fimmtudagur, janúar 20, 2005

Starf knattspyrnuþjálfarans er hið erfiðasta

Tvisvar í viku þjálfa ég 8. flokk drengja í fótbolta. Þeir drengir eru svona 5 ára gamlir. Oft ansi skrautlegar æfingar. Þarna eiga sér stað atvik sem eru bæði helfyndin og bara fáranleg. Nú nýlega var nýr kappi að bætast við í hópinn og hefur verið að slá rækilega í gegn. Strax er það orðið að föstum lið að er hann mætir á svæðið heilsar hann og spyr mig: “Frá hvaða landi ert þú?” Svarið hef ég ávallt haft á reiðum höndum en samt dynur spurningin aftur á mér á næstu æfingu. Einnig á hann til að kveinka sér óhóflega þegar kemur að sjálfri knattspyrnunni. Tvívegis hefur hann talið að hann væri fótbrotinn en sem betur fer kom í ljós við nánari eftirgrennslan að svo var ekki.

Botninn tók þó úr í dag. Sjálfur var ég reyndar lítið með kauða á æfingunni þar sem við skiptum öllum hópnum í tvennt og tekur Hemmi, hinn þjálfarinn, ávallt helming pilta að sér. Engu að síður lentum við á spjalli eftir æfingu sem endaði á því að hann kvaddi skyndilega og vildi eindregið kveðja okkur Hermann báða með kossi. Að kossunum loknum sneri hann á hæl og spurði mig: “Æjji... hvað heitirðu aftur?”. Ég svaraði því og segir þessi nýi leikmaður minn næst: “Heyrðu Krissi, ég ætla einhvern tíma að gista hjá þér. Ekki núna en einhvern tímann seinna”.

Af þessu öllu má draga þá lexíu að á margt reynir í starfi knattspyrnuþjálfarans. Starfið krefst þolinmæði, snöggra úrræða og ofar öllu samskiptahæfileika. Og þó svona aðstæður kunni að hljóma framandi fyrir þá sem ekki þekkja til er þetta daglegt amstur kollega minna í stéttinni. Manna eins og Mourinho, Wenger og Gauja Þórðar. Ég neita allavega að trúa því að mínir leikmenn séu eitthvað sérstaklega barnalegir...

Njáluskidsófenía

Ég er andlega heilsutæpur þessa dagana. Í ójafnvægi á löngum köflum. Ástæðuna rek ég til óhóflegs lesturs á fornsögum. Hef í tengslum við skólagöngu mína sokkið á bólakaf í rit eins og Króka-Refs sögu og Njáls sögu. Finn hvernig mín persóna og sögupersónurnar eru smám saman að renna í eitt. Langar oft að hrópa eins hátt og ég mögulega get fleygar setningar eins og: ”Eigi þarft þú að líta á, af er fóturinn” og “tröll hafi vini þína alla!”. Þori því samt ekki. Ég hata t.d. eindregið og innilega helstu óvildarpúkana í sögunum og mig langar helst til að reka atgeir gegnum þá miðja, kveða um þá níðvísu um leið og ríða svo á Hlíðarenda til vistar og éta þar súrbít með Gunnari og Kolskeggi. Þar myndum við hlæja þrír saman um leið og við brýndum vopn okkar og allt í einu myndi Gunnar klappa mér föðurlega á öxl og segja: “Munt þú vera hinn vaskasti, heilráður og vel vígur og skalt því bera nafnið Víga-Kristmundur”. Myndi ég brosa til hans og vera hinn hreyknasti með viðurnefnið.

Er samt að spá í að rita eina loka Íslendingasögu. Héti hún Íslendinga saga hin síðasta og væri eins konar uppgjör. Smá “greitest hits” jafnvel. Myndi ég tefla fram Gunnari, Kára og Njálssonum, Gretti sterka, Króka-Ref (bara upp á fúttið), Gísla Súrssyni, Agli Skalla og fleiri hetjum og þeim að baki stæðu Snorri goði og Njáll. Saman mynduðu þeir fóstbræðralag og sameinuðust gegn helstu óvættum Íslands, blóðþyrstum mávum með litla, hvassa gogga er reyndu að útrýma landsmönnum. Sé fyrir mér sagnabrot:

Grettir mælti: “Sjá, þeir ögra oss með saurlosun, bleyður þær og ómenni. Blóðga skulum kvekind þau”.
Gunnar svaraði að bragði: “Lát þá eigi reiðast en hunsaðu mávinn heldur. Skammlyndi og reiði er það sem hann sækir. Skulum vér aldreigi hopa og sjálfir sömu klækjum beita”.

