miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Rokkgáta

Gátufaraldur ríður yfir netlendinga. Sökum greindarskorts get ég ekki tekið þátt í þeim en sökum dómgreindarskorts ákvað ég að búa til eina þegar ég átti að vera að skrifa ritgerð. Reglurnar eru þær að ráða þarf fyrst liðina fjóra og finna svo hvað allir eiga sameiginlegt. Sá hefur leyst gátuna sem hefur öll fimm svörin á reiðum höndum (þ.e. 1, 2, 3, 4 og sjálfa spurninguna). Rétt er að taka fram að þetta fyrirkomulag er ekki stolið frá neinum.

1. Hann var yngstur þeirra fjögurra en var samt næstfyrstur til að gefa upp öndina.
2. Þeir voru frá Birmingham og kölluðu sig í fyrstu Polka Tulk.
3. Hann fæddist 1943 og hlaut skírnarnafnið George. Hann var staddur á Íslandi á þessu ári.
4. Hljómsveitin hóf störf 1988 en allir meðlimir höfðu áður unnið með þekktum sveitum. Fyrsta lagið þeirra hét “Sameiginlegt”.



5. Hvað eiga allir þessir sameiginlegt?

Svör sendist í krg4@hi.is. Bjór er í verðlaun og verður sendur um hæl í viðhengi.

Játningar drullusokks

Í fyrst lagi: Mér hefur alltaf verið annt um kúl mitt. Það er eitt það dýrmætasta sem ég á. Því hef ég alltaf forðast að sýna minnstu tilfinningar. Set líka mjög oft upp kúl James Dean-svip (m.ö.o. læt eins og ég sé með harðlífi) og reyni yfir höfuð að vera ekki asnalegur - með misjöfnum árangri þó.

Eitt af því í lífinu sem ekki er kúl er öskudagurinn. Ég var eiginlega aldrei neitt á öskudaginn þegar ég var krakki. Einu sinni var ég reyndar Ruud Gullit, með hárkollu og í AC Milan búning. En Gullit var erfitt að toppa og frá 10 ára aldri fór ég alltaf í fýlu á öskudaginn og vildi ekkert vera. Mér var alveg sama um sælgætishrúgurnar sem krakkarnir komu með heim. Allt nammi heimsins kom ekki í stað kúlsins. Ég var ekki hóra. Allavega ekki þegar ég var barn.

En helvítis vitleysan eltir mann á röndum enn þann dag í dag. Og stundum lendir maður í því að fólk býður í grímubúningapartí. Sömu kenndir og í barnæsku gera vart við sig og yfirleitt mæti ég ekki. En um helgina síðustu yfirsteig ég óttann og klæddi mig í búning eins og fífl. Við brósi brugðum okkur í gervi Maríóbræðra, vopnaðir drullusokkum og pítsum. Ég var Luigi.

Þetta var ekki eins hræðilegt og ég hélt. Hinir gestirnir litu margir verr út en ég. Í raun sé ég ekki eftir neinu. Ja, nema kannski einu.

Þegar allir voru orðnir frekar ruglaðir af ölvun tók bróðir minn, Maríó, upp á því að drekka áfengt öl úr drullusokknum sínum. Þetta var glænýr drullusokkur svo það var held ég alveg í lagi. En í einni af fjölmörgum klósettferðum mínum þetta kvöld tók ég eftir því að við hlið klósettsins var drullusokkur. Eiginlega mjög svipaður þeim sem við vorum með nema bara margnotaður. Og þegar ég stakk upp á því að það væri kannski fyndið að láta einhvern drekka úr heimilisdrullusokknum var ég tekinn á orðinu. Augnabliki síðar var fólk farið að skála með heimilisdrullusokknum hægri vinstri. Haldandi að um hreinan drullusokk væri að ræða.

Ég þurfti að fara snemma heim því ég var að þjálfa daginn eftir. Ég leit í kring á alla fábjánana í búningunum drekkandi úr drullusokkum og spilandi einhvern rafstraumsleik (sem gekk út á það eitt að fólk fékk raflost og kveinaði) og komst að þeirri niðurstöðu að undir þessum einkennilegu kringumstæðum hefði mér tekist að halda kúli þrátt fyrir allt.

