fimmtudagur, desember 29, 2005

Alnetið (sáldrandi brjáli?)

Búinn að vera að spá svolítið. Hvað gerist þegar internetið fyllist? Þegar það er ekki lengur pláss fyrir fleiri bloggfærslur og fréttir og svona? Hvað dundum við þá?

Og hversu ömurlegt væri ef ég væri gaurinn sem fyllti það með einni saklausri færslu og allir myndu kenna mér um endalok alnetsins?

Ég er hræddur og mér er kalt.

Fordómar

“Nya svenskar
Gamla svenskar
Gamla fördomar
Nya fördomar”

Einu sinni var Haukari úti á gangi með hundræksni sitt, átti leið hjá sportbar og ákvað að stökkva inn og frétta hvernig Haukaleikurinn hefði farið. Haukarinn kallaði inn á pöbbinn, spurði hvernig fótboltaleiknum hefði lyktað og fékk þau svör að Haukar töpuðu. Um leið og það kom í ljós smellti hundurinn sér á bakið og lést vera dauður. Kapparnir á barnum brostu í kampinn og fannst þetta kostuleg sjón. Spurðu manninn hvort hundurinn væri þjálfaður í þessu. Það hélt sko Haukarinn, sagðist hafa kennt hundinum þetta og að hvutti lætist ávallt vera dauður er hann heyrði að Haukar töpuðu leik. Gleðigandarnir á barnum spurðu því næst hvað hundsi gerði eiginlega þegar Haukar ynnu.
-Tja... ég er ekki viss, sagði maðurinn. Ég hef bara átt hann í ár.

Ótrúlegt að segja frá því en þessi brandari var ekki fyndinn fyrr en ég skipti upprunalegu söguhetjunni út fyrir Haukara. Nú hugsa þó Haukararnir vinir mínir ef til vill: “Mikið djöfulsins fífl er hann Krissi alltaf”. Og lái ég þeim það ekki. Enda hafa þeir örugglega rétt fyrir sér. En rótgrónir fordómar mínir í garð Haukara hverfa ekki fyrir það (ekki einu sinni þó ég hafi áður logið því á þessari síðu að ég væri fordómalaus gagnvart Haukurum). Og þó ég hafi oft tekið unga FH-inga í gegn fyrir að skíta út Knattspyrnufélagið Hauka býr pínulítill fáfróður fordómadjöfull í mér sem púar á Hauka við hvert tækifæri. Það eina sem ég get gert er að bæla þessar tilfinningar niður eftir fremsta megni.

Á hinn bóginn fíla ég samkynhneigða í tætlur. Ég þekki reyndar engan samkynhneigðan sérstaklega vel en ég hef alltaf lagt mig fram við að sleikja þá upp. Þegar ég var ungur og blankur fór ég stundum á Mannsbar til að spjalla við kappana við barborðið og láta þá splæsa á mig kapteini í kók. Þeir komu fram við mig eins og algjöra prinsessu, blessaðir. Ég gufaði samt alltaf upp eftir drykkinn. Bara hvarf eins og algjör dramadrottning. En þessar ferðir voru samt lærdómsríkar og til þess gerðar að víkka sjóndeildarhringinn (þó ég hafi nú reyndar aldrei verið tekinn í sjóndeildarhringinn). Fordómaleysi mitt sést einnig vel á geisladiskasafninu mínu. Ég fíla fyrstu plöturnar með Queen t.d. alveg. Þó ég leggi fæð á allt sem þeir gerðu eftir 1980. Shír-hart-attakk er til að mynda frábær sem og Næt-at-ðí-ópera. Friðrekur sálugur var heldur ekkert slakur söngmaður.*

Ég hef líka fordóma gagnvart fólki sem notar orð eins og ‘raritet’, ‘pedagog’ og ‘að fabúlera’ og langar oft til að meiða það (ég fyrirgef þetta þó ef fólkið er danskt). Fólk gæti allt eins skipt þeim út fyrir orðin ‘ég er snobbaður hrokagikkur’ og komið sér þannig beint að efninu. Er einnig dómharður þegar ég sé fólk nota joð í orðinu aðilar.

