta allt saman, fór upp frá þessu oft úr lið þegar hann spilaði handbolta og var settur í nokkrar aðgerðir. Handboltaferillinn stóð á brauðfótum eftir þetta. Hann fór svo oft úr lið að hann komst varla í lið. Kiddi klútur bar sig hins vegar vel, var bara yfirleitt nokkuð brattur og bar höfuðið hátt en jafnframt vel skreytt með rauða tóbaksklútnum. Sjálfur var ég bara heima að horfa á sjónvarpið næstu kvöld á eftir. Hrökk stundum kófsveittur upp um miðjar nætur eftir að hafa dreymt um að busla berstrípaður í ísköldum læk með glampa vasaljóss hlæjandi lögreglumanna í augunum.

Viðbætur:
Sumir vilja meina að sannleiksgildi frásagna minna rýrni mikið vegna þess að ég eigi til að mála frekar sakleysislega mynd af mér sjálfum en láti aðra líta illa út. Þessu er ég sammála. Sama fólk er á því að ég eigi að láta af slíkum stílbrögðum og segja fullkomlega satt og rétt frá. Þessu er ég ósammála.


*Þar sem ég gat ekki ákveðið hvaða lagaheiti væri best til brúks í fyrirsögn varð fyrirsögnin að lagasúpu. Spurningin er því; hvað þrjár söngsveitir eiga flóttalögin sem fram koma í fyrirsögninni? Þar sem ég er eigi með kómentukerfi bið ég fólk um að skrifa svörin á blaðsnifsi og stinga því inn í floppídrif tölvunnar.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Blessuð sértu sveitin mín

Bölv þeim óskunda!

Ég held ég sé að taka beilið á endurfundi gamla grunnskólahyskisins vegna fjárhagsvandræða. Það fer bara ekki saman að vera aumingi og námsmaður og ætla um leið að fara á fín hlaðborð í Grindavík. Horfði á eftir aurnum mínum í bílamix í dag mér til nokkurs ama.

Gaman að svona ríjónjónum alltaf samt. Kyndugt að sjá hvað liðið er að gera í dag. Sumir með krakka, aðrir á krakki og allt þar á milli. Ein skólasystir er bóndi, á hesta og kindur og hrossabrest og sveitakrakka. Er örugglega með niðursetninga á sveitabænum líka. Tvo til þrjá ómaga frá hreppnum. Étur sennilega súrbít í öll mál og þegar hún er búin að éta og mjólka tekur hún svona svarta hestasvipu og ber niðursetningana til óbóta. Lætur vinnumanninn svo lesa rímurnar um Hænsna-Þóri í baðstofunni á kvöldvökum. Konurnar vefa á meðan en smaladrengurinn sleikir askinn sinn eins og óður maður. Eitt kvöldið hefur sonur hennar líklega séð mann nálgast bæinn og stokkið spenntur upp og æpt: “Mamma, mamma. Komumaður nálgast bæinn!”. Svo hefur dularfullur maður riðið að bænum og afhent henni bréf með upplýsingum um ríjónjón ’81 árgangsins sem haldið verður í Bláa lóninu. Þá hefur skólasystir mín hugsanlega sagt: “Bestu þakkir, eðalgöfugi förumaður.”

Ekki það að það sé neitt sveitó að búa í sveit. Örugglega fínt.

Ömurlegt samt að missa af geiminu. Að geta ekki falið eigið óöryggi með aulalegum skotum fyrir framan fólkið sjálft og þurfa að gera það frekar ómarkvisst á alnetinu. Drulluskítt alveg.

Verðgildi fólks

Það skiptir máli að tala rétt. Segja ‘ég hlakka til’ og aldrei ‘ég vill saltstengur’. Það skiptir máli að lesa bækur þó að þær séu stundum langdregnar. Það skiptir máli að hlusta á réttu tónlistina, horfa á réttu kvikmyndirnar og sjónvarpsþættina og mikilvægt er að agnúast út í nýja íslenska piparjúnkinn og sveia yfir nafngift þáttarins (‘bachelor’ er sko útlenska). Það skiptir máli að hafa menntun. Það er betra að vera með BA-gráðu í heimspeki eða finnsku en að vera sjómaður. Það skiptir máli að gera aldrei skandala þegar maður er í glasi. Það skiptir öllu að gæta hófs. Það skiptir máli að klæða sig rétt, eiga margar flottar tegundir jakkafata og að vera virðulegur. Það skiptir máli að eiga nýjan bíl. Það skiptir máli að vera snyrtilegur og raka sig reglulega. Það skiptir máli að þekkja vel til frétta í dagsins önn. Það hjálpar að skrifa greinar í Moggann og Fjarðarpóstinn um mikilvæg málefni.

