mánudagur, mars 28, 2005

Um mannanöfn

Krakkar heita frumlegum nöfnum nú til dags. Aþena, Thea, Jakobínarína, Atissa, Þangbrandur, Mundheiður, Eneka, Októ og Brynsteinn. Já, jafnvel Pálmi. Þetta er sérstök þróun. Spái því að eftir 30 ár verði ekki gert grín að krökkum sem heita Cýrus (til eru krakkar sem heita Cýrus) heldur verði gert stólpagrín að fíflunum sem heita gömlu, dorkí nöfnunum. “Hí á Magnús, hí á Magnús”, verða sagt við klifurgrindina. Og jafnvel “Hei, Haraldur, hvað... fæddistu á miðöldum? Tíhíhí”. Já, tíhíhí verður sagt, tíhíhí.

Sjálfur hef ég lengi burðast með þann kross að heita Kristmundur. Nafn, sem minnir meira á prest í Dalatangasókn á ofanverðri nítjándu öld en rokkaðan sólótónlistarmann á þeirri tuttugustuogfyrstu eins og mig. Fyrir vikið hef ég þurft að svara kallinu þegar ýmis skrýtin nöfn hafa verið hrópuð í gegnum tíðina. Dóki og Elding eru sennilega frægust þeirra. Spjátrungarnir sem ég þjálfa hafa líka kallað mig mörgum nöfnum. Nafnið Frissi ber oft á góma í viðskiptum mínum við þá. Jafnvel Frissi fríski. Versta viðurnefnið hlaut ég þó um daginn þegar ansi ungur boltapiltur ruglaðist hresslega í ríminu og kallaði mig Klóa. Það særði.

Læt ég þetta nægja í bili af rannsóknum mínum um nöfn mannanna.

Hollráð til bloggmanna

Það er kúnst að rita blogg. Fyrst þarf maður að fá hugmynd að þrugli. Svo þarf að heimfæra þruglið í orð og setningar. Skrifa og skrifa. En í öllu þessu ferli gerast gjarnan skuggalegir hlutir sem tefja skrifarann. Skrifarinn verður þyrstur. Og oftar en ekki, tja... allavega þegar vel liggur á skrifaranum, þá stekkur hann fram og fær sér bjór. Skrifin kalla bara á þorsta. Eðli málsins samkvæmt. Og bloggarinn fær sér bjór og heldur einbeittur áfram skrifum. Þangað til næsti bjór togar hann fram í eldhús. Þá er bloggarinn fyrst kominn á skrið. Og þá fær hann loksins almennilegar hugmyndir. Sem hann skrifar vitanlega. En illu heilli kemur jafnan að fjórða bjórnum og sá er engum skrifara til framdráttar. Eftir hann fer skrifari að þrugla um tilfinningar sínar. Og gjarnan berja tár hans um leið taktfast á lyklaborðinu. Góð regla er að birta aldrei fjórðabjórsblogg á vefsetri sínu. Öðrum sem víti til varnaðar mun ég nú opinbera stutt dæmi um fjórðabjórsblogg sem ég fann í fórum mínum:

“En ókei... Sennilega eru Selfyssingar bar venjulegt fólk. Bara ekki músíakalst fólk. Og algjör óþarfi að bera kala til þeirra bara því þeir hlusta á mótisól, fara á veitaböll og klappa sauðfé..”

Það er trúlega óþarft að segja frá því en mörg féllu tárin kvöldið sem ég reit þennan texta. Ég þurfti meira að segja að kaupa nýtt lyklaborð. En eftir stendur siðferðislegt álitamál sem ég þarf víst að búa við: Hvað var ég að hugsa að taka upp hanskann fyrir helvítis Selfyssinga?

Að öllum Selfyssingum slepptum hef ég samt djúpstæðar áhyggjur af því banvæna kombói sem blogg og bjórþamb mynda. Ég skrifa aldrei almennilega fyrr en eftir einn til tvo kalda. Ef ég væri rithöfundur þyrfti ég að byrja daginn á að skvetta í mig kippu af Löwenbrau eða svo. Hljómar ekki gæfulega þó hluti af mér sé upprifinn af hugmyndinni.

Gömlu, fullu skáldin rétta nú væntanlega upp þumalputta í gröfum sínum og brosa út í annað. Svei þeim, svei þeim.