Og eftir á að hyggja var þetta bara massapartí. Verð næst dreki.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Jólasaga

Það var trúlega í nóvemberlok þegar fór fyrst að taka eftir undarlegri hegðun hjá stóra bróður. Ávallt er honum áskotnaðist fé, þó það væru bara örfáir tíkallar, skaust hann út í Hvammasjoppu eins og eldibrandur og hljóp svo beina leið heim, upp í herbergið sitt og læsti. Í fyrstu taldi ég að bölvaður froðuheilinn væri byrjaður að reykja og ákvað að veita honum eftirför. Ég vafði trefli um andlit mitt og dulbjóst sem njósnaninja. Greip hann glóðvolgan einn eftirmiðdag fyrir utan sjoppuna og sá greinilega að hann hafði fjárfest í þremur piparstöngum. Ég yfirheyrði hann á staðnum og upp úr krafsinu kom leynileg ráðagerð hans; að safna ógrynni piparstanga í gamla makkintossdollu og éta þegar barnaefnið byrjaði á aðfangadag jóla. Ég spurði hann nötrandi af forvitni:
-“Af hverju piparstangir?”
-“Af hverju piparstangir?”, spurði Svenni á móti, hló að mér fullur hneykslunar og leit á mig eins og frussandi horslumma læki úr nefi mínu. “Allir vita að piparstangir eru besta nammið í heiminum. Ímyndaðu þér að vakna upp á heilögum aðfangadegi með fullt box af slíku dýrindis gulli”, sagði hann og leit sem annars hugar og dreymandi í átt að Húbbahól.

Ég hreifst strax af þessum eldmóði Svenna og frá með þessari stundu helgaði ég mig þessu eina verkefni. Ekkert annað komst að. Ég leitaði að klinki heima hjá mér, á götum úti og sníkti villt og galið af ættingjum. Hver króna sem ég fékk milli handa fór í piparstangasjóðinn.

Áfram leið desember og senn voru makkintossdollurnar okkar Svenna orðnar þrjár talsins. Lífið snerist um piparstangir. Á Þorláksmessu töldum við saman stangirnar. Ég átti 97 stangir og Svenni 134. Við vorum stoltir af fengnum og gátum vart beðið eftir að vakna.

Barnaefnið á Stöð tvö hófst stundvíslega klukkan 8.00 þennan aðfangadagsmorgun. Við komum okkur fyrir undir sæng og afmeyjuðum fyrstu piparstangirnar. Sú fyrsta var góð. Önnur ekki eins góð. Ég var orðinn leiður á bragðinu þegar kom að þriðju. Fjórða og fimmta fóru í hausinn á Svenna og ég hljóp grátandi upp í herbergi, öskrandi að honum með ekkasogum: “Þú eyðilagðir jólin, apaheili!”. Ég skellti hurðinni þrisvar í röð þennan morgun.

...

Ég var sex. Gott ef þetta voru ekki sömu jólin og Þóra frænka át súkkulaðidagatalið mitt. Algjört helvítis annus horribilis.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Dagblaðið Vísir

Á hinum myrku miðöldum voru sekir menn leiddir fyrir fjöldann og hafðir til sýnis svo auðmýking þeirra væri meiri.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Old friends

Fór í gær út að éta í hádeginu og átti einar innihaldsríkustu samræður í langan tíma við kumpána minn. Út frá vangaveltum um gamla sovéska markmanninn Rinat Dassaej spunnust umræður um hollenska landsliðið 1988:

-Úff, spurning með Dassaej í markinu hjá Basten?
-Skallinn hjá Gullit var samt óverjandi.
-Já. Sjit, Hans van Breukulen?
-Heyrðu, Vanenburg!
Þögn.
-Van Tiggelen.
-Jan Wouters og Koeman.
-Erwin? Hrækard!
-1990? Buchwald, Brehme, Littbarski.
-Já. Pearce og Waddle. Neil Webb.
-Houghton. Preud’homme. Limpar.

Ég hefði allt eins getað verið að tala við malasískan knattspyrnuáhugamann. Boltalingóið er alþjóðlegra en esperanto. Tungumál án landamæra.

...

Á knattspyrnuvellinum er rúm fyrir alla. Nær stéttlaust samfélag. Fátækir stráklingar sem ólust upp við að sparka í tuskur geta leikið við hlið drengja með silfurskeiðar í tranti. Í fótboltaliði er pláss fyrir agalausa bjálfa sem eru slæmar fyrirmyndir en hálfguðir í krafti hæfileika sinna, en einnig fyrir skynsama og vel upp alda leikmenn sem ávallt eru til fyrirmyndar. Sumir koma heim úr atvinnumennsku með lögfræðigráður. Aðrir skalla andstæðinginn í bringuna í mikilvægasta leik lífs síns.