En þó ég hafi í sakleysi mínu og einfeldni furðulegar hugmyndir um samkynhneigða og fyllist reiði þegar fólk segir ‘raritet’, hef ég engar áhyggjur af þeim karakterlýtum mínum. Ég hef meiri áhyggjur af vanþroskuðu sjónarmiði mínu í garð Haukara. Mitt nýársheit verður því tileinkað því að útrýma fordómum mínum í garð þeirra. Ég er sannfærður um að það muni takast með guðs hjálp enda miklu skemmtilegra að geta einbeitt sér að raunverulegu hálfvitunum, Stjörnumönnum úr Garðabæ.


*Heyrði reyndar ljótan brandara um daginn: ‘Hvað sagði Freddie Mercury eftir að hafa átt mök við Magic Johnson? Svar: Who want’s to live forever (hinu upprunalega svari hefur hér verið skipt út þar sem það þótti ekki fyndið).’

miðvikudagur, desember 28, 2005

Löggu- og áramótasúpa

“Every year is the same and I feel it again
I’m a loser, no chance to win”


Jólaboð eru súr. Ég var enn með harðsperrur í hausnum eftir jólaprófin þegar ég þurfti að leggja á mig að læra nöfn allra spánýju krakkanna sem ættingjar mínir hafa ungað út undanfarin ár af svipaðri taktfestu og áfergju og tennisboltavélar. Ákvað að mæta með svindlmiða til öryggis en þegar frænka mín sá hann var mér næstum hent út úr boðinu.

Er held ég enginn sökker fyrir jólunum. Fróðir menn segja mér líka að Jesú kallinn hafi í raun fæðst um vor. Og fjögur ár fyrir “Krist” í þokkabót.

Þegar ég hugsa um jólin hugsa ég um svífandi snjókorn er falla og gömlu jólaböllin í Öldutúnsskóla þar sem eldri kórstelpurnar í bláu kjólunum sungu alltaf ‘ba-ba-ba’ á torkennilegum stöðum í laginu ‘Svona gerum við’. En mér er stundum líka hugsað til lögreglumanna. Sennilega vegna þess að ég hef átt eftirminnileg samskipti við slíka menn í kringum jól og áramót. Þær frásagnir hafa áður verið færðar til bókar en örfáar löggusögur kann ég í viðbót.

Á gamlárskvöldum í denn var hópur ungra og spilltra Hafnfirðinga gjarnan samankominn niðri í bæ. Þar voru læti. Þar var drykkja. Þar var ég stundum líka. Oft urðu slagsmál á þessum samkomum. Einu sinni fékk félagi minn glerflösku í hausinn og þurfti að láta sauma nokkur spor í toppstykkið. Öðru sinni komst einn félagi Svínka bróður, sem var þekktur fyrir að vera friðsæll og ljúfur, í hann krappan. Honum var suddalega kalt eftir langt gamlársdund niðri í bæ og vildi heim, kvaddi vini sína og brá á það ráð að hlaupa eins og fætur toguðu heim á leið svo kuldinn næði ekki að herja á hann. Hann hljóp eins og mesti skeiðhestur en vissi ekki að skömmu áður en hann lagði af stað hafði rúða brotnað í miðbænum og löggan mætt til leiks í leit að sökudólgi. Senn fóru einkennisklæddir menn að elta þennan blásaklausa mannvin sem leist ekkert á blikuna, skrækti og hljóp enn hraðar. Að lokum sneru löggurnar hann niður, ríghéldu greyinu og negldu við grjótharða gangstéttina um leið og þeir þrumuðu ljótum orðum yfir honum. Félagar hans þurfti að hafa sig alla við til að útskýra allt saman fyrir löggunum. Manngreyið var bara rangur maður að hlaupa á röngum tíma.

Önnur hafnfirsk lögga var fræg fyrir að mökkast upp við störf sín, m.a. er hún færði mig í handjárn eftir snjókarlsatvikið fræga. Sá löggi átti einhverju sinni gott móment er hann stoppaði móður eina um jólaleytið og lét blása í áfengismæli. Sú var aldeilis edrú og fín en vel pirruð yfir einfeldni lögga. Löggi vildi þó mikið klína einhverju á kvendið, varð litið til barnsins í aftursætinu og sagði: “Gerirðu þér grein fyrir að komið er fram yfir leyfðan útivistartíma barna?”.