Rolling Stones

Í gær las ég fræðin eins og maður án rænu. Stútaði Eyrbyggju og Vopnfirðinga sögu. Gekk um bókasafnið eins og ég ætti það. Heyrði lögfræðinemana hvísla hálfskelfkaða: “Rækallinn, lagsi er ári duglegur að lesa...”. Ég bara átti svæðið.

Ég lét svo sjá mig aftur á safninu í dag til að baða mig örlítið í dýrðarljóma gærdagsins. Ætlaði að glugga kannski smá í fræðin líka eins og mér er einum lagið. En ekki varð mér kápan úr því klæðinu. Svo vildi til að ég rakst á bók um Keith Richards í tónlistardeildinni og ákvað að skanna hana létt. Ekki vildi þetta betur til en svo að ég gat ekki lagt hana frá mér og tók hana með upp á lessal. Við þetta glottu grábölvaðir lögfræðinemarnir, ranghvolfdu augunum og skríktu: “Þetta er ekki einu sinni námsbók...”

Stjáni Stones hefði nú samt verið stoltur af mér.

...

Ég verð að viðurkenna að ég hef mjög gaman af Íslendingasögunum. Allavega mörgum þeirra. En Keith kallinn stendur fornköppunum ekkert á sporði, er eiginlega töluvert svalari ef eitthvað er.

Einu sinni sá ég mynd sem byggð var á topplistum og ætla ég nú að brydda upp á þeirri nýbreytni hér á vefsetri mínu.

Topp tíu lagstúfar Rolling Stones að viti Krissa:

10. Far away eyes. Af Some girls sem er frá 1978. Ruddakántrísmellur sem ég hef alltaf fílað úr hófi fram.
9. Dead flowers. Veit ekki alveg af hverju þetta lag er á listanum mínum. Hefði kannski átt að setja eitthvað annað. Jæja, of seint núna.
8. Let’s spend the night together. Gott lag.
7. You can’t always get what you want. Kórinn er snilld og lagið er banvæn Stonesformúlan uppmáluð. Útsetningin er bara svaðaleg.
6. Dandelion. Heyrði að þetta væri um son Keith’s sem dó. Mikið lag.
5. 2000 man. Af Satanic Majesties Request (eða hassplötunni), sem er ein af mínum eftirlætisplötum með Stones. Frábær, súr og rugluð plata og frábært lag.
4. Out of time. Snilldarmelódía. Alvörulag.
3. Salt of the earth. Lokalagið af Beggars Banquet. Öllum partíum ætti að ljúka á þessu lagi.
2. Child of the moon. Uppáhaldslag til margra ára. Ótrúlegur kraftur í því.
1. Paint it black. Maður fær gæsahúð er intróið ómar. Myrk stemmning fönguð. Ótrúlega einföld laglína en það er eitthvað ótrúlegt við stemmninguna...

þriðjudagur, mars 15, 2005

Woman is the nigger of the world

Konur hafa lengi verið ráðherrar. Þekki samt enga ráðfrú.

Í tungumálinu eru fullt af karlkynsorðum sem konur þurfa að sætta sig við að nota. Karllægum embættum sem konur þurfa að sætta sig við að gegna. Konur eru leikstjórar, skólastjórar og bæjarstjórar. Og það virðist líka bara vera allt í gúddí með þetta. Konurnar ekkert svo ódælar út af þessu. Við köllum Þorgerði Katrínu ráðherra, Þóreyju Eddu stangarstökkvara og Vigdísi fyrrverandi forseta lýðveldisins. Og ekki kvarta þær, eru yfirleitt bara nokkuð hressar.

Á sama hátt fer fólk í flugvélar sem konur fljúga og þarf þá að kalla þær flugmenn. En ef ég ætla að fá mér bjór í vélinni og sný mér að næstu flugfreyju sem ku vera karlmaður má ekki kalla hann flugfreyju (eins og upprunalega starfsheitið er) heldur flugþjón. Þetta er náttúrulega bara svindl. Næst þegar ég flýg ætla ég að taka upp hanskann fyrir allar konurnar sem þurfa að sætta sig við karllæga titla og segja:
-Jó, flugfreyja! Spá í að fá hjá þér bjór.
-Fyrirgefðu, það er flugþjónn... einn bjór segirðu...
-Segðu flugmanninum það, fröken flugfreyja. Hvað segirðu annars, hefurðu alltaf verið svona mikil kelling, vinkona? Flugþjónn? Hvað ertu á túr? Þú ert helvítis flugfreyja og sem slík legg ég til að þú hættir þessu kellingavæli og náir í bjór handa mér...