Og oftar en ekki eru það agalausu fíflin sem hafa hreðjarnar sem til þarf að vinna jafna leiki. Gaurarnir sem rífa kjaft. Sitja aftast í rútunni og heimsóttu iðulega skrifstofur skólastjóranna. Komast í slúðurblöðin fyrir slagsmál á pöbbnum. Þora að fórna sér inni á vellinum. Menn með hreðjar Rambós en vitsmuni mangós.

Og það besta er að þetta er fjölgyðistrú. Þú getur haldið með slatta af liðum í slatta af löndum. Getur lagt átrúnað á Rooney og Ronaldinho án þess að móðga neinn. Varnarguði og sóknarguði. Jafnvel apana í búrinu eins og Dassajev.

Um tæknileg mistök Árna Johnsen

Nei, djók.

Vögguvísa Vesturlandabúans

Ef Bush getur sofið þá get ég sofið.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Living with war

“I'm living with war everyday
I'm living with war in my heart everyday
I'm living with war right now
And when the dawn breaks
I see my fellow man
And on the flat-screen we kill and we're killed again
And when the night falls, I pray for peace
Try to remember peace”

Þegar snjónum kyngir skyndilega niður á Íslandi flykkjast krakkarnir í hverfinu út að leika. Ekki ég. Ég hef séð snjó skrilljón sinnum. Er hættur að taka eftir honum.

Í sumar voru krakkarnir alltaf að gefa öndunum. Ekki ég. Ég hef séð fugla svo oft í gegnum tíðina að ég veit ekki lengur af þeim.

Í fréttunum eru enn á ný frásagnir af afleiðingum Íraksstríðs. Orðnar jafnhversdagslegar og veðurfréttir. Stundum slökknar á mér þegar talað er um Írak. Mannsföllin eru svo hversdagsleg að ég hætti að heyra.

Samt er það svo að á síðustu tveimur árum hafa rúmlega 4.000 lögreglumenn verið drepnir í Írak. Um 900 árásir eru gerðar á bandaríska hermenn í Írak í hverri viku. 85% bandarískra hermanna í Írak telja að stríðið í Írak sé að miklu leyti til að hefna fyrir þátt Íraka í hryðjuverkunum 11. september. 77% þeirra halda að Íraksstjórn hafi sérstaklega stutt við bakið á Al-Kaída. U.þ.b. 50.000 íraskir borgarar hafa látist af völdum stríðs síðan það hófst. 700 í síðustu viku.



‘I’m living with war everyday’ sagði Neil Young mér um daginn. Stríðsplatan hans hefur loksins ratað á grammófóninn minn. Það er kúl þegar lífið hefur ekki murrkað hugsjónirnar úr gömlum köllum. Hann minnir smá á Ómar Ragnarsson.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Heimsendir

Fréttir herma að heimsendir sé yfirvofandi í ljósi þess að Jórdanir öðluðust nú nýlega gereyðingarvopn. Ekki er talið að kjarnorkuvopn séu í fórum Jórdana en samkvæmt áreiðanlegum heimildum mun ríkisstjórn landsins standa fyrir því að láta Michael Bolton, Einar Örn, Kenny G og James Blunt semja saman jólalag sem mun eyða heimsbyggðinni. Einnig er óttast að sköllótti gaurinn í Aqua verði með rappkafla í laginu.

Sagði ekki skáldið: Er ekki tími til að fara að lifa svo þeir hafi eitthvað að drepa?

sunnudagur, nóvember 19, 2006

And in my best behavior I am really just like him

Ég man að þegar ég var barn þótti það góður siður að gera hróp að mormónum. Þeir voru hálfgert fríksjóv, uppáklæddir á reiðhjólunum sínum gangandi í hús áreitandi venjulegt fólk sem kaus heldur frið fyrir framan sjónvörpin sín. Man einu sinni þegar nokkrar stelpur úr krakkahópnum úthúðuðu tveimur ungum jakkafataklæddum mönnum, kölluðu þá helvítis mormónafífl og aumingja. Þeir urðu afar skúffaðir og svöruðu fyrir sig með enn verri munnsöfnuði. Sem mátti alveg þar sem þeir voru engir mormónar. Bara fullorðnir menn á leiðinni á djammið í jakkafötunum sínum.

