mánudagur, október 31, 2005

Gaman að því, gubbinu

Var að heyra sögu af manni sem átti að halda fyrirlestur fyrir börn í 8. bekk. Flakkaði milli skóla og talaði alltaf við heilan árgang um e-ð mjög mikilvægt sem ég man ekki hvað var. Nema hvað, einu sinni var hann haldinn magaónotum slæmum og hálfefins um hvort hann væri yfir höfuð í standi fyrir að halda fyrirlestur. Ákvað þó að láta til skarar skríða með þeim afleiðingum að ákveðið babb kemur í ákveðinn bát í miðjum fyrirlestri. Kall gubbar yfir pontuna fyrir framan 70 8. bekkinga. Náði ekki einu sinni fram á gang. Ekki fékk ég spurnir af viðbrögðum krakkanna en stundum loka ég augunum og ímynda mér þau. Glaður hefði ég viljað upplifa slíkt atvik sem ungur piltur. Glaður.

Hún er nefnilega alveg merkileg þessi athöfn þegar hálfmelt fæða vellur úr munnvikum manna. Göldrum líkust. Svo sammannleg reynsla. Allir kunna góðar sögur af gubbi. Gubb er bara í eðli sínu svo skoplegt að héðan í frá er ég að spá í skrifa bara sögur sem enda á því að einhver gubbar. Það er líka fínn ísbrjótur á mannamótum að tala um gubb. Gubb og veðrið klikka aldrei. Ef maður sér sæta stelpu og er orða vant gæti verið gott að smella smá gubbsögu á maddömuna; ‘Sæl, Krissi hér. Gubbaði einu sinni út um allt í flugvél.’ Eftirleikurinn afar líklega auðveldur.

...

Og ég kann fleiri sögur af gubbi.

Heyrði einu sinni af stelpu sem fékk pestina hroðalegu og hafði ælt og ælt af áfergju. Ætlaði svo að lýsa þessari kvöl og pínu í símtali við ömmu sína en þegar kom að gubbkaflanum ældi hún yfir símann. Lifði sig bara fullmikið inn í frásögnina.

Vinur minn var líka einu sinni þunnur á sunnudegi og bað mig að koma með sér á Kentucky. Hann sótti mig og á miðri leið ælir hann út um opinn gluggann en hefur um leið fulla stjórn á bílnum. Ældi bara á ferð. Hann leysti þetta svo snilldarlega að allt gumsið fór á götuna. Eftir var ælurákin ein sem vísaði veginn á KFC þar sem hann át svo heila máltíð með bestu lyst.

Vá. Mér verður pínu illt í maganum þegar ég skrifa um gubb. Fæ skrítinn fiðring. Er annað hvort ástfanginn eða alveg að fara að kasta upp sjálfur. Kreisti kannski fram fleiri gubbsögur seinna.

föstudagur, október 21, 2005

101 Reykjavík

Tvær vinkonur voru eitt sinn að vinna í Máli og menningu á Laugarveginum. Önnur nam bókmenntafræði en hin ekki. Yfirmaður þeirra hafði nýlega lesið yfir hausamótunum á starfsfólkinu og innleitt þá stefnu að reyna að selja eins mikið á kassanum og hægt væri. Um leið og einhver keypti svo mikið sem strokleður átti að bjóða kúnnanum upp á bók eða tímarit. Alvöru sölumennska í Máli og menningu. Og bókmenntafræðigellan var ansi klók í þessum bransa, seldi ófá blöðin einmitt við kassann og jafnvel fólki sem ætlaði sér engan veginn að kaupa þau. Hin fylgdist vandlega með og reyndi að stúdera helstu bellibrögðin.

Loks kom að því að hún fékk tækifærið. Sköllóttur maður mætti á kassann með erlend dagblöð og hún hugsaði sér gott til glóðarinnar. Þessi maður var Hallgrímur Helgason.
-Eitthvað fleira, sagði hún.
-Nei, takk, sagði hann.
-Þú hefur þó ekki lesið þessa? Alveg frábær bók, sagði hún og var alveg að gera gott mót ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að hún hélt á bókinni 101 Reykjavík.
Þögn skall á og meðan á henni stóð góndi maðurinn með stórum augum (á við sívaliturn hreint alveg) á konuna. Loks rauf hann þögnina.
-Uuuh. Um hvað er hún, spurði hann.
-Hún? Hún er um lífið í miðbæ Reykjavíkur... skemmtanalífið... fær mjög góða dóma.
-Já... e-eftir hvern er hún, spurði hann á ný.
-Uuuh, Hallgrím Helga, sagði hún með bros á vör, sannfærð um að hann hefði ekki tekið eftir því að hún las það af kápunni.
-Uhm, nei, held ég sleppi því. Ætlaði eiginlega bara að kaupa þessi blöð.

