föstudagur, desember 29, 2006

Állög

“Vertu ekki að plata mig,
þú ert bara að nota mig.”


Í fyrsta lagi er bara alls ekki við hæfi að gefa hugsandi fólki disk með Bó Hallcan í jólagjöf. Ekki undir neinum kringumstæðum.

Í öðru lagi kemur eftirfarandi textabrot fram í laginu ‘Í útvarpinu heyrði lag’ sem einmitt er á plötunni sem Alkanistar gáfu Hafnfirðingum:

“Lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-lá-ú-ú-ú – Twinkle little star”

Ef þetta lag er leikið afturábak heyrist hins vegar:

“Rats elttil elkniwt – ú-ú-ú-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL-ÁL”

Rist og Straumsvíkingar mega skammast sín.

...

Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka krökkunum á Dominos fyrir fallega jólakveðju. Hrói og Papinos mega stinga sínum pítsum í rassvasann á sér.

Heimski vanþroski

“I know we've come a long way,
We're changing day to day
But tell me where do the children play”


Ég fékk margar fínar jólagjafir en sú sem stendur klárlega upp úr er apahúfan. Þetta hræðir mig nokkuð í ljósi þess að þjóðskrá segir mig 25 ára gamlan.

Jólaguðspjallið

Sagan af fæðingu Jesú er klassík. Ekki skrýtið að fólk rifji hana upp á hverjum einustu jólum. Guðspjallið tekur á eilífðarspurningum sem eiga ávallt rétt á sér. Spurningum eins og: Hvað er aftur mirra?

The drugs don’t work

Ég fyrirlít ekkert meira en dópista. Fólk sem kýs að sprauta eitri í æðar sínar. Oj. Mínar hetjur eru af öðrum toga. Þann flokk skipa íþróttamenn eins og Diego Maradona og alvöru músíkmenn eins og Keith Richards og Hendrix. Svo ekki sé minnst á rithöfundinn Irvine Welsh sem skóp mína eftirlætissöguhetju; Mark Renton.

Thank you for the music

Á árinu 2006, sem senn er liðið í aldanna skaut og aldrei kemur til baka og sérhver er gengin þess gleði og þraut og það, fór ég á nokkra konserta.

Í júlí sá ég hin skosku undur, Playtones, á skítugum pöbb í Edinborg. Þeir eru sagðir næstu stórstjörnur hálandanna og alveg flennifínir satt að segja.

Í nóvember sá ég hinn vængjaða Sufjan Stevens frá Amerikistan. Hann söng í kirkju og var þrumunettur. Eiginlega kengmagnaður.

Í september sá ég Nick Cave spila í höll. Það var í fyrsta sinn sem ég sá mann með mottu sem hélt kúli fullkomlega. Ótrúlegir tónleikar.

Í maí sá ég Raymond Douglas Davies spila í kvikmyndahúsi. Gaurinn var rugl. Brilleraði með bjánaglottið framan í sér allan tímann. Vel hugsanlega skemmtilegustu tónleikar sem ég hef séð.

Í kvöld fer ég á útgáfutónleika Jóa Skag. Jói er eins konar endastöð á eftirminnilegu tónleikaári, sá ári. Hann er jafnframt eini maðurinn sem getur steypt Ray Davies af stalli sem tónlistarviðburður ársins. Ég bíð spenntur.

sunnudagur, desember 24, 2006

All I want is the truth, just gimme some truth

Hreinskilni er dyggð. Konur vilja hreinskilna menn. Þær segja það oft í blaðaviðtölum og sögðu það oft í Djúpu lauginni (það felst gríðarleg hreinskilni í að viðurkenna að hafa horft á Djúpu laugina).

Hreinskilni maðurinn er hins vegar ekki til. Til að fúnkera dagsdaglega þarf maður að bæla niður tilfinningar. Halda allri hreinskilni í skefjum. Vera kurteis og þolinmóður. Taka tillit til annarra. Passa að ganga ekki of langt. Ekki særa aðra og ekki segja hluti sem koma seinna í bakið á þér. Halda fólki góðu.

Lygar eru hins vegar dagleg rútína hjá okkur öllum. Að segja ekki allan sannleikann nema þegar það hentar. Að segja nákvæmlega það sem veldur ekki leiðindum eða veseni. Þetta fattaði ég í kvöld þegar ég spjallaði við fimm ára mann um jólasveininn. Ég laug fyrst aðeins að honum og svo sagði hann mér af sinni barnslegu einlægni allar lygarnar sem aðrir höfðu sagt honum. Í hreinskilni sagt leið mér mjög illa meðan á þessu stóð.