...

Og ekki láta mig byrja á karlkyns hjúkrunarkonum...

And the team that I play for has god on it’s side

Að horfa á Barcelona spila fótbolta er svolítið eins og að horfa á Omega. Menn gera ekki annað en að benda til himna og signa sig. Það þarf ekki meira til en að fá horn svo að örstutt guðsþjónusta í boði mesta trúboða veraldar, Ronaldinhos, fari í hönd. Kannski ekki skrýtið að liðið sé að rúlla upp spænsku deildinni. Ekki sér maður Beckham, Zidane eða Gravesen biðja um þetta ‘extra effort’ sem Guðsi er að vinna fyrir undir merkjum Barca.

Vitur (og blautur) maður sagði eitt sinn: “Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig”. Mér finnst stundum eins og Ronaldinho sé lifandi sönnun þessarar kenningar. Og það er hreint ekki tilviljun að Ronaldinho er hamingjusamasti maður á jörðinni. Lífsýn hans og tengsl við kallinn uppi á háalofti eiga pottþétt hlut að máli. Megnustu illvirkjar gætu ekki þurrkað sólheimaglottið af honum. Við Íslendingar höfum orð yfir fólk sem er eins jákvætt og hamingjusamt og Ronaldinho. Við köllum það mongólita. Tja, eða jafnvel meðlimi í sértrúarsöfnuði. Segir ýmislegt um okkur Íslendinga en frekar lítið um Ronaldinho.

(Var að spjalla um daginn við strákana sem ég þjálfa og þeir vildu ólmir fræðast meira um mongólita. Einn, sem er kaldhæðinn ári talaði um hversu nettir þeir væru og væri örugglega snilld að vera mongóliti. Annar sagði einlægur, en þó með bros á vör (af því honum fannst mongólitar greinilega fyndnir líka), að það væri örugglega betra að vera heilbrigður. Ég fylgdist föðurlega með eins og hefð er fyrir en hafði nákvæmlega ekkert gáfulegra við þessar umræður að bæta.)

Ég öfunda Ronaldinho smá. Ég öfunda hann samt nákvæmlega ekkert af því að vera eins teknískur og hann er né vegna yfirnáttúrulegs leikskilnings hans. Og ég öfunda hann heldur ekki vegna þess að hann á skítmikið af peningum. Nei, ég öfunda hann vegna þess að hann er alltaf brosandi.

Megi sódavatnið hoppa í hærusekk

Það má alveg troða öllum þessum sódavatnsdrykkjum þangað sem sólin ekki skín. Fyrir það fyrsta finnst mér bragðið af þessu miður gott og hef ég aldrei áttað mig á því hvernig fólk fæst til þess að troða þessu framan í sig. Það er líka alltof góður aðgangur að þessum óskapnaði. Fólk getur keypt þetta bara eins og að drekka vatn. Og er þar komið að kjarna málsins. Af hverju fær fólk sér ekki bara vatn? Af hverju er fólk að borga fúlgur fyrir vatnssopa? Menn auglýsa svona drykki undir þeim formerkjum að þær séu hollir og góðir en hefur fólk aldrei heyrt að vatn er líka hollt og gott? Og ókeypis... ? Þetta er bara dæmi um forheimska neysluhyggju. Fólk kaupir drykk sem hægt er að fá á öllum betri heimilum án endurgjalds.

Nú fer fólk kannski að spá af hverju ég sé svona bitur út í sódavatn. Hvort náinn ættingi minn hafi kannski drukknað í sódavatni einhvern tímann... ? Nei, svo er ekki. Ég hafði bara ekki guðmund um hvað ég ætti að skrifa inn á þetta síðuræksni. Vantar enn svona 25 færslur í viðbót.

Heimspeki dagsins

Opið bréf til Guðs

Sæll kappi, vona að ég sé ekki að trufla.