Bæjarfíflið á Selfossi gekk víst líka einu sinni í sveit lögvarða þar í bæ og mökkaðist allverulega upp þegar það klæddist búningnum. Var sem hafinn yfir allt jarðneskt. Frægt var þegar hann stoppaði og sektaði bróður sinn fyrir að aka um ljóslaus. Ljóslausi bíllinn var í eigu sjálfrar löggunnar.

Það verður þó ekki tekið af laganna vörðum að þeir vinna mikið og gott starf og kann ég vel að meta það þrátt fyrir glens og skens í þeirra garð. Enn þann dag í dag veifa ég þeim þegar ég sé þá, þó þeir séu löngu hættir að veifa mér til baka.

Breytir því þó eigi að framundan eru áramót. Síðasta áramótaheitið mitt var að læra “Nú árið er liðið”-lagið svo ég geti sungið það í ár. Stefnir allt í að það verði líka næsta áramótaheit.

laugardagur, desember 24, 2005

Skröggur spíttar út

Senn líður að árlegri hátíð hins heilaga peningaguðs. Fólk hefur bráðum hlaupið nóg um Smáralindina, hrint og troðist og barist fyrir síðustu eintökunum af Jóa Fel á DVD og nýju karókíplötu Kalla Bjarna. Það er gaman að segja frá því að þessi hátíð var áður fyrr tengd kristinni trú, ljósi og friði, jesúbörnum og mirrum. Enn þann dag í dag eru reyndar örfáar hræður sem í tilefni af þessu öllu saman dusta rykið af Guðsa gamla og mæta í kirkju. Liðið setur guðinn samt auðvitað aftur niður í skúffu þegar heim er komið. Öðrum nægir að setja bara Garðar Cortes á fóninn til að upplifa hátíðlega fílinginn. Ég set í mesta lagi Cortez the killer með Njáli unga á minn grammófón.

Þetta er skrýtin hátíð. Kannski eitthvað til í því sem einn móróninn söng; ‘Jesú hefði hlegið með/ hann faðir minn hefð’ann séð / mömmu kyssa jólasvein í gær’. Samt ekkert leiðinlegur skrípaleikur. Bara súr.

Átti erindi á sóðabúlluna Jolla bæði í gær og í dag. Kellurnar þar þurfa alltaf að segja ‘gleðileg jól’ og kreista fram dánheilkennisbros. Er að hugsa um að koma þeirri hugmynd á framfæri til eiganda staðarins (held hann heiti Jolli) að skipta út ‘gleðilegum jólum’ og neyða þær til að segja ‘gleðileg Jollajól’ í staðinn. Það myndi klárlega auka viðskipti:
-Ha? Ég heyrði ekki hvað þú sagðir...
-Gleðileg Jollajól (með hröðum og áhugalausum framburði).
-Einu sinni enn, ég bara heyrði ekki neitt...
Gott væri líka ef þær þyrftu alltaf að enda setningar um hátíðarnar á ‘barammbammbammbamm’ eins og í vísunni um litla trommuleikarann (held að lagið sé um Halla í Botnleðju); ‘Stelpur, nennið þið að setja einn tvöfaldan sóðaborgara á grillið, barammbammbammbamm’ eða ‘viltu franskar með þessu, barammbammbammbamm?’.

Bara upp á fílinginn. Jólin er nefnilega bara einn stór fílingur. Í kringum jólahaldið þurfa að vera rótgrónar hefðir sem helst má ekki hrófla við.

Heyrði einu sinni sögu af fjölskyldu einni sem rökræddi jólahaldið mikið. Krakkarnir þrír voru orðnir þreyttir á að troða alltaf rjúpu framan í sig á aðfangadagskvöld og vildu umbylta þeirri hefð. Eftir þras ákváðu foreldrarnir að láta lýðræðislega atkvæðagreiðslu skera úr um málið. Krakkarnir héldu leynilegan skyndifund en greiddu svo atkvæði og fór svo að rjúpan laut í lægra haldi með eins atkvæðis mun... fyrir Kentucky Fried Chicken. Krakkarnir voru þrjóskir og hótuðu öllu illu ef foreldrarnir voguðu sér að vanvirða lýðræðið. Á aðfangadagskvöld hitaði mamman á heimilinu upp kjúklingabita sem hún hafði keypt á Þorláksmessu og fólkið át Kentucky og franskar meðan messan ómaði í útvarpinu. Að matnum loknum ákváðu skömmustulegir krakkarnir að rjúpan yrði á borðum framvegis. Upp á fílinginn.