Eftir að ég kynntist öldungi Mortensen (sem er enginn öldungur heldur yngri en ég) í strætó á föstudaginn finnst mér trúboðar bara töff. Við öldungur Mortensen erum nefnilega um margt líkir. Hlustum báðir á tónlist og höfum áhuga á íþróttum. Ekki spillir fyrir að heima í Kaliforníu starfar hann sem leikari og var með fast hlutverk í Boston Public-þáttunum, þáttum sem ég hef oft horft á. Í raun er algjör veisla að lenda í klóm strætómormóna þegar hægt er að lenda í KB-banka hálfvitunum í verslunarmiðstöðvum. Eða öpum sem hringja á kvöldin frá Sjóvá og Gallup. Eða mannræningjum og hryðjuverkamönnum.

Tveimur tímum eftir að ég kynntist öldungi Mortensen var ég mættur í kirkju í fyrsta sinn í mörg ár. Klerkurinn var með arnarvængi, grímu og í skátabúningi. Hljómsveitin var jafnvænggefin, flögrandi um kirkjuna eins og fiðrildi. Plastjólasveinar og jólaskraut voru um allan kórinn. Altaristaflan var breiðtjald með vídjómyndum af amerískum klappstýrum. Svenni bróðir kom með viskífleyg sem við sötruðum af. Kirkjuferð að mínu skapi.

Sufjan sveik ekki. Kom mér fyrir sjónir sem rosalega kristilegur amerískur strákur. Jarðbundinn fullkomnunarsinni. Með allt sitt á hreinu. Minnti mig smá á öldung Mortensen.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Dagur íslenskrar tungu

Elsku móðurtungan mæta,
máttug svo og laus við löst.
Þín við munum þakklát gæta.
Þú ert moðörfokking möst.

Fyrir daga internetkláms

Til er saga af Salvador Dali.

Hann var eitt sinn staddur á samkomu og heillaðist af ungri dömu sem þótti svo fríð ásýndum að allar aðrar ungmeyjar bliknuðu í samanburðinum. Hún var með fullkomið vaxtarlag, með eindæmum andlitsfríð og með bros sem gat lýst upp heilu herbergin. Karlmenn áttu í öndunarerfiðleikum í kringum þessa saklausu en þokkafullu gyðju og þar var Salvador Dali engin undantekning.

Salvador Dali starði á dömuna um stund en safnaði loks kjarki til að ganga upp að henni. Hann átti erfitt með að finna réttu orðin frammi fyrir þessu fullkomna sköpunarverki en náði að stumra lágt út úr sér: "Ég verð að mála þig. Á morgun kl. 12.00 á vinnustofunni. Í nafni listarinnar; þú verður að mæta." Yfirbugaður ruglingslegum tilfinningum gekk hinn heimsfrægi málari burt og yfirgaf samkomuna.

Degi síðar sló klukkan tólf og á sama augabragði heimsótti hin unaðsfagra snót Salvador Dali á vinnustofu hans. Listmálarinn tók á móti henni eins og um drottningu væri að ræða og bað hana að fækka fötum og leggjast í rándýran dívan sem staðsettur var í stofunni miðri. Eftir örstutt þóf féllst daman á þetta. Hún tætti hægt af sér hverja spjör og lagðist í sófann.

Salvador Dali mældi hana út með augunum. Hann gekk að henni, hagræddi hárlokkum hennar og virti hana vel fyrir sér. Tók sér loks stöðu bakvið strigann með pensil í hendi. Hann lagði þó pensilinn fljótt aftur frá sér og hóf að fullnægja sjálfum sér bakvið strigann. Salvador Dali rúnkaði sér í snöggheitum, andvarpaði og lét sig svo skyndilega hverfa.

Ægifögur gyðjan beið nokkra stund en klæddi sig svo aftur í flíkurnar skömmustuleg á svip. Þennan dag fór ekki málningardropi á striga Salvadors Dalis.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Netþjónninn ég

Nenni ekki að elda í dag. Óþarfi að gera það alltaf sjálfur. Meira að segja litla gula hænan fer stundum út að éta. Þó ekki á KFC. Hér er því tilbúinn matur:

Forréttur:
Meira að segja Titus Bramble myndi hlæja að þessum vinnubrögðum.

Aðalréttur:
Veislumatur sem ég fann á svokölluðu mæspeisi. Miklir fagmenn á ferð og mæli ég með ‘The Ballad of Dallas’. Fronturinn, Bo Pálsson (aukasjálfið hans heitir Reverend Dallas), er svar Hvammahverfisins við Jim Morrison. Let’s get it on...