Bara aðeins að spá. Menn eru alltaf að tala um þetta himnaríki. Að það sé algjör sæla, þú veist, og að það sé draumur að enda þar og svona. Ég hef verið að stúdera þessa pælingu aðeins og er með nokkrar spurningar.

1) Eiga menn ekki örugglega Jethro Tull á vínyl í himnaríki?
2) Eru menn með ostastangir, beikonborgara og franskar eins og maður fær á Pylsubarnum í himnaríki (mínus tómat á borgarann og vel kryddaðar franskar)?
3) Það er hægt að spila FIFA 2004 þarna, er það ekki?
4) Má koma sjálfur með nammi eða pening eða eru einhverjar svoleiðis reglur? Hvernig er t.d. statusinn á Gameboy-spilum? Má ég taka minn með?

Vildi bara vera pottþéttur á þessu því ef þetta er að klikka fer ég ekki hót. Hef heyrt af ströngum reglum hjá ykkur og er hræddur um að þær séu ástæðan fyrir því að miklu færri nenna að kíkja til ykkar. Allavega...

Kveðja,
Krissi

sunnudagur, mars 13, 2005

Undarlegur kýrhausinn

Vá. Var að horfa á Popptíví áðan. Þar voru stelpur að hrista sig og skekja, syngja og dansa. Nema hvað að eitt myndbandið þótti í meira lagi undarlagt. Var það lag með Emilíönu Torrini. Vildi svo til að Emilíana, sem er forkunnarfríð stelpa, var ekki í efnislitlum klæðum, dansaði ekki eggjandi dans og enginn káfaði neitt á henni. Hvað er málið? Ætli hún sé eitthvað skrýtin? Kannski ekki fyrir karlmenn? Eða er hún bara að ögra fólki? Þykjast vera eitthvað rebel? Ætli forsvarsmenn sjónvarpsstöðvarinnar viti af þessu? Bara hneisa með stóru hái og einu essi.

Viltu kaupa páskasól?

Stelpan með viskíröddina sem syngur í maltogappelsínaugýsingunum er byrjuð að gaula aftur í sjómbanum. Ég er ekki frá því að hún gæti verið afkvæmi Tómasar Waits og Gullbrár. Spurning um að senda DV á stúfana?

Þeir kölluðu mig Sprett

Þegar ég var lítill var ég langfljótastur í bekknum. Stútaði öllum skólahlaupum og var eftirlæti leikfimikennara. Hljóp eins hratt og sumarið. Og þegar krakkarnir fóru í svona ‘kyss-kyss-og-útaf’ leiki á kvöldin kom það sér vel að hlaupa hratt. Hinir strákarnir hlupu gjarnan eins og fætur toguðu þegar ljótu stelpurnar reyndu að klukka þá en hægðu pínu á sér þegar sætu stelpurnar reyndu að ná þeim. En ekki ég. Ég hljóp alltaf eins ég væri á Ólympíuleikunum og engin þeirra náði mér. Aldrei. Tók leikinn kannski of alvarlega. Og stelpurnar kvörtuðu sáran: “Þú hleypur alltaf svo hratt! Það er aldrei hægt að ná þér!”. Voru jafnvel skítfúlar út í mig. Enda alltaf móðar og másandi eftir öll hlaupin. Skildu ekkert í mér, leikurinn átti jú að ganga út á kossa. Og stundum heimtuðu þær svör. “Af hverju leyfirðu okkur aldrei að ná þér?” Þá hljóp ég bara ennþá hraðar. Eða fór undan í flæmingi: “Ég er hættur, ætla í fótbolta. Komiði, strákar”. Svo fórum við í fótbolta. Ég var Klinsmann.

...

Það merkilega við þetta allt saman og jafnvel vandræðalega er að ég er ekki frá því að þessi aðferðafræði við kvennaveiðar sé jafnvel enn við lýði í dag...

Rán í Lundúnum

Fórum í búðir einn daginn. Mátti ekki spyrjast út að mektarmenn eins og við hefðum ekki gert hagstæð kaup í heimsborginni Lundúnum. Og Jóa langaði í buxur. Svo mikið að hann fór og mátaði buxur. Man ekki hvað búðin hét.