Hjá mér er jólastemmarastuðullinn frekar lágur ennþá. Er enn að bölva sjálfum mér fyrir að hafa skitið á mig í síðasta prófinu. Gekk reyndar mjög vel í prófinu, það er bara svo hallærislegt að skíta á sig, ekki síst þegar maður er kominn á þrítugsaldur og svona. Kannski finnur maður fílinginn á jóladag, sprettur upp og spyr krakkann í næsta húsi hvaða dagur sé, fiskandi eftir svarinu: ‘Það er jóladagur!’. Svona eins og úrilli gaurinn í sögunni. Eftir það mun ég svo hlusta eins og óður maður á Garðar Cortes, gera eins og einn engil í snjónum, éta laufabrauð og syngja fa-la-la-la-la-la-la-la-la og barammbammbammbamm og fúmm-fúmm-fúmm.

Jább. Svon’eru jólin. Svon’eru jólin.

miðvikudagur, desember 14, 2005

Svartigaldur frænku + Æ þér forni fjandi

Viskupésar og málsmetandi menn hafa stundum deilt um hver séu mestu grimmdarverk mannkynssögunnar. Tína kannski til umdeilda höfðingja eins og Stalín, Pinochet og Hitler og segja þá eiga höfundarétt illskupara og djöfulgangs. Ekki get ég sagt að ég sé sammála þess konar spekingum enda verður mín seint minnst sem viskupésa (á mínum legsteini mun sennilega standa: ‘Hér hvílir Kristmundur Guðmundsson, maður vel fyrir neðan meðalgreind. Vinsamlega stigið á hann.’). Illræmdasta grimmdarverkið sem mér kemur í hug var framkvæmt í byrjun desember 1986. Bakvið glæpinn var enginn Hitler, enginn Pol Pot, enginn Gengis Khan. Það var Þóra frænka, fjögurra ára skrattakollur frá Selfossi.

Hinn myrki svartigaldur sem frænkuvargurinn framdi fólst í því að bíta í alla molana í súkkulaðidagatalinu mínu og skila þeim svo aftur á sinn stað. Þessi jól liðu í ekka og táraflóði. Ég hágrét með gismóinn minn í fanginu. Hver bítur í alla molana án þess að klára þá? Hvað gekk henni til?

Vert er reyndar að geta að mikið rættist síðar meir úr þessari frænku. Hún er eiginlega með frægari frænkum (sennilega næstfrægust á eftir Soffíu). Í Flensborg var hún til að mynda ekki þekkt undir öðru nafni en Þóra frænka. Eitt sinn átti aðstoðarskólameistarinn meira að segja eitthvað vantalað við hana, gekk inn í miðjan líffræðitíma og bað um að fá að eiga orð við ‘Þóru frænku’. Ekkert þótti athugavert við það. Hún var frænka allra Flensborgara. Kennara og nemenda. Og Hreins húsvarðar sem safnaði plötum.

Og ástæða þess að ég dreg þetta jóladagatalsmyrkraverk frá 1986 fram í dagsljósið með tilheyrandi tilfinningaskaða er sú að Þóra frænka hefur nú loksins stigið fram og játað glæpinn. Hún hefur og gefið mér táknræna gjöf, jóladagatal (þar sem hún fékk óvart þrjú slík í ár) og bætt þar með upp fyrir syndir fortíðar. Óhætt er að segja að ég hafi ekki einungis endurheimt jóladagatal heldur líka frænku mína.

Því langar mig að koma á framfæri hjartanlegum þökkum til minnar eðalfrænku, Þóru frænku. Fyrir hennar góðvild sef ég nú værum svefni á nóttunni með gamla gismóinn mér við hlið. Afglöp fortíðar eru gleymd og grafin.

Í jóladagatalinu í dag fékk ég lest, hreindýr, skip og snjókall. Já, og eitthvað lauf. Mér til málsbóta át ég þetta allt svo hratt að ólíklegt er að jólasveinninn hafi séð það.

.......

