þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Holiday

“Holiday,
far away
to stay
on a Hol-i-day
Far away
Let's go today
In a heartbeat!”

Ég er hættur að nenna að skrifa svona blogg. Hef lítinn áhuga á því lengur. Samt dauðlangar mig til að halda aðeins áfram og ná að skrifa hundraðasta bloggið mitt. Vantar bara þrjú upp á.

Veit bara ekki hvað þetta hundraðasta blogg á að fjalla um. Ég er helvíti hræddur um að ég hafi nú þegar skrifað allt sem ég hef að segja. Á enga skoðun eftir. Eyddi síðustu skoðun minni í að taka afstöðu gegn listdansi á skautum sem er nú öllum stundum í sjónvarpinu. Nenni ekki einu sinni að apa skoðanir upp eftir öðrum. Ég er orðinn að svona gaur sem fer í skóbúðir og skoðar geðveikt lengi og mátar nær öll skópörin en kaupir aldrei neitt af því hann getur ekki ákveðið sig. Á endanum segir afgreiðslukonan svo alltaf: “Við erum búin að loka, ungi maður, vinsamlega farðu út”. Ég get ekki einu sinni myndað mér skoðun á gömlu LA Gear skónum með pumpunni og blikkljósinu. Meira að segja múnbúts gera ekkert fyrir mig. Ég man gamla teiknimyndaþætti um Skófólkið (Sjúsjúsjúsjúpíbol) en hef heldur ekkert markvert um þá að segja nema að þeir voru um skófólk.

Þessi vansi einskorðast ekki við skóbúnað. Ég nenni ekki einu sinni að mynda mér skoðun á spámannateikningunum, Silvíu Nótt eða þjálfaravandræðum íslenska landsliðsins í handbolta. Mér er bara alveg sama.

Ég hef því ákveðið að gera hlé á skrifum mínum. Ég er orðinn leiður á þeim. Orðinn leiður á sjálfum mér. Leiður á því að þurfa að druslast með sjálfan mig hvert sem ég fer. Leiður á að þurfa alltaf að vera með sjálfum mér í liði í fótbolta. Leiður á að vera alltaf samferða sjálfum mér í skólann. Leiður á því hversu illa borguð svona blogg eru.

Ég ætla því í stutt bloggfrí. Naflaskoðun framyfir vetrarólympíuleika. Það er líka nauðsynlegt að gaumgæfa vel á sér naflann þegar maður er úti að aka. Það vita jú allir menn með nafla.

Í fríinu mun ég kannski endurskoða ritstjórastefnu þessarar síðu. Ég hef lengi velt því fyrir mér að hugsa stærra, höfða til alþjóðlegs markaðar og skrifa jafnvel á ensku eða þýsku.

Annars er Samúel Örn að kalla á mig, útsending frá vetrarólympíuleikum að byrja. Reyni að fylgjast með þó ég sé ansi fáfróður um vetraríþróttir. Eina sem ég veit er að það má ekki borða snjóinn. Og þó það sé góð skemmtun að gera engla í snjó er það örugglega virðingarleysi að gera Múhammeð spámann í snjóinn. Þá verða allir skíðakapparnir frá Saudi-Arabíu brjálaðir.

Jæja. Ég er farinn, aular. Bæjó.

föstudagur, febrúar 10, 2006

Einn kall

‘Well the dawn was coming,
heard him ringing on my bell.
He said: My name's the teacher,
that is what I call myself.’


Þegar ég var lítill fór ég oft á FH-leiki með föður mínum. Stundum kom annar kall með okkur. Þessum kalli fannst gaman að tala, var hressari og orkumeiri en álfurinn í sjónvarpinu en átti við það einkennilega vandamál að stríða að halda jöfnum höndum með Grindavík, KR og FH. Sagan segir að hann hafi verið meðlimur í KR-klúbbnum ásamt allra hörðustu Vesturbæingum. Einu sinni gleymdi hann sér í þessum félagsskap og stóð upp og fagnaði þegar FH skoraði í Frostaskjólinu. Kallinn uppskar ásakandi augnaráð sessunautanna.

Svo komst ég að því að kallinn væri kennari í skólanum mínum. Sögusagnir hermdu að hann væri ógnvænlega strangur. Samt var hann feikivinsæll meðal krakkanna. Eftirvæntingin var mikil í bekknum þegar kom í ljós að þessi maður ætti að kenna okkur.