...

Trú storí samt, trú storí.

Manchester United

Kynþáttahatarinn van der Sar kastar út á steradólginn Ferdinand sem leikur honum út úr vörninni á ofbeldismanninn, níðpennann og fyrirliðann Roy Keane. Keane sendir strax á nýbúaslátrarann Smith sem kýs að gefa ekki á Park heldur rennir honum á hinn unga nauðgara Ronaldo sem tekur skærin og sendir fyrir á Wayne Rooney, sem þekktur er fyrir hórerí og að leggja hendur á konuna sína, og... vitiði hvað, Rooney skallar knöttinn glæsilega í netið og fólk ærist af fögnuði yfir hetjunum sínum á smekkfullum leikvanginum.

Góður sigur Manchester manna í höfn og ljóst að leikmenn munu fagna þessum áfanga vel í kvöld. Almenningur er því beðinn um að halda sig heima og muna að læsa öllum dyrum kirfilega.

mánudagur, október 17, 2005

Where everybody knows your name

Hansen er nafn sóðaknæpu sem margir kannast við. Sögulegrar sóðaknæpu. Þegar ég var yngri heimsótti ég Hansann reglulega enda ölið sauðbillegt og stemmningin oft skrautleg. Svo tók við skeið þar sem mér fannst Hansen viðurstyggilegur staður, bara subbulegt, reykmettað ormabæli. Og þá hætti ég að fara þangað. En undanfarið hef ég slysast inn í öl aftur á Hansen og áttað mig á sögulegu mikilvægi staðarins. Þetta er kannski ekki sérlega álitlegur staður, en þetta er staður með sál. Ég hef næstum tekið hann í sátt aftur. Eina ástæðan er að ég á margar misgóðar og einkennilegar minningar tengdar þessu húsi.

Hansen er staðurinn þar sem gamli kallinn reyndi að leigja Jóa eins og ég hef oft bent á í ritum mínum. Þegar Jói greyið gaf afsvar þakkaði sá silfurhærði samt fyrir sig og kvaddi kurteisislega. Stuttu seinna sagði starfsmaður Hansen sögur af uppáferð gráhærðs manns eftir lokun á salerni Hansen. Hver beit á agnið það kvöldið vita sjálfsagt fáir. Þetta gerðist allt auðvitað fyrir mörgum árum en ég hata samt ekki að skeggræða þennan atburð. Þó Jói kallinn verði forseti lýðveldisins einn daginn verður hann alltaf sveinninn sem gamlinginn vildi leigja fyrir mér.

Þegar FH komst í bikarúrslit 2003 eftir sykursætan sigur á KR var fagnað á Hansen. Ótrúleg stemmning alveg, markaði held ég svolítið upphaf að upprisu stuðningsmannaveldis FH í fótbolta.

Ungrú Ísland 1962 hótaði eitt sinn að drepa okkur félagana á Hansen.

Einu sinni var mér boðið að sniffa bensín á salerni A. Hansen. Gaurinn var bara kokhraustur með brúsann undir arminum.

Á Hansen hef ég séð slagsmál, tónleika, drukkinn grænlenskan sjómann sem dansaði við peysuna sína, fólk í karókíi, fólk að tala og fólk sem ríkið þarf að ala. Hentu inn vita og þá ertu kominn með rammhafnfirskustu súpu sem gerð verður. Bjarni Sívertsen gæti ekki matreitt hana betur.