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Sagan af ölreifa, sænska morðingjanum

Þegar ég var sextán vetra iðkaði ég þá list af kappi að elta leður íklæddur hnésokkum. Þetta gerði ég ásamt félögum mínum í Fimleikafélagi Hafnarfjarðar. Eitt sinn atvikaðist það að við boltadrengir lögðum í æfingaferð til Portúgals þar sem aðstæður voru allar til fyrirmyndar. Ég man að ég var á yngsta ári í flokknum og með óreyndari mönnum. Æfingarnar gengu ágætlega og ákváðu menn því að sletta eilítið úr klaufunum síðasta kvöldið. Dreyptu margir á áfengi, urðu sótölvaðir og þegar herja átti á skemmtistaðina var hópurinn tvístraður. Einhverjir fóru á dansiball með Luis Figo og aðrir fóru að gera sér dælt við útlenskt kvenfólk. Ég var hins vegar í tómu rugli. Fyrir utan einn staðinn sá ég ellilegan rokkhund sem minnti mig svolítið á Rod Stewart. Tók ég hann tali og kom í ljós að ungur maður hafði reynt við hann inni á staðnum og því var kappinn bálreiður og ætlaði að finna annan og betri stað til þess að þamba bjór á. Við fórum að ræða músík og tjáði hann mér að hann væri bæði saxófónleikari og bassaleikari og hefði spilað með Gary Moore og Thin Lizzy. Sagðist einnig vera sænskur. Ekki skil ég hvernig hann nennti að hanga með mér en við leituðum allavega mikið að pöbb en fundum engan. Þá sagðist hann eiga heima rétt hjá og að hann myndi bara bjóða mér upp á vín heima hjá sér. Grandalaus um framvindu mála þáði ég það boð. Þegar heim var komið var gaurinn orðinn drullufullur. Ekki leið á löngu þar til hann fór að segja mér sögur af 21 árs konu sinni sem var heima í Svíþjóð. Sjálfur var kauði svona 45 ára. Að endingu nennti hann ekki að skafa utan af öllu saman, glennti vegabréfið sitt framan í mig og spurði: “Er þetta nokkuð líkt mér?” Ég svaraði að þetta væri svolítið líkt honum þó þetta væri greinilega ekki hann. Þá tjáði Svíinn mér að þetta væri bróðir hans og hóf að lýsa því þegar konu hans hafði verið nauðgað í Svíþjóð fyrir ári síðan. Hafði hann tekið sig til og drepið þann sem nauðgaði henni, fengið vegabréf brósa og stungið af til Portúgals. Ölæði og um leið einlægni mannsins var það mikil að ég var ekki í nokkrum vafa um að hann væri að segja satt. Eins og hendi væri veifað rann af mér enda ég næstum lamaður af hræðslu. Eftir að hafa spjallað í smástund í viðbót leit ég flóttalega á klukkuna og kvaddi. Leysti hann mig út með gjöfum, einhverjum steinum sem hann fann á ströndinni og strandvarðajakka sem hann hafði stolið á fylleríi.

Í heimsku minni skildi ég strandvarðajakkann eftir á hótelherberginu mínu áður en við fórum heim. Held ég sé búinn að týna steinunum. Eftir stendur því einungis súr atburður sem ég myndi sennilega ekki trúa að væri sannur hefði ég ekki upplifað hann sjálfur.

Listin að blogga

Þessari síðu er ætlað að halda utan um skrif mín fyrir áfanga í skólanum sem heitir Textagerð. Ég þarf að rita sextíu færslur fyrir annarlok og samkvæmt grófum útreikningum mínum þarf ég að rita hugsanir mínar annan hvern dag. Illa hefur gengið framan af. Útheimtir frjósama hugsun.

Einu sinni tók ég þó þátt í bloggi ásamt félögum mínum og átti sjaldan í vandræðum með að finna eitthvað að skrifa um. Enda snerust skrif mín að nær öllu leyti um að lítilsvirða vini mína. Sem var reyndar eins og lautarferð þar sem þeir liggja flestir allvel við höggi. Samt frekar ódýr, léleg og óþroskuð lausn. Nú reynir hins vegar meira á að finna eitthvað merkilegt til að þrasa um.

Blogg er nefnilega yfirleitt mesti sori. Snýst að því er virðist í flestum tilvikum um að lýsa hversdagslegum hlutum eins og hvað fólk fær sér ofan á brauð, hvaða sjónvarpsþátt það glápir á og hvenær það vaknar á morgnanna. Þá er nú betri afþreying að skoða gott klám. Eða lélegt klám ef því er að skipta. Ég vona að ég þurfi aldrei að lýsa svona hversdagslegum hlutum. Vona að ég nái frekar að rita gáfulega um mikilvæg málefni. Koma með snjöll innlegg í umræðuna. Og ef það klikkar kann ég ýmsar heimskulegar sögur af fíflunum vinum mínum. Ég er að segja það, þeir eru algjörir hálfvitar.

sunnudagur, janúar 16, 2005

"Keli er vinur minn"