En það er ekki nóg að vera búinn að ná þessum atriðum öllum. Það þarf líka að leggja alla áherslu á að halda sér undir öllum kringumstæðum á beinu brautinni. Það skiptir máli að gera ekki mistök sem gætu rýrt verðgildi þitt og valdið gengisfellingu.

Þetta er bara spurning um ávana. Þegar maður er lítill venur maður af sér að míga á sig. Þegar maður er stór venur maður af sér að þora að vera maður sjálfur svo maður geti verið eins og hinir.

Vertu með. Það er gaman.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Strætóbíllinn brunar

Þangað til í dag hafði ég ekki keyrt um á bílnum mínum svo vikum skipti. Fram að því voru einu not mín fyrir einkabíla þegar ég labbaði framhjá kyrrstæðum bílum, speglaði mig í bílrúðum og hugsaði; ‘jább, ennþá flottur’. Hugsa reyndar líka stundum; ‘djöfull þarf ég að raka mig’ eða ‘djöfull þarf ég í klippingu’ og jafnvel ‘djöfull er ég fullur hégóma að vera að glápa endalaust á sjálfan mig í bílrúðum’. Er að reyna að venja mig af þessu.

Mitt helsta farartæki undanfarið hefur semsagt strætóbíll. Og það hefur verið djöfullegt á köflum. Að vakna snemma, fara út í skítakulda og bíða eftir að miðstöðin í bílnum komist á skrið er rotið. En öllu verra er að standa eins og fuglahræða í brunafrosti og gaddi og bíða eftir strætóbílum. Verst er þó þegar maður kemst inn í béaðan vagninn og lendir á torkennilegum gumpi sem fullkomlega óumbeðinn segir manni frá öllum leiðum strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu.

En til allrar lukku komst skrjóðurinn minn í lag í dag og mun ég hér eftir helga líf mitt þeim starfa að keyra um og skutla fólki sem bíður eftir strætóbílum í kulda og trekki til síns heima. Svona eins og Hrói Höttur nútímans nema bara á bíl og í öðruvísi sokkabuxum. Ég mun hefja störf um leið og mamma er búin að sauma búninginn.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

You would cry too if it happened to you

Fór í mína fyrstu vísindaferð á föstudaginn. Tók mér stöðu við opinn bar um fimmleytið og byrjaði að sulla af krafti, grunlaus um hvaða afleiðingar svona ferðir geta haft. Sex tímum seinna stóð ég með míkrafón í hendi á stórum palli fyrir framan fullt af fólki syngjandi Kríb á Ölveri. Þetta var í fyrsta sinn sem ég syng karókí ef karókíkeppni grunnskóla Hafnarfjarðar 1996 er undanskilinn. Í tilefni af því að ríjónjón gamalla grunnskólafélaga verður haldið bráðlega ætla ég að rifja þá stuttu sögu upp.

Fjórir félagar, ég, Gunni, Danni og Jói, mönuðum hvern annan til að syngja í keppninni og úr varð að reyna að fá að syngja fjórir saman. Einhverra hluta vegna var það ekki mögulegt og því stóðum við frammi fyrir því að þurfa að syngja tveir og tveir saman. Ég man að ég tók af skarið og valdi að vera með Jóa því ég vissi að hann gat sungið smá. Gunni og Danni mynduðu því hitt teymið. Söngflokkarnir tveir voru því næst sendir í sitt hvort hornið þar sem menn völdu lög og upphugsuðu strategíu. Við Jói brutum höfuðið mikið, vorum að spá í 'Mighty Quinn' með Bob Dylan lengi vel en ákváðum að lokum að fá leðurjakka lánaða hjá stóru bræðrum okkar og syngja ‘Born to be wild’. Við ætluðum að freista þess að vera með sviðsframkomuna í lagi og bæta þannig upp lagleysið. Hittum loks Danna og Gunna, sögðum þeim frá okkar lagi og spurðum hvaða tónverk þeir ætluðu að taka. Þeir ljómuðu og færðust allir í aukana þegar talið barst að þeirra lagi, sögðust hafa fengið snilldarlega hugdettu og voru svo óþreyjufullir og spenntir að ég fann strax fyrir smá afbrýðissemi. Allt þar til þeir tjáðu okkur að lagið þeirra væri ‘It’s my party and I can cry if I wan’t to’ og yrði flutt í kvenmannsdrögtum. Við Jói litum hvor á annan og mér fannst eins og undrunarsvipur hans segði mér ‘takk fyrir að hafa valið mig’. Ég var alveg að fara að útskýra fyrir Danna og Gunna að svona gerði maður ekki svo annað fólk sæi en langaði pínulítið að sjá þetta atriði þeirra og ákvað að segja þeim það bara eftir performansinn.