Annars er prófplágan að níðast á mér þessa dagana. Ég er eins og andlaus, skítblönk og rytjuleg vampíra. Sem skrifar lítið á þennan fjölmiðil. Sú mjölfiðla ómar ekki næstu daga. Ætla að skrifa mikið þegar ég er búinn.

Eitt námskeiðið er öðru fremur að murrka úr mér lífsviljann. Forni fjandinn, íslenskt mál um tólfhundruð. Tímarnir hafa verið sjóðandi helgrýti. Er viss um að sama námsefni er notað þegar draga þarf játningar upp úr harðsvíruðum glæpamönnum. Eftir tímana líður manni eins og nýbúið sé að nauðga manni. Í dag var ég að reyna að lesa helvítlegan forndjöfulinn en bugaðist og grýtti bókinni í vegg og hóf að þruma yfir forna fjandanum og særa hann til hlýðni.

Til að átta mig á hinum forna óskunda hef ég grafið mig niður í holu Refs, kollega míns í fræðunum, sem staðsett er í því skítuga ormabæli Kópavogi. Refvingullinn hefur sent fjölskyldu sína á brott svo hún kynnist ekki myrkum hliðum fornbjóðsins. Þar drekkum vér garmar rótsterkt kaffisull í skinnfatnaði, allt þar til líkaminn hættir að bjóða það velkomið. Þá færir maðr sik iðuliga yfir í áfenga drykki, vín ok bjor, til at halda sönsum. Eptir hrít lemr maðr hvárn annan met stóli svá maðr festir eigi sváfn.

Já. Líðr eins ok ek sé í dópi. Svá er lífit í Fagradali. Beiskt og vánt. Svá er fjándinn forn. Svá em ek langt leiddr.

laugardagur, desember 03, 2005

Saurmissir

Var að heyra að ófremdarástand ríkti í grunnskólum bæjarins þar sem nemendur leggðu í vana sinn að losa saur í skólatöskur og pennaveski samnemenda sinna. Eigi veit ég hvað skal segja um þá iðju. En einungis einn mann þekki ég sem komist hefur skammlaust út úr því að kúka á sig. Það var strákur sem ég þjálfaði fyrir mörgum árum.

Pottormurinn varð semsagt fyrir þeim skakkaföllum á miðri æfingu að drita lítið eitt á sig en var þó ekkert á leiðinni í einhvern vandræðalegan pakka. Var eiginlega bara ofursvalur á því:
-Hei Krissi, ég var að kúka á mig maður, sagði hann hálfbrosandi.
Ég varð grafalvarlegur þegar ég heyrði þetta. Ætlaði í fyrsta lagi að passa rækilega upp á að enginn af hinum strákunum á æfingunni kæmist að þessu og þurfti í öðru lagi einhvern veginn að tækla vandann. Gaurinn hafði minni áhyggjur:
-Já, ég er að spá hvort ég megi ekki bara hringja í mömmu og láta hana sækja mig fyrr. Ertu með síma, maður?
Ég lét hann fá símann minn og hann sagði múttu alla sólarsöguna án þess að blikna. Ætlaði svo að kveðja mig:
-Krissi, ég ætla bara að kíkja niðureftir, mamma er að koma. Við sjáumst bara á næstu æfingu, er hún ekki á laugardaginn?
-Uuu, jú, laugardaginn...
-Klukkan þrjú?
-Jú.
-Kúl. Sjáumst.
Svo labbaði hann drullusvalur af æfingu, og hélt fullkomlega kúli þrátt fyrir einkennilegt göngulag sem skýrðist af óboðna gestinum í brókum hans.

Þó strákhvolpurinn hafi náttúrulega verið mjög ungur þegar þetta gerðist sýndi hann og sannaði að maður þarf ekkert að vera kindarlegur þó óhöpp banki að dyrum. Klárt að ef það kemur manni ekki úr jafnvægi að kúka á sig er maður fær í flestan sjó. Sjálfur myndi ég sennilega saga af mér vinstri hendina fyrir að vera að eðlislagi jafnkúl á því og kauði.