Ég veit ekki með ykkur en ég er hættur þessu bulli. Héðan af ætla ég að vera hreinskilinn. Hreinskilinn alltaf og allstaðar. Hvergi verður dregið undan. Næsta færsla verður um þegar ég meig undir í september.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Two Princes

“Prince Charming, Prince Charming,
ridicule is nothing to be scared of”


Einn minn eftirlætis æringi og ættingi, Jói Skag, er nýkominn frá Lundúnum. Eins og sannur túristi lét hann götulistamann teikna mynd af sér og spúsu sinni, Bryndísi. Myndin lítur svona út (vona að ég brjóti engin höfundarréttarlög með því að vísa á hana):

Téð mynd

Ef einhverjum þarna úti finnst Jói (sem er til hægri á myndinni) ekki líta nákvæmlega út eins og Prince á þessari mynd mun ég velta mér upp úr tjöru og fiðri og hlaupa um Smáralindina drekkandi hreinsivökva að kvöldi Þorláksmessu.

Að lokum er ef til vill við hæfi að benda á tónlistarsíðu hins íslenska poppprins.

sunnudagur, desember 17, 2006

Andi jólanna

Er hægt að vera jólaandsetinn?

Þegar hámenningin hitti lágmenninguna

Erum við að tala um að Jókasta, mamma Ödipusar, hafi verið fyrsta MILF-ið?

Hleranir

“Wish I had a more direct connection.
This party line was here when I arrived.
And I'm not voting in the next election,
If they don't do something about finding out
The person who is on my party line.”

Ég var með mjög öflugan punkt en fór svo að humma þetta gamla Kinks lag og gleymdi honum. Meiningin var á þá leið að ég fílaði hleranir af því þær væru svo njósnó en hún var bara betur orðuð og eiginlega mjög djúpvitur.

Drög að stuttmynd

Sem ég lærði síðla kvölds á fjórðu hæð í Árnagarði datt mér í hug handrit að stuttmynd. Söguþráðurinn er eftirfarandi:

1. Eldgamall prófessor drekkur soðið kaffi á skrifstofu fullri af rykföllnum bókum (hann gæti heitið prófessor Bragi Skagalín). Þetta gerist seint um kvöld á fjórðu hæð í Árnagarði..
2. Prófessorinn byrjar skyndilega að fagna, dansa og valhoppa, hleypur fram á gang í leit að fræðakollegum en þeir virðast allir vera farnir heim.
3. Prófessorinn hleypur þá ofsakátur að stigaganginum en rennur til (hugsanlega á axlaböndum sem lafa einkennilega niður) og dettur niður stigann.
4. Prófessorinn liggur á dánarbeðinu og stumrar út í nóttina: “Ég veit... hver skrifaði... Njálu...”.

...

Veit einhver símann hjá Balta?

fimmtudagur, desember 14, 2006

Hættur!

Um langt tímabil hef ég reynt að blogga blogg á þetta blogg með frekar slælegum árangri. Bloggstreymi á síðuna hefur verið mismikið og hún oftsinnis legið í öndunarvél. Á þessum tíma hef ég átt góða daga og slæma. Verið duglegur og óduglegur. Farið í gegnum sjálfsskoðun og rannsakað hversu mikinn bloggaga ég hef í mér. Þegar ég lít yfir minn ómerkilega bloggferil hef ég hins vegar komist að því, mér til mikillar armæðu, að ég hef aldrei bloggað um hættur.

Nú þegar hálkan ríður vart við einteyming (eða segir maður einhyrning?) er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir þeim hættum sem henni fylgja. Sjálfur kynntist ég þessari hættulegu hættu í gær þegar ég féll kylliflatur er ég reyndi að ná strætó. Samferðafólki mínu fannst þetta skoplegt og tvær litlar stelpur og þroskaheftur maður hlógu að mér og híuðu. Sem betur fer meiddist ég ekki við fallið en var frekar niðurdreginn í strætóbílnum. Langaði mikið að fella þroskahefta manninn er hann gekk framhjá mér og út úr vagninum nokkru seinna. Gaf stelpunum líka væna löngutöng sem þær sáu ekki þar sem ég var í þykkum lúffum.