Senn hófst keppnin og okkur Jóa gekk ágætlega. Brutum m.a. blokkflautu í gítarsólóinu. Þegar systir mín spurði mig nokkru síðar hvort ég vissi um flautuna hennar yppti ég bara öxlum og skimaði flóttalega í kringum mig. Hefur tekist ágætlega að lifa við að hafa rænt hana flautuleikaraframanum. Danni og Gunni komu á eftir okkur og sungu ‘It’s my party and I can cry if I wan’t to’. Í drögtum og með kollur.

Samnemendur okkar dæmdu atriði þeirra reyndar ekki eins harkalega og ég hélt að raunin yrði. Ljóst er þó að sagan dæmir það af vægðarleysi. Skiptir kannski ekki máli þar sem Guðrún Árný vann helvítis keppnina eins og alltaf. Allar heimsins blokkflautur hefðu ugglaust ekki getað breytt því.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Uppgjör við uppalendur

Þegar ég var lítill voru föstudagar alltaf eins. Heimatilbúin pítsa í matinn og áður en borðað var fór fram heilög stund fyrir framan sjónvarpið. Þá voru Strandverðir. Við brósi horfðum alltaf á Strandverði. Rákum upp stór, útstæð augu (sem minntu á augu Ástþórs Magnússonar) og góndum. Man að einu sinni starði ég svo hart á stelpurnar á ströndinni að það kom sprunga í sjónvarpsskjáinn. Lengi vel hafði ég samt ekki hugmynd um af hverju CJ var uppáhaldspersónan mín í þessum þáttum, fattaði það ekki fyrr en nokkrum árum seinna.

Í dag er ég enn að leiðrétta ýmsar ranghugmyndir sem Strandverðir létu mér í té. Ég hef lært að það er rangt að hlutgera stelpur (ekki einu sinni þó þær séu mjög flottar) og ég veit núna að fæstar þeirra eiga rauð flotholt. En oft er þetta erfitt. Stundum þegar ég fer í bæinn með félögunum sé ég CJ-ar út um allt. Þegar ég villist inn á staði eins og Hverfisbarinn (undantekningarlaust eingöngu til að spyrja til vegar) verður mér gjarnan um og ó. Allt úir og grúir í fáklæddu kvenfólki með stór flotholt. Það vantar gjarnan bara litla hreinskilna krakkann úr ævintýrunum til að banka í stelpurnar og segja: ‘en þú ert ekki í neinu!’.

...

Hverfisbar bernsku minnar var í enn meira uppáhaldi en hinir þrýstnu verðir strandarinnar. Hann var staddur í miðri stofunni heima og hét Staupasteinn. Ég leit einna mest upp til glaðværa bjórbelgsins Norms. Hann var allra manna fyndnastur á kránni, gerði bæði grín að sjálfum sér og öðrum og var í miklum metum hjá öllum á knæpunni. Allir voru vinir Norms. Menn hrópuðu nafn hans þegar hann mætti á svæðið og leituðu jafnvel til hans í kröggum. Oft þráði ég að vera eins og Norm. Kaldhæðinn gleðigandur en um leið hlýr og mikils metinn.

En þegar ég varð eldri og fór að stunda pöbba sjálfur áttaði ég mig á að þættirnir um Norm og félaga voru fullkomlega á skjön við raunveruleikann. Fyrir það fyrsta var aldrei neinn fullur á Staupasteini, aldrei sá á Norm og Cliff, sama hvað þeir þjóruðu. Á pöbbum raunheims er fólk heldur ekki með sama græskulausa húmorinn. Ef ég myndi skjóta einni vinalegri Cliff-skrýtlu á sessunautinn á barnum yrði ég líklega laminn fyrir dónalegheitin.

Staupasteinn gaf falsmynd af knæpulífi alveg eins og Strandverðir af strandlífi. Í Staupastein vantaði mikilvægasta faktorinn í formúluna, sjálft áfengið.

Margar af ranghugmyndum mínum um lífið eru semsagt sprottnar upp frá sjónvarpsáhorfi. Oft hef ég spáð í að leita mér aðstoðar, t.d. hjá sálfræðingum, en er um leið smeykur um að þá fari ég kannski að efast um vinnubrögð góðvinar míns, Frasiers Crane. Sem væri vont.

Og ekki láta mig byrja á staðreyndavillum í þáttunum um Búrabyggð.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Red, red ref

Í sumar upplifði ég í fyrsta sinn að þjálfa stelpur í fótbolta. Svona níu ára stelpur. Það var fínt. Lenti í einu sérstaklega súru augnabliki.

Vorum að spila við KR á einhverju smámóti í Mosfellsbæ. Ungur piltur var að dæma, á að giska 19 ára. Einhver hafði neytt hann til að dæma nokkra leiki og hann var augljóslega aðeins of töff fyrir þetta hlutverk. Var varla að nenna þessu. Hann nennti til dæmis ekki að hlaupa á eftir leikmönnum, tók sér bara stöðu á miðjunni og var svalur á því. Þetta var hörkuleikur, okkar lið var að vinna með einu marki þegar lítið var eftir.