Sérstakt áhugamál okkar í ferðinni var að mastera enska tungu, þau orð sem innfæddir brúkuðu sem og hreiminn kynngimagnaða. En við höfðum jafnframt gríðarlegar ranghugmyndir um hreim Lundúnarborgara. Við höfðum t.d. nýlega óverdósað á kvikmyndinni Trainspotting og var hreimur okkur stundum markaður af henni.

Og sennilega vorum við ekki eins svalir og ég vildi að við hefðum verið í þessari ferð. Vorum þess í stað varkárir og yfirleitt alltaf saman er við spókuðum okkur í búðunum á Oxford Street. Og þegar Jói mátaði buxurnar vorum við Danni í búðinni á verði. Svo allt færi örugglega vel fram. En allt kom fyrir ekki. Þegar Jói mætti á afgreiðsluborðið staðráðinn í kaupa buxurnar ætlaði allt skyndilega um koll að keyra. Allt í einu byrjaði hann að anda hratt, þuklaði á sjálfum sér af öllum sínum mætti og okkur Danna varð ljóst að eitthvað amaði að. Í stað þess að borga fyrir buxurnar emjaði Jói af slíkri áfergju að Lundúnir skulfu og með skoskasta hreim sem ég hef heyrt: “I’ve been bloddy robbed!!!!”. Starfsfólkinu brá í brún og fólk skimaði eftir bíræfnum þjófnum án árangurs. Ringulreiðin var við það að gera út af við viðstadda þegar það heyrðist lágt í Jóa: “Nei, það er hér.” Og til allrar lukku fannst veskið í rassvasa Jóa. Greiddi hann fyrir buxurnar og þakkaði pent fyrir sig.

Fyrir öllu að enginn hlaut skaða af og Jói sneri stoltur heim með þessar líka fínu buxur.

How much is beer?

Í dag átti ég leið um vínbúð. Í vínbúðinni hitti ég pilt sem ég var að þjálfa fyrir nokkrum árum. Hann hefur verið níu ára þá en er nú á fyrsta ári í framhaldsskóla. Mætur piltur og alltaf gaman að rekast á hann. En í vínbúðinni virtist hann úti á þekju. Bablaði bara einhverja óskiljanlega mállýsku í símann og ætlaði ekki að taka eftir mér. Læddist að mér sá grunur að maðurinn væri drukkinn. Ég smellti mér í röðina og hann á eftir mér. Enn virtist hann ekki taka eftir mér. Ég sá hvað var í gangi, hætti að horfa á hann og fjárfesti í kippu af Víking bjór. Var að flýta mér eitthvað, hefði með réttu átt að kaupa Tuborg eða Böðvar. Beið svo spakur eftir að röðin kæmi að stráknum og raðaði því hægt og rólega í pokann minn. Drengurinn, sem er sennilega sextán vetra gamall, hélt áfram að búllsjitta í símann en sagði svo algjörlega áttavilltur við afgreiðslukonuna: “How much is beer?”. Gellan á kassanum svaraði hlæjandi að það væri ekki möguleiki á að hún færi að afgreiða gaurinn. Þá segir hann enn á kafi í karakter: “You take card? No? Where is bank?”. Gellan enn ekki að fíla tilraunina.

Gaurnum virtist slétt sama, gafst upp og sneri sér að mér: “Blessaður, Krissi. Hvað er að frétta?”. Drullunettur á því og skvísan á kassanum rak upp stór augu. Kom á daginn að hann hafði verið að tala hollensku í símann en ég lagði til að hann reyndi dönskuna næst. Kvaddi ég hann með virktum og honum datt ekki einu sinni í hug að biðja mig um að kaupa kippu fyrir sig. Hefði sennilega verið of lítil áskorun fyrir hann.

Þetta er ungt, talar hollensku og leikur sér.

Einu sinni í biðröð

Við vorum þrír saman. Bestu vinir í menntó. Á öðru ári í Flensborg. Og höfðum manað okkur upp í að fara til Lundúna eina helgi. Ekki nema sextán og sautján ára en fengum samt að fara. Örugglega allir svona lúmst skíthræddir innst inni en enginn þorði að viðra slíkt væl. Ætluðum að bera okkur mannalega, detta í það og fara á fótboltaleik.