Festen

Ég ákvað eitt sinn að bjóða til matarveislu á lögheimili mínu. Stofna matarklúbb og bjóða nokkrum vel völdum félögum að eyða með mér kvöldstund þar sem vindlar, áfengi, sælkerafæði og háleitar samræður áttu að ráða ríkjum. Umfram allt átti þetta þó að vera fullorðins samkoma, umræðurnar áttu að snúast um fullorðins málefni eins og viðskipti, þjóðmál og lífeyrissparnað. Allir áttu að koma virðulega klæddir og síðar meir yrði jafnvel farið í bæinn og þá á alvöru fullorðins staði. Máltíðin var þríréttuð og á matseðlinum voru fullorðins orð eins og marinerað og gratinerað. Gestirnir mættu fágaðir til leiks, voru allir smekklega klæddir og virðuleikinn uppmálaður. Við drukkum vín, borðuðum og létum eins og gjörvulegir og þroskaðir ungir karlmenn á þrítugsaldri láta. Vorum hæfilega skopsamir en fyrst og síðast tígulegir, gáfulegir og fullorðinslegir.

En einhvern veginn fór þetta allt handaskolum. Einum okkar varð skyndilega litið á salernisdyrnar sem eru nákvæmlega gegnt dyrunum að geymslunni okkar. Hann strauk einn dyrakarminn á nær erótískan hátt með annarri hendinni en hélt á rauðvínsglasinu í hinni og sagði: “Vá, þetta er meistaralega hönnuð íbúð. Það er jafnvel alveg hægt að taka handboltaleik hérna, dyrnar eru eiginlega alveg beint á móti...”. Vissulega var þetta óvitlaus ábending enda hafði ég leikið yfir þúsund handboltaleiki á þessum leikvangi frá því ég var barn en þar sem ég sá hvert stefndi reyndi ég allt til að afstýra stórslysi: “Hmmm, já kannski, svona fyrst þú minnist á það... Hvað segið þið annars um sölu Símans, góðu herrar? Hvaða skoðun hafið þið á henni?” En ég hafði ekki erindi sem erfiði. Strákarnir fóru ólmir að skoða handboltavöllinn í íbúðinni og einn þeirra hljóp upp í herbergi til mín og kom til baka með samanvöðlaðan sokkabolta. Annar náði í blað og penna og sagði: “Nú tökum við mót!”. Menn rifu af sér bindin og jakkana, drógu í 8-liða úrslit og fóru yfir reglur og umgjörð mótsins. Fullorðinssamkoman var á svipstundu orðin að enn einum barnalegum boltaleiknum. Við féllum á fullorðinsprófinu. Ég átti óneitanlega erfitt með að fela vonbrigði mín.

Móðir, másandi og vel kenndir fórum við samt í bæinn að móti loknu og skemmtum okkur bara ágætlega, minnir mig. Sjálfur fór ég alla leið í úrslitaleikinn en tapaði þar, 10-6. Varði varla skot í leiknum og misnotaði frábær færi. Spilaði eins og algjör gúbbi.

föstudagur, október 14, 2005

Veikindi

Ef ég verð einhvern tímann fyrir því óláni að greinast með alnæmi ætla ég svo sannarlega að nýta hvern dag til fullnustu og haga mér eins og allir dagar væru afmælisdagar. Í anda slíks hugarfars myndi ég einnig nýta mér samúð vina minna og ættingja og láta þá syngja fyrir mig á degi hverjum: 'Hann er með alnæmi í dag’.

Stolið úr mér

Hvort segir maður að eitthvað fari eins og eldur í sinu eða eins og eldur í syni?

Pant ekki verða fullorðinn

Listi yfir hluti sem ég lofa að gera á morgun (í versta falli hinn):
Vakna snemma, læra, borga skuldir, vinna myrkranna á milli, borga skatta, horfa á fréttir, drekka kaffi til að halda sönsum, kaupa mat og nauðsynjar, læra að binda bindishnút, fara með bílinn í viðgerð, læra að meta blóðmör, lesa dagblöðin (ekki bara Pondus), fara í bankann, ryksuga, finna mér frauku, kaupa líkamsræktarkort, gera skattskýrslur, fylla bensíntankinn, vinna lífsgæðakapphlaupið.

Já, hún er eiginlega ein af mínum bestu vinum, frestunaráráttan.

Loksins, loksins

Jæja, var loksins klukkaður. Nýr stórskemmtilegur alnetsleikur sem allir svölu bloggararnir taka þátt í. Verð að axla smá ábyrgð og vera með, verandi ábyrgur bloggsamfélagsþegn. Ég á víst að telja upp fimm óþægilega hluti.

1. Óþægilegur stóll
2. Dýna með hvössum göddum
3. Gaddadívan
4. Rafstraumstæki (og hrekkjusvínið Pavlov á takkanum)
5. Slím

Jæja, nú er bara að krossleggja fingur og vona að ég sé með allt rétt.