Some people call me the space cowboy

Þegar ég var að byrja í Flensborg var ansi mikið af Gunnum (drengjum sem báru nafnið Gunni) í busahópnum. Minn uppáhaldsgunni var Gunni Grétar. Annar Gunni kom úr Grindavík. Og einu sinni stakk ég upp á að til aðgreiningar yrði hann kallaður Gunni Grindevicensis eins og Grindvíkingurinn Jón Guðmundsson Grindevicensis í Íslandsklukkunni. Það viðurnefni festist aldrei í sessi. Í staðinn fékk ég viðurnefni sem senn var á hvers manns vörum: ‘Fávitinn’. Átti sér skírskotun í heimsbókmenntirnar líka.

Á fjórða ári var ég hins vegar þekktur undir nafninu Elding. Ég var Elding, Jói var Þruman og Siggi var Stormur. Bárum þessi nöfn í daglegu tali. Einhver spurði kannski: ‘Hei, hvar er Elding?’ Og þá svaraði Stormur máski yfirvegað en töff í bragði: ‘Skrapp á klósettið með Þrumunni’. Ég var alltaf stoltur af því að vera Eldingin. Fannst það vera forréttindi. Þangað til ég frétti að nafngiftin var upphugsuð af stelpuskjátum sem vísuðu með henni í bólgetu mína. Það var versti afmælisdagur sem ég hef upplifað.

Hef reyndar lengi verið kallaður Dóki líka. Á tímabili hélt fólk að Dóki væri millinafnið mitt. Og í háskólanum geng ég stundum undir nafninu Kimbi. Já, þið gátuð rétt; eins og Þorleifur kimbi í Eyrbyggju.

Í dag vil ég samt helst vera kallaður Krissi. Er kominn yfir öll þessi gælunöfn. Eiginlega eina nafnið utan Krissa sem má kalla mig í dag er Níðhöggur hinn mikli. Nennið þið því? Plís? Ég skal borga ykkur.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Hlusta á Ace of Base og ég ferðast aftur í tímann

Já, verður maður ekki að gera þessa endurfundi upp?

Þegar ég mætti í partíið um kvöldið var allt liðið mætt og orðið ölreift mjög. Til að byrja með þurfti ég ítrekað að líta á klukkuna. Ekki af því það var leiðinlegt heldur vegna þess að ég hafði lúmskan grun um að hún væri orðin 1997.

Ég ferðaðist eiginlega átta ár aftur í tímann og fór í enn eitt 10. bekkjarpartíið ásamt grunnskólafélögum mínum. Besta 10. bekkjarpartí sem ég hef farið í. Án efa ekki það síðasta.

Sömu hlutirnir reyndar nokkurn veginn í gangi, gömul kærustupör að rífast yfir sambandsslitum frá árinu 1997, Kiddi með klútinn enn með klútinn og ég held ég hafi meira að segja séð tvo gaura poxa í einu horninu. Kiddi og Gunni lentu svo næstum í slagsmálum þegar Gunni sagði í óðagoti að Scatman væri betri en Snow. Þó fólk hafi vafalaust breyst mjög mikið og jafnvel þroskast eitthvað á þessum átta árum duttu allir eiginlega í sama farið. Og það var líka það besta sem gat gerst.

Enginn setti upp ríjúnjongrímuna og þóttist í tærum rembingi vera að brillera í lífinu. Fáir gengu manna á milli og spurðu: ‘og hvað ert þú að gera?’. Mjög fáir voru með vélræna og þaulæfða framsögu um afrek sín síðustu árin. Enginn var í stigakeppninni þar sem punktar fást fyrir að eiga hús og börn og vera giftur og eiga jeppa og uppþvottavél og að vera búinn að finna upp nytsamlega hluti eða búinn að bjarga selebrídíum úr eldsvoða.

Kannski er fólk bara búið að gera sér grein fyrir því að það er löngu búið að missa það. Sá eini sem hefur afrekað eitthvað frásagnarvert er Heimir, en hann er landsliðsmaður í litbolta. Ég áttaði mig reyndar ekki alveg strax á því hvað litbolti væri og fór að ímynda mér hann í ærslafullum leik í Boltalandi eins og var í IKEA. Heimski ég fékk svo að vita að þessi íþrótt heitir peintboll á íslensku.

En þarna var mikil gleði. Takmarkalaus gleði. Eða svo ég vitni að lokum í hið fornkveðna, eiginlega nokkurs konar einkunnarorð kvöldsins:
“No, no, no, no, no, no, no, no, no, no, no, no, there’s no limit’.