Eftirréttur:
Apalag Belle & Sebastian af skoskri barnaplötu veitir Íslendingum kannski huggun gegn þeim harmi að vera apalaus þjóð. Apalaust land er land smáborgara og durta. Verður vonandi kosningamál í vor.

Verði ykkur að góðu.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Bældir karlmenn sameinumst

Ókei, þetta eru mínar tilfinningar og það er kominn tími á að þær fái að úthellast. Tilfinningar sem ég á, finn fyrir og verð að taka mark á. Ég er orðinn leiður á að byrgja allt inni. Ég er jafnmikil tilfinningavera og aðrir, ekkert minni þó ég sé karlmaður. Ég hef þarfir, kenndir og skoðanir eins og aðrir. Ég á fullan rétt á að tjá mínar tilfinningar án þess að vera hræddur við afleiðingarnar. Ég vil taka brynjuna af stöku sinnum líka. Mér líður illa og ég byrgi þetta ekki inni sekúndu lengur:

Djöfull hata ég hinn ógeðslega Doktor Phil og allt viðbjóðslega röflið sem viðgengst í þættinum hans.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Mannfíflið

Það er tími í háskólanum. Uppveðrað fólk diskúterar af miklum áhuga þær breytingar sem urðu á vísindalegri orðræðu á 18. og 19. öldinni. Maðurinn hafnaði bulli og bábiljum og fetaði veg framfara. Honum er víst enn ekkert ómögulegt og framundan eru fleiri ótrúleg tækifæri í endalaust spennandi vísindasamfélagi. “Samfélagsbreytingar á síðustu 150 árum eru ótrúlegar”, segir feitlagin kona á fremsta bekk og segir sögur af dauðum afa. Sjálfur skil ég lítið í tímanum og á erfitt með að tengja umræðuna við námsefnið en hrífst þó eilítið með þegar liðið byrjar að rausa um mikilfengleika manns og vísinda. Reyni að setja upp gáfulegan svip og kinka stundum kolli (en bíð í raun með óþreyju eftir frímínútum sem mér þykir ennþá það skemmtilegasta við skóla). Ég lít yfir hópinn. Svei mér þá, djöfull erum við öll öflug og flott svona nett háskólamenntuð og æðisleg. Það er eins og ekkert geti stoppað okkur í leit okkar að þekkingu og framförum. Ekki baun.

En eins og þruma úr heiðskíru lofti byrjar ein kellingin að öskra og hlaupa um stofuna og á sama tíma fara allir að hlæja. Svo virðist sem fluga hafi sloppið inn í tímann. “Þær stinga sko á haustin”, heyrist í einum gaurnum og nokkrir hlaupa strax út úr stofunni. Flugan fer hratt á milli borða og tvær stelpur taka upp á því að fela sig undir borðunum sínum. Þrír hraustir piltar reyna hvað þeir geta að ná flugunni vopnaðir kaffibolla og servíettu.

Tíminn er ónýtur. Einbeiting allra er helguð flugu. Enginn er meðvitaður um að í pontu masar enn sérvitur prófessor um kenningar bókmenntafræðinga og hvernig áherslur í fræðum breyttust er fram liðu stundir.

...

Djöfull erum við heimsk öll.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Pumping petrol gas

Það bregst aldrei; í hvert sinn sem ég dæli bensíni á vagn minn á ÓB við Fjarðarkaup flæðir músík Cat Stevens yfir allt og alla. Hann er á rípíti þarna alla daga. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti herra Islam, eins og hann heitir í dag, en er samt orðinn frekar leiður á þessu. Ekki kannski eins leiður og leiða Lísa en samt leiður.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Klámkynslóðin skandaliserar

“Ég var ung og óreynd á þessum tíma og sé mikið eftir því að hafa látið taka þessar myndir af mér”, sagði skömmustuleg Paris Hilton eftir að myndir af henni alklæddri láku á internetið. Paris bar fyrir sig að henni hafi verið kalt og að hún hafi að auki verið ölvuð þegar myndirnar voru teknar.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Kvalir

Í fyrstu var ég alls ekki hlynntur því að Íslendingar veiddu örfáa hvali sem höfðu víst gerst sekir um að borða alla fiskana í sjónum frá okkur. En þegar ég sá að þessar hvalveiðar voru bara liður í að fá söngflokkinn Nælon til að leggja upp laupana lagði ég öll spilin á borðið og tók gleði mína á ný.