...

Eða að gera þetta almennilega. Fyrst Dr. Gunni var með ætti ég að geta það líka.

1. Alltaf þegar ég reyni að hringja í sjálfan mig er á tali í símanum.
2. Eitt af mínum skammarlegri augnablikum var þegar ég var svona 10 ára. Var þá að klára fótboltaæfingu og svo ansi geðstirður (eins og svo oft þegar ég tapa í fótbolta eða er skítlélegur) að þegar ég sá að pabbi var kominn að sækja mig fór ég beint út í bíl, setti upp ófrýnilegan svip og beið þess að hann kæmi og færi með mig heim. Illur var ég, önugur og ódæll í bílnum á meðan hann spjallaði við Óla Jó og Óla Ká í meistaraflokknum. Ég beið lengi þar sem þeir spjölluðu mikið, hlógu og gjóuðu augunum stundum að mér, hálfglottandi. Loks kom Óli Jó í bílinn til mín, bakkaði glaðhlakkalegur út úr stæðinu og það var þá sem ég fattaði að ég hafði beðið í vitlausum bíl. Helvítis Óli Jó átti líka gráan Súbarú.
3. Þegar ég var smástrákur, fjögurra eður fimm ára gamall, fór ég í feluleik ásamt Snúlla bróður og Hauksa í blokkinni (sem er víst margrómað ljóðskáld í dag og leikstjóri). Ég fann felustað í gamalli skúffu og tók vasaljós með í skúffuna þar sem ég var ögn myrkfælinn. Þessi felustaður var svo framúrskarandi góður að ég þurfti að bíða lengi eftir strákunum og sofnaði að lokum. Blundurinn varði í rúman klukkutíma en þá vakti mamma mig með ljótum látum eftir að örvæntingarfull leit hafði staðið yfir um allt hverfið. Allir sem vettlingi gátu valdið leituðu að mér nema béaðir Snúlli og Hauksi sem fóru bara í pleimó.
4. Einu sinni fór ég í bæinn með hressu fólki þegar módelkvendið Ásdís Rán tók mig á eintal og ræddi um hugsanlegan frama minn sem karlfyrirsæta. Hún lét mig fá nafnspjald og bað mig að mæta í myndatöku til sín. Aldrei mætti ég en fannst þetta samt merkilegur áfangi, ekki síst í ljósi þess að vinir mínir hafa aldrei fengið slíkt tækifæri þó miðaldra maður hafi reyndar viljað leigja einn þeirra kvöld eitt á Hansen.
5. Sem barn lék ég mér stundum að módelum, ekki síst flugvélamódelum. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan þá, en þó kemur fyrir í dag að ég sofi hjá módelum.

Þannig er það. Nema þetta með módelin reyndar.

Klukkedíklukk

Ég les alveg blogg. Ekki af því að blogg eru skemmtileg eða af því að ég hafi alltaf rosalega lítið fyrir stafni heldur vegna þess að ég er forvitinn. Fæ perverskt forvitniskikk út úr því að lesa skrif fólks sem ég jafnvel þekki ekki neitt. Byrja að anda hraðar, svitna og þukla stundum á mér. Algjör afbrigðilegheit einhver. Er svona eins og maðurinn í DV sem átti vingott við hesta nema ég les blogg og hef aldrei farið á bak hesti nema einu sinni.

En þessa dagana eru vandkvæði í paradís. Allir bloggarar eru hreint helteknir af einhverri klukkedíklikkviðurstyggð sem fer eins og eldur í sinu um alnetið. Og það þykir mér leiðinlegt. Ég fæ nefnilega alltaf óþægilegan hroll þegar ég sé að fólk er í asnalegum leikjum. Og þetta klukkerí minnir mig á þegar ég var 13 ára, við það að fermast og fór óvart með vini mínum á kristilegt samkvæmisleikjakvöld niðri í Hafnarfjarðarkirkju. Þar skríkti hópur geðfatlaðra fermingarbarna með freðin brjálæðingabros framan í sér og einhver æskulýðsforinginn stjórnaði hverjum leiknum á fætur öðrum í takt við gleðirokurnar í krökkunum. Þetta var svona flanderísk samkoma. Ég varð einhverra hluta vegna nær stjórnlaus af reiði út í þetta fólk og langaði helst að öskra af öllum sálar kröftum: ‘Hvað er að ykkur öllum?’.