Ég tel það mína samfélagslegu skyldu að vara allt gott fólk við bæði hálkublettum og þessu ónærgætna þríeyki sem hlær að óförum annarra í S1-vagninum. Áfram Ísland!

Jólarokkgáta

Ný gáta hefur verið smíðuð en þessi er ekki venjuleg rokkgáta eins og svínagátan um daginn heldur alvöru jólarokkgáta. Spurt er um fjögur lög og svo hvað þau eiga sameiginlegt.

1. Stemmning sem ekki hefur tíðkast hérna síðan árið 1969.
2. Þegar ég þurfti á sólskini að halda rigndi.
3. Þegar Fanney var sú eina sem sendi kveðjur til allra.
4. Í fæðingarbæ mínum bjó maður sem sigldi til hafs.
5. Hvað eiga lögin fjögur sameiginlegt?

Enn á ný skal skila tilgátum á rafrænum pósti á rafrænt heimili mitt (krg4@hi.is) og enn á ný er bjór í fundarlaun (þó ekki venjulegur bjór heldur alvöru jólabjór).

sunnudagur, desember 10, 2006

Stóra Bretland II

Annars er ég bara góður. Byrjaði trippið þó frekar illa. Ætlaði að koma Danna á óvart og færa honum íslenskt vatn í nokkrum flöskum en þær voru teknar af mér strax á flugvellinum. Í kjölfarið var ég tekinn inn í skrýtið herbergi og naugðað með hnefa. Þarf alltaf að sitja á púða núna. Vona að það gangi betur með skoska vatnið á heimleiðinni.

En eftir þetta fór að rætast úr ferðinni. Hitti vinina í Baggalúti í fríhöfninni og komst loksins að því hver Enter, fyndnasti maður Íslands, er í raun. Tapaði reyndar fyrir skoskum kvenkennara í billjarð á föstudagskvöldið en vann tapsáran Englending skömmu síðar. Sá ruddaleik Hearts og Motherwell á Tynecastle í góðri stemmningu. Svolgraði svo niður þýsku jólalímvíni í jólaþorpinu. Drakk í mig skoska menningu og hristi af mér skoska menningartimburmenn daginn eftir. Á morgun er það svo bjór og jólagjafir. Næsta skref að vekja hrúguna í svefnherberginu og draga hana með á pöbbinn. Spurning um nokkra gula og sveitta og fara svo í bæinn að skoða kjeeellingar. Í versta falli kjeeestalann.

Stóra Bretland

Sírenuhljóð stórborgar öskra út í kvöldið sem ég rita þessi orð í hrörlegri íbúð við Watson Crescent í Edinborg. Hundur geltir og annað slagið heyri ég í aröbum að rífast. Þetta hafa verið erfiðir dagar sem au pair hjá hinum hortuga McDaniel.

Samt er allt hálfkyrrlátt. Daníel húsbóndi sefur vært inni í herbergi og ég get nýtt þetta dýrmæta augnablik í fullkomnum friði og ró. Búinn að vera að skoða klám og svona. Datt inn á háklassa einhyrningasíðu.

Nú er hins vegar tækifærið til að blogga. Málið er að við Danni erum einir eftir í einkennilegri bloggkeppni sem við settum á fyrir nokkrum vikum. Allir þurftu að blogga fjórum til fimm sinnum í viku og sá sem stendur einn eftir fær góða slummu af hágæða bjóröli. Í þessari viku á ég eftir að setja inn tvær færslur. Og meðan á dvöl minni hjá herra McDaniel í Edinborg hefur staðið hefur asnakjálkinn bannað mér að nota bölvaða tölvuna svo hann beri sigur úr býtum.

Annars talar Danni svolítið upp úr svefni. Umlar mikið meðan ég er að skrifa þetta. Heyrðist hann segja: “Ég dýrka Abba”. Svo var hann eitthvað að tala um að hann langaði í brjóstaaðgerð. Hann er líka ljótur þegar hann sefur. Slefar mikið og tungan lafir bara út í loftið.

Hundurinn er hættur að gelta. Arabarnir væntanlega á bak og burt líka. Fast Show byrjað í tévaffinu. Vona bara að gerpið sofi áfram.

föstudagur, desember 08, 2006

Bull, ergelsi og firra

“Have yourself a merry merry Christmas
Have yourself a good time
But remember the kids who got nothing
While you're drinking down your wine

Father Christmas give us some money
We've got no time for your silly toys
father Christmas please hand it over
We'll beat you up so don't make us annoyed”


Óðum styttist í verslunarmannahelgina. Fólk er því strax byrjað að þramma um kringlurnar í leit að drasli. Drasl umlykur jólin. Jólaskraut, englar, sveinkar, músastigar og hvað þetta heitir – allt er þetta eðaldrasl.