Fyrsta stopp var einhver afgreiðsla hjá Hótel Loftleiðum þar sem við vonuðumst eftir að fá miðana okkar (köllum það það, ég hafði ekki hugmynd um hvað við vorum að gera og hef ekki heldur í dag). Þetta var daginn áður en við fórum út. Mættum rennblautir bakvið eyru á bíl Danna sem var sá eini sem var með bílpróf. Rötuðum inn í Reykjavík og allt. Þegar inn var komið spurðum við eitthvað kvendi hvert við ættum að fara og enduðum vel sauðalegir í biðröð umkringdir bisnessmönnum og allsherjarspöðum. Við vorum á leið til útlanda. Alveg einir.

Stressið var þó farið að láta á sér kræla. Vorum drullusmeykir. Og enginn okkar sagði orð í röðinni. Held að við höfum allir verið að hugsa hvað við áttum að segja þegar röðin kæmi að okkur. Höfðum ekki hugmynd um hvernig við áttum að haga okkur. Biðin var stutt, allt gekk ansi skjótt fyrir sig. Feiti, gráhærði kallinn í jakkafötunum á undan okkur var senn búinn og það var komið að okkur. Við litum hver á annan. Þögnin var hálfpínleg. Við létum afgreiðslukonuna um að rjúfa hana: “Jááá, hva... get ég aðstoðað?”. Ég vonaði innilega að strákarnir myndu segja eitthvað. Bara eitthvað. Ég leit á Danna. Hann vissi hvað ætti að segja. Hann hafði oft farið til útlanda. En Danni þagði. Og loksins, þegar þetta var allt saman orðið skítvandræðalegt, heyrðist taut frá Jóa: “Hérna... hvað... voruð þið ekki að gefa hvolpa?”.

Þessi setning reyndist ferðin í hnotskurn. The rest is history. Heimsborgin Lundúnir beið okkar.

To be continued...

laugardagur, mars 05, 2005

First we take Manhattan

Var að rifjast upp fyrir mér gamall ‘praktíkal djókur’ sem aðeins fór úr böndunum. Mundi hann er ég fór á Bókasafn Hafnarfjarðar í dag.

Æxlaðist það svo að einn dag fór ég á safnið að lesa. Hitti þar fyrir kunningja góðan, Randver Randversson sem þenur bassagítarinn með þrusugrúppunni Manhattan. Hann les líka heimspeki. Randver var vondur og illa upplagður þennan daginn og var greinilega búinn að læra lengi uppi á lessal þegar ég ætlaði sjálfur að koma sterkur inn og lesa grimmt. Grafarþögn var inni og fullt af fólki þegar Randi hóf að henda í mig bréfum og strokleðri. Í sumum bréfanna voru illar hótanir og gekk mér illa að lesa undir þessu ljóta ofbeldi. Svo eirðarlaus var Randi þennan dag að hann fór ansi skjótt fram í pásu en var þá búinn að skemma fyrir mér kortérslærdóm með truflunum sem voru við það að æra óstöðugan. Þegar Randi var farinn ákvað ég að ná fram hefndum, hrifsaði glósurnar hans (reyndar ekki nema þrjú blöð), fór niður á aðra hæð og ljósritaði þær. Því næst reif ég þær í litlar tætlur og dreifði yfir námsbækur hans. Geymdi sjálfur upprunalegu glósurnar í töskunni minni og hélt sannarlega að þarna hefði ég náð mér niðri á Randa í eitt skipti fyrir öll. Fór svo að læra en ekkert bólaði á téðum Randa. Leið langur tími og gerði ég sjálfur hlé á lærdómnum. Fór niður á aðra hæð að lesa blöðin og svona. Sá þá skyndilega á eftir Randa á leið út af safninu með tösku á bakinu og í fullum skrúða á leið til vinnu. Ég kallaði á hann og sneri hann við fýldur á svip. Ég reyndi að útskýra grínið mitt góða en gekk illa og Randi neitaði að lokum að taka við glósunum sem voru enn uppi á þriðju hæð í töskunni minni. Hann sagðist ætla að prenta þær sjálfur út aftur.

Er óhætt að segja að hrekkur þessi hafi misheppnast. Heppnuðust þeir betur hrekkirnir í gamla daga er annar Manhattansveinn, Svavar Örn, varð fyrir barðinu á okkur félögunum. Spurning um að segja þær sögur einhvern tímann. Enda ljóst að ég fæ hvort sem er ekkert jólakortið frá Manhattanköllum.