Mórall þessarar frásagnar er semsagt að ég er bara of kúl fyrir klukkið. Ef ég verð klukkaður (sem ég vona svo sannarlega að gerist aldrei) verð ég í stikki. Í stikki að eilífu.

sunnudagur, október 09, 2005

Á eftir bolta koma strípalingar

Þegar ég les Fréttablaðið þessa dagana blasa oft við mér myndir af fáklæddum fótboltastelpum úr liði Vals. Þær eru að fara að keppa bráðum og það virðist vera viðtekin venja hjá konum að fækka fötum fyrir framan alþjóð þegar styttist í mikilvæga leiki. Þetta er svo torkennilegt að mig setur hljóðan.

(Þögn)

En ekki lengi. Þarna eru komnar stelpur sem hafa sennilega náð besta árangri í sögu íslenskrar kvennaknattspyrnu, verið landi og þjóð til stakrar prýði og fengið verðskuldað lof fjölmiðla. Er þá rökrétt framhald að rífa af sér fötin og setja upp sexí svip í mest lesna blaði landsins?

Er enginn í þessu liði sem segir: “Nei, ég vil ekki strípast. Ég er í þessu út af fótboltanum"... ?

Eru þetta rétt skilaboð til yngri stelpna sem æfa (tja... eða æfa ekki) fótbolta? Eða til stráka? Er þetta leið til að öðlast virðingu fótboltaáhangenda? Veldur þess konar mynd því að fleiri mæti á völlinn og öskri: “Áfram Valur!”? Eða mæta menn jafnvel á völlinn og öskra: “Úr að ofan!”? Væri það meira viðeigandi? Ætli það komi njósnarar frá erlendum stórliðum núna eða verður Geiri á Maxíms sá eini sem ‘skátar’?

Veit ekki. Mér finnst þetta törnoff. Vona samt að þær vinni leikinn.

föstudagur, október 07, 2005

Mea culpa

Mamma gaf mér einu sinni úlpu. Alveg risastóra, jöklaprúf úlpu. Gula og brúna. Þegar ég er í henni kemst ég varla inn í bílinn minn. Maður verður í laginu eins og dekkjastrákurinn frá Michelin. Sést held ég úr geimnum. Ég og Kínamúrinn. En það góða við hana er að hún er ruddahlý. Þó maður vaggi alltaf asnalega og þurfi alltaf að vera með hendur út í loft vegna stærðar hennar er mér aldrei kalt þegar ég er í henni. Stundum ímynda ég mér að ég sé Halli pólfari og fer í langar göngur. Sérstaklega þegar kalt er. Þá reyni ég líka að framleiða horslím sem ég reyna að festa í skegginu mínu. Svo þegar ég kem heim segi ég mömmu hreykinn frá ferðalögum mínum í gulu og brúnu úlpunni, drekk mjólk sem óður væri og segi alltaf hróðugur að lokum: “Iss... og mér var bara ekkert kalt”.

...

Hvernig ætli það sé samt að vera svona alvöru pólfari eins og Halli pólfari? Hafa pólfarar bólfarir? Ætli Halli sé alltaf með attitjúd þegar hann verslar mjólkurvörur í frystideildinni í Bónus; “Þetta er ekki rassgat kalt... Er einhverjum kalt hérna? Þið mynduð ekki lifa einn dag á pólnum” ...? Eða eipi á vel klætt, grandalaust fólk á götum úti? Taki máski kalda augnaráðið á það.

Þó ábyggilega betra að vera pólfari með minnimáttarkennd en að vera algjör kuldaskræfa.

En að útúrdúrum slepptum ber ég blendnar tilfinningar til þessar úlpu minnar. Hún er alveg hlý og svona en ég er bara alltaf eins og haugur þegar ég er í henni. Mér líður eins og ég sé bygging þegar ég er í henni. Ekki það að ég hafi eitthvað á móti byggingum. Held stundum að ég sé of lítil sál fyrir svona stóra úlpu.

Það má samt enginn segja mömmu frá þessum hugrenningum mínum. Og ég vil helst ekki að það spyrjist út til Halla pólfara að ég sé að dissa hann.

Sleggjudómur

Þegar fólk segir ‘7-9-13!’ í lok setninga veit maður að það er miður skemmtilegt.