Ég naut góðs af því að þekkja hann í fyrstu tímunum. Einu sinni kom hann með ævisögu George Harrison og sagði mér að skoða hana í tímanum. Barði svo öðrum klossanum í kennaraborðið og hóf að spyrja alla aðra en mig út úr námsefninu. Þetta gerðist aftur skömmu seinna þegar nýja KR-blaðið var komið út og ég fékk að glugga í það. Kallinn lánaði okkur bróður mínum líka Ten years after disk og Very ‘eavy, very ‘umble með Uriah Heep. Öðrum kennara skólans, Helga Helgasyni, varð mikið um þegar hann sá þessar plötur á borðinu mínu í stærðfræðitíma, talaði fjálglega um Alvin Lee, gítarleikara Ten years after, og sagði hann næstbesta gítarleikara í heimi á eftir bróður Höllu vélritunarkennara. Ég er ennþá að reyna að melta þessa athugasemd Helga.

Umræddur kall var snillingur í að segja sögur. Og mér til mikillar gleði komst ég nýlega að því að hann er sem betur fer ekki hættur því.

...

Svona í leiðinni má einnig benda á annan gamlan kenniföður og bloggjöfur sem á helvíti fínan ritvöll líka.

Og fyrst ég er byrjaður að rausa um góða penna þá er þessi einn sá kostulegasti sem ég hef nokkru sinni vitað um.

Hryllingssaga

“God knows I’m good
God knows I’m good
God knows I’m good
God may look the other way today”


Á annan í jólum fór ég bæinn ásamt góðum mönnum. Á Keltik kross vorum við hýrir og í góðu skensi. Öllu glaðari var þó hópur úberkristinna gleðiganda, manna og kvenna, á borði ei langt frá okkar. Fólkið söng af mikilli gleði um á sem rann djúp og breið og um Jesú sem frelsaði þau. Stökk ég í hópinn og söng með en krakkarnir tóku mér misjafnlega. Ég hugsaði um að starta næsta lagi og byrja að gaula ‘Sympathy for the devil’ en þorði því ekki. Hefði líka litið út eins og kjánaprik. Illgresi í kálgarði guðs sem söng ekki með af einlægum ásetningi.

Enda hefði engu skipt þó ég hefði gert gott grín á þessari stundu. Ég hefði verið í sömu sporum eftir brandarann og ég var fyrir hann. Tilgangslaus og vitlaus sem fyrr, alveg eins og brandarinn. Þegar hlátrinum hefði linnt væri allt eins og áður. Ég bara einum brandara nær dánarbeðinu. Hressu krakkarnir fóru ábyggilega öll brosandi heim þetta kvöld, full af von, með sinn skýra tilgang í farteskinu. Ég hins vegar guðlaus og ráðvilltur og einn og kaldur og pínu illt í fætinum. Einn með grimmri vinkonu minni, hótfyndninni. Og vinum mínum auðvitað.

Oft vildi ég vera fígúran sem syngur um ána djúpa og breiða og talar um Job og Sýrak og Abraham. En ég á hins vegar við það vandamál að stríða að halda að jörðin sé flöt vegna þess að vísindamenn hafa fært rök fyrir því. Halda að allt sem ég geri byggist á rökum. Ég set bensín á bílinn minn því annars veit ég að hann mun lítið nýtast mér. Ef ég myndi ekki gera það tæki ég S2 strætóbílinn til að komast í skólann því ég veit að hann kemur mér þangað. Þegar ég þarf að tala við vini mína stimpla ég ákveðin númer á símann minn því ég veit að ef ég geri það heyrast raddir þeirra í símanum mínum. Reynslan hefur sýnt fram á allt þetta. En hvernig get ég haft skoðun á fyrirbæri (eins og Guðsa) sem enginn hefur séð? Sem enginn hefur sannað að sé til? Hvernig er hægt að sannfæra sig um eitthvað sem maður veit ekkert um? Er ekki alveg eins hægt að trúa á Lagarfljótsorma og einhyrninga? Bottomlænið sumsé: Molnum við ekki öll og grotnum ásamt hinum dýrategundunum þegar við deyjum? Slökknar ekki bara á okkur? Geimóver; ekkert aukalíf?

Kannski er bara hægt er að lifa á þrjá vegu. Í fyrsta lagi að lifa hræddur í tilgangsleysi og efa og trúa í hjarta sínu á stórt ekki neitt. Í öðru lagi að kjósa að hugsa ekki, lifa sofandi, hafa ekki áhuga á andlegum efnum og finna sér önnur áhugamál sem láta tímann líða (eins og t.d. að vinna vinnu eða lesa og skrifa blogg). Í þriðja lagi er hægt að sannfæra sig um að æðri máttarvöld sjái um okkur.

Úllen, dúllen, doff, kikkelaní koff.

Ef ég er heppinn er um það bil einn þriðji lífs míns að baki. Alltof mikið. Spurning um að fara að byrja að lifa?