Stelpurnar sem voru að spila voru eiginlega alls ekki sérlega skotfastar, þegar hreinsað var frá marki álpaðist boltinn yfirleitt bara örfáa metra, svona eins og gengur og gerist í yngri flokkum. En algjörlega upp úr þurru tókst einni KR-stelpunni að smellhitta knöttinn einu sinni svo eftirminnilega að hann flaug á ógnarhraða um loftið. Og viðstöddum til lúmskrar kátínu endaði hann beint framan í dómara leiksins sem skaust aftur á bak og lá brátt afar lúpulegur í grasinu. Stelpurnar hættu að spila enda flestar í hláturskasti. Eftir örstutt hlé vildi dómarinn þó halda leik áfram. Á meðan stelpurnar héldu áfram að sprikla hélt hann þó fyrir nef sér og kom á daginn að hann var með fossandi blóðnasir. Blóðið var út um allt, á bolnum hans, buxum og andlitið auðvitað alblóðugt. Ég hljóp inn á, bauðst til að dæma sjálfur og bað hann að láta hlúa að sér en spaðinn var sko ekki á því, enda bara tvær mínútur eftir. Áfram blæddi lokamínúturnar og hvítur bolurinn var orðinn alrauður og gegnblautur. Loks flautaði hann af og hljóp í burtu.

Ég efast um að stelpurnar hafi nokkurn tíma séð eins mikið blóð á ævi sinni en það breytti þó ekki þeirri staðreynd að þær voru alsælar með uppákomuna. Eiginlega skipti engu máli hvernig leikurinn fór, bæði lið voru í skýjunum. Ég heilsaði seinna upp á greyið dómarann sem var allur að braggast. Ekkert blóð lengur framan í honum en þó ennþá sami sauðalegi svipurinn. Og það versta af öllu; kúlið var gengið til þurrðar.

Gamli bærinn sem fóstraði mig*

Ég er ekki að fíla að helvítis Keflvíkingar séu að reyna að koma bænum sínum á kortið sem víkingapleisi. Að sveitarfélög hnupli hálfpartinn hugmyndum í stað þess að finna sín eigin sérkenni. Spurning um að svara í sömu mynt, ræna Rúna Júl og heimta að fá víkingaskipið þeirra í lausnargjald. Eða að loka Keflavíkurveginum svo fólk komist ekki til þessa krummaskuðs. Helvítis Keflvíkingarnir eiga sér það reyndar kannski til málsbótar að það er í anda víkinganna að ræna, hvort sem það eru hugmyndir eða eitthvað annað. Svo er líka himinhá glæpatíðni í þessu syndabæli suðursins. Þó þeirra glæpamenn berjist ekki með öxum eins og okkar.

Í kjölfar þessa leiðindamáls hef ég svolítið verið að hugleiða hvað mitt bæjarfélag geti gert til að efla ímyndina og auka ferðamannastraum. Ég vil meina að fyrst og síðast vanti okkur alvöru lukkudýr (gaflaradúkkan er náttúrulega hjákátleg). Hafnarfjarðardvergurinn gæti komið sterkur inn. Alvöru úfmæltur dvergur í ofurhetjustíl, með skikkju, í latexgalla og með vitann á kviðnum. Hann yrði í fullu starfi, tæki á móti öllum sem flytja í bæinn og væri viðstaddur allar helstu samkomur. Á 17. júní yrðu hátíðarhöldin ávallt sett með því að skjóta honum úr fallbyssu á Víðistaðatúni.

Eða að setja á laggirnar hið íslenska gimpasafn að fyrirmynd gamla sædýrasafnsins. Safna saman helstu furðufuglum okkar, kenna þeim sniðug trix og setja í búr. Frík eins og Bobby Fisher, Halli pólfari, Ástþór Magg, Gillzenegger og Jónína Ben koma upp í hugann. Sérstök hljómsveit íslenskra fáráðlinga með gítareigandann Árna Johnsen og Leonsí í broddi fylkingar gæti spilað á góðum stundum. Hafnarfjarðardvergurinn væri auðvitað safnstjóri og myndi leiða gesti og gangandi um safnið.

Eða að hasla okkur völl sem geifrendlí bæ. Friskó Íslands. Hinn hýri Hafnarfjörður.

Eða að láta Dengsa og Dolla syngja saman smellið sönglag... nei það er víst búið að gera það.

Eða að koma upp amersýktu samfélagi á Völlunum eins og Keflvíkingarnir.

...

Nóg komið af pólítík í bili. Þetta er þó bara snefill af hugmyndum mínum um bæjarmál. Mín helstu tromp bíða betri tíma.


*Fyrirsögn stolin frá keflvískum Hljómum