“Jújú, það gengur bara vel í skólanum... Bara mjög gaman”

Já, það er óhætt að segja að þetta hafi verið rosalegur leikur. Vissi auðvitað að þetta yrði bötterfitt. Enda lentum við strax undir. Lítið hægt að gera við því. En svo áttum við virkilega góða sókn, einnar snertingar spil og ég fékk frábæra vippu innfyrir, tók tvöföld skæri og ætlaði að sóla markmanninn en hann bara slátraði mér. Beint rautt og víti auðvitað. Ég setti hann úr vítinu, sendi varakíperinn í rangt horn. Fékk svo annað færi skömmu síðar, eða meira svona hálffæri en markmörðurinn blakaði honum yfir. Í seinni hálfleik gekk vel að nýta okkur liðsmuninn og við yfirspiluðum þá. Ég kom okkur yfir snemma með góðu skoti með vinstri. Gulltryggði svo sigurinn alveg undir lokin með góðu marki. Tók hann á kassann og lyfti yfir markmanninn. Endaði 3-1. Var svo valinn maður leiksins í SMS-kosningunni. Það kom eiginlega enginn annar til greina.

Allt þetta náði ég að afreka í fyrirlestri í dag á meðan prófessor Guðrún Þórhallsdóttir rausaði um forngermanskar orðmyndir, muninn á samlögun og samfalli og eðlismun langra og stuttra rótaratkvæða.

Það verður að minnsta kosti ekki af mér tekið að ég mætti í helvítis tímann.

fimmtudagur, október 06, 2005

Sjónvarpsbörnin

“Keep you doped with religion and sex and tv
and you think you're so clever and classless and free
But you're still fucking peasants as far as I can see”

Það ætlaði allt um koll að keyra. Allir í skólanum voru að tala um nýja þáttinn sem slegið hafði svona rækilega í gegn í Ameríku. Maður taldi niður dagana og ég vissi einhvern veginn að þetta yrði stór stund. Svolítið eins og sigur barnanna á þeim fullorðnu. Í fyrsta sinn var sýnd teiknimynd eftir fréttir. Fullorðna fólkið hristi auðvitað hausinn yfir þessu en við bróðir minn vorum sigri hrósandi. Loksins barnaefni á præmtæm, laugardagskvöldi eftir fréttir. Eftir fréttir! Við sátum límdir fyrir framan gamla Hitachi sjónvarpsgarminn með paprikusnakk og RC-kóla. Senn rann stundin upp, lag byrjaði og undurfögur rödd heyrðist syngja: “thee Simpso-o-ns...”.

Þátturinn var um geðsjúka barnapíu sem fengin var til að passa Bart, Lísu og Maggie. Við vissum einhvern veginn að þessi stund markaði tímamót. Yrði upphafið að langri vináttu. Okkur leið eins og sigurvegurum.

Þegar maður varð eldri lærði maður þættina nánast utanbókar. Stúderaði líka Staupastein, Seinfeld, Vistaskipti, the Cosby Show, Sledge Hammer og í raun alla þá þætti sem teknir voru til sýninga.

Amerísk imbakassamenning er órjúfanleg æsku minni. Samofin félagsmótun minni. Ég er amerískt sjónvarp og amerískt sjónvarp er ég. Saman eigum við ýmsar minningar, höfum upplifað ógleymanleg atvik, óborganleg samtöl og gengið í gegnum súrt og sætt.

Hvort þetta er gott eða slæmt veit ég ekki.

Óþarfa rugl

Var einu sinni að þjálfa snemma á sunnudegi. Komu þá tvíburar á æfinguna með föður sínum og var annar þeirra háskælandi. Hann kom ekki upp orði og var sem í losti. Spurðist ég því fyrir um ástand drengsins og sat tvíburabróðir hans fyrir svörum:

“Tja... við vorum bara heima að rista brauð þegar pabbi fór á klósettið. Þá datt bróður mínum í hug að rista rúsínur og við skelltum nokkrum á gaffal og ristuðum. Skyndilega fór allt rafmagn af íbúðinni og brósa brá svo að hann hefur ekki hætt að grenja síðan.”

...

Ég á alveg eftir að sakna þess að þjálfa. Maður mun allavega heyra minna af svona helvítis rugli og vitleysu.

Bloggið byrjar!

Starfsemi heilahvela minna verður nú á ný færð í orð og setningar hér á alnetinu.

Stuðkveðjur,
Krissi