Verst er samt þegar markaðsfræðingarnir taka drasl, dulbúa það sem algjört þarfaþing og auglýsa það svo villt og galið. Þeir töfra fram tilgangslaust en vel auglýst djönk sem þeir selja á 5.990 eða 16.990 (því þeir vita að við vitum að það er alltaf hagstætt að kaupa hluti sem enda á 990 kr.). Fyrir hver jól auglýsa menn glænýtt gismó sem 'enginn getur verið án'. Þessu drasli er yfirleitt beint að börnum sem linna ekki látum fyrr en foreldrar þeirra kaupa það og tryggja um leið að allir brosi pottþétt á aðfangadagskvöld. Á annan í jólum er draslið hins vegar komið inn í geymslu.

Tilgangur jólanna er að sjá í gegnum þetta plott. Passa að uppbyggilegar gjafir séu í öndvegi, bæði í pakkanum og á óskalistanum. Það geri ég. Geri heldur ekki miklar kröfur í ár. Skelfirinn er í raun það eina sem mig langar í. Og diskurinn með Helga úr ædolinu. Dey sáttur ef ég fæ þetta tvennt.

Svo má heldur aldrei gleyma að hugsa til allra barnanna í þriðja heiminum. Þau fá yfirleitt bara bækur í jólagjöf.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Tækni?

“Åh, Ring, Ring
Bara du slog en signal!
Ring, Ring
Tystnaden är så total!
Ring, Ring
Skingra den oro som mal”

Ég var með síðustu móhíkönum minnar kynslóðar sem fengu sér gemsa. Taldi þetta bólu eins og tölvukubbsgæludýrin og poxið. Þessir smávöxnu símar eru hins vegar staðreynd í dag. Og vissulega notaðir á ýmsan hátt. Í gegnum svokallaðan síma horfir fólk nú á sjónvarp, fer á internetið, tekur ljósmyndir og jafnvel kvikmyndir, fer í flókna tölvuleiki, sendir tölvupósta og smáskilaboð, hlustar á tónlist og útvarp. Góðra gjalda vert svo sem. En enn þann dag í dag hef ég aldrei séð síma með áföstum upptakara, til að mynda fyrir bjórflöskur. Og það sem meira er; enn hef ég ekki séð síma dansa eins og dansandi kókdósirnar með sólgleraugun gerðu um árið. Fær mann til að hugsa: Erum við virkilega ekki komin lengra en þetta?

...

Árið 1906 riðu 200 sunnlenskir bændur til Reykjavíkur og sóttu að Hannesi Hafstein til að mótmæla hinu nýja og skrýtna apparati, símanum. Að hundrað árum liðnum væri ef til vill við hæfi ef einhver hugrakkur færi að ýta á eftir þessum upptakara.

föstudagur, desember 01, 2006

Skelfileg mistök

Adolf Ingi er ekki lengur óvinur minn. Ég biðst afsökunar á harkalegum og heimskulegum orðum um hann og er að spá í að segja af mér sem ritstjóri þessarar síðu. Adolf Ingi og Adolf fjöldamorðIngi eiga einnig ekkert sameiginlegt og viðbjóðslegur leikur að minnast á þá í sömu setningu. Það hljóp bara einhver Össur í mig, ég var ráðvilltur þegar ég reit þetta og ekkert búinn að borða lengi. Nýi óvinur minn er þessi hérna. Algjört krútt.

Shitler

Adolf Ingi Erlingsson er hér með höfuðóvinur minn í lífinu. Ég neita því staðfastlega að koma frá sama landi og Adolf og vil meina að hann sé frá því ókunna landi, Óþolandi. Þó það hljómi dapurlega af minni hálfu líkar mér eiginlega betur við nafna hans Hitler. Reyndar myndi ég mæla með honum í hlutverk David Brent ef íslenska útgáfan af Office liti nokkurn tímann dagsins ljós. Þó er það önnur saga.

Máli mínu til stuðnings bendi ég á þetta myndbrot frá RÚV og bið fólk að smella hnappnum á sirka 23% til að sjá helvítis gúbbann syngja karókí. Annars bendi ég auðvitað líka á íþróttafréttir og Helgarsportið. Fullkominn moðhaus á ferð.