Íslenskur texti: Guðni Kolbeinsson

RÚV er magnað fyrirbæri. Hvað er til dæmis málið með þulurnar? Hvaða tilgangi þjóna þær? Af hverju er dagskránni ekki smellt á helvítis skjáinn eins og á öðrum stöðvum? Af hverju eru landsmenn að borga undir þetta rugl? Hvaðan kemur ljóshærði þulugaurinn með gleraugun? Er hann þarna kannski bara svo fólk fari ekki að agnúast út í að þulurnar séu eingöngu þrusugellur?

Fór aðeins út af sporinu. Ætlaði ekkert að skrifa um þulur. Held ég byrji bara aftur.

RÚV er magnað fyrirbæri. Þegar ég var lítill sat ég oftar en ekki límdur við skjáinn og horfði á bandaríska þætti á RÚV. Eða Stöð eitt eins stöðin heitir þegar maður er krakki. Hetjurnar mínar voru menn eins og Dwayne Wayne úr Vistaskiptum og Parker Lewis úr Skálkum á skólabekk. Glaður í bragði gerði ég svo stólpagrín að heimskupörum manna eins og Cliff Clavin úr Staupasteini og Barða Hamar úr Barði Hamar (Barði Hamar var hæstaréttardómari). En um leið og maður rifjar upp þessa gömlu snilldarþætti er manni jafnframt fyrirmunað að muna hvað þeir hétu á frummálinu. Íslensku þýðingarnar hreinlega tröllriðu öllu. Meira að segja kjánalegar þýðingar eins og Köttur í bóli bjarnar (var ekki dýralífsþáttur) og Hasar á heimavelli eru sem órjúfanlegar æsku minni.

Því spyr ég; hvað varð um gömlu, góðu þýðendurna? Mín skoðun er sú að allar þáttaraðir sem sýndar eru á Íslandi eigi að fara í gegnum kalla eins og Guðna Kolbeins, Veturliða Guðna og þessa refi sem þýddu allt í gamla daga. Þá horfðum við ekki á ‘Will and Grace’ heldur á ‘Vilhjálm og Grétu’. Ekki á ‘Everybody loves Raymond’ heldur ‘Ys, þys og argaþras hjá Rögnvaldi’ eða eitthvað álíka. Ekki á ‘King of Queens’ heldur ‘Grallaraspóar í stórborginni’ eða jafnvel ‘Hvar er pósturinn?’.

Hvet hér með sjónvarpsstöðvar landsins til að gera bragarbót á þessu í hvelli.

Wonderboy

Það væri fáranlegt að segja enn einu sinni frá því að ég er að þjálfa fótboltastráka þannig að ég ætla að sleppa því. En ekki nóg með að vera að þjálfa knattspyrnudurga heldur hef ég það aukinheldur fyrir áhugamál að þjálfa nokkra þeirra í gamanyrðum í hjáverkum. Reyni að rugla aðeins í þeim og þroska skopskyn þeirra.

Og það vill svo til að ég þjálfa eitt níu ára undrabarn í fyndni. Gaur sem reytir af sér grínið og er með fáranlegt vald á kaldhæðni. Hann er bara fyndinn af náttúrunnar hendi. Byrjar setningar sem hann veit ekkert hvernig eiga að enda en nær samt að vera fyndinn. Einu sinni ætlaði hann að klekkja á mér með einni slíkri.
Gaurinn: “Hva, Krissi, ég sá þig nú um daginn... hérna... eitthvað að kyssa kærustuna þína?”
Ég: “Jánú. En er svo sem eitthvað athugavert við það? Eru kærustur ekki til þess að kyssa þær?”
Þarna náði ég aldeilis að stinga upp í hann enda þagði hann lengi, leitandi að réttu svari. Sagði svo: “Jú... jújú, það er alveg rétt. En þú ert bara svo drulluljótur”.

Skák og mát. In dein Geshicht Herr Flanders. Ekkert hægt að segja. Ég játaði mig sigraðan.

Ætla að fara að rifja upp fleiri sögur af þessum kappa til að geta bloggað meira um þetta óskabarn fyndninnar. Samt pottþétt röng málfræði hjá mér í þýsku setningunni...