Í gær var ég að róta í skápum. Í öllu rótinu kom ég auga á myndbandsspólu merkta 25 ára afmæli Jethro Tull. Ekki þarf að eyða orðum í að Jethro Tull er eitt spólmagnaðasta band sem stigið hefur á svið enda ku það vera á vitorði allra viti borinna manna. Og enda horfði ég á spóluna. Ótrúlegt að sjá Ian Anderson á sviði sveiflandi helvítis flautunni og geiflandi sig eins og maður vangefinn. Mikill þáttur. Tóku svo við þættir um rokksöguna sem sýndir voru á RÚV fyrir mörgum árum og eru vart síðri. Ekki er þetta allt í frásögur færandi nema fyrir það að þegar ég er í miðjum rokksöguþætti þar sem Jimi Hendrix og Pete Townsend eru að segja sögur af Woodstock kemur í ljós að einhver hefur tekið yfir bút af rokksöguþættinum og blasir því allt í einu við hluti af Stundinni okkar frá því er Ásta og Keli réðu þar lögum og lofum. Stekk ég upp og er bæði vondur og óvær yfir þessu öllu. Þangað til að ég uppgötva gamlan grikk er við Snúlli bróðir gerðum Jóhanni Skagfjörð er ég var í Flensborg. Gerist það nefnilega þarna að Ásta er að segja frá myndunum sem börnin smáu höfðu sent inn í Stundina þessa vikuna, rétt eins og í öllum þáttum Stundarinnar. Segir hún orðrétt: “Þessa mynd sendi hún Dagný Rún... og þessa mynd sendi hann Jóhann Skagfjörð af honum Kela okkar... falleg mynd”. Á þessu augnabliki grét ég bókstaflega vegna kátínu. Rann upp fyrir mér að við Snúlli höfðum teiknað mynd af ketti með vinstri og sent í Stundina merkta Jóa í þeim tilgangi að koma honum fyrir kattarnef. Myndin var síður falleg og á henni stóð stórum stöfum (skrifuðum með vinstri): “Jóhann Skagfjörð” og “Keli er vinur minn”. Gladdi mig mikið að eiga þetta á spólu. Man að Jói fékk miklar ákúrur er hann mætti í Flensborg á mánudegi og kom á daginn að allmargir höfðu séð myndina hans. Mitt persónulega uppáhald þessa rugls var samt raunveruleikafirring barnsins sem endurspeglaðist í textanum: “Keli er vinur minn”. Ljóst að við Sveinn vorum komnir djúpt inn í karakter afar ráðvillts barns.

Áhugasömum er sannarlega velkomið að koma í heimsókn í Stekkjarhvamminn við tækifæri og berja þetta glettna myndbrot augum þegar þeim sýnist.

föstudagur, janúar 14, 2005

Skaðsemi jólaballa

Á jólum fer ég á svokallað Jólamót. Jólamót í fótbolta. Með kumpánana sem ég þjálfa. Átta og níu ára. Syni FH. Dvaldi langtímum saman á mótinu nú milli jóla og nýárs og þegar slíkt er uppi á teningnum fylgja ávallt súrar sögur. Verst er að maður man þær aldrei allar en hér er þó léttur smjörþefur...

Var með þétt d-lið sem vann mótið. Unnu sinn riðil og léku því í undanúrslitum. Ákveðin spenna setti mark sitt á strákana í þeim leik enda vissu þeir að úrslitaleikur var í húfi og því voru fagnaðarlætin mikil þegar leiknum lauk og ljóst að þeir höfðu unnið. Fagnað var út um allar trissur og þegar ég náði loks að hóa hjörðinni saman í 'hringinn' voru félagarnir á þeim buxunum að taka óleóleóleóle-ruglið á þetta. Ekki vildi betur til en svo að einn kappinn, sem líklega hefur óverdósað á jólaböllum þetta árið, byrjaði að emja 'Adam átti syni sjö' svo glumdi í húsinu. Hefur trúlega verið að leita að 'óleóleóleóle' í orðasafninu en ekki fundið það í sigurvímunni. Tveir aðrir muldruðu þennan sigursöng lágt með þar til meistarinn fattaði hvað hann var að syngja og snarþagnaði. Tók við vandræðaleg þögn þar sem allir litu í gólf nema ég sem hló svo sást í kok. Aldrei var þessi neyðarlegi atburður ræddur eftir þetta.

Verst að svona mót líða alltaf svo hratt að ég gleymi alltaf mesta ruglinu í lærisveinum mínum. Maður þyrfti að fara að safna þessu saman. Ólýsanlegir hlutir sem gerast t.d í 'hringnum'. Fékk einu sinni "ég elska þig Krissi, en ég er samt enginn hommi" frá sjö ára gutta og "veistu Krissi, myndböndin hjá Eminem eru alltaf bönnuð". Er ennþá að vinna úr þessum athugasemdum.

Króka-Refur skaffar kaffið

Ég er hafinn að stúdera íslensk fræði við háskólann á ný eftir misserisbríarí í öðrum skóla. Hélt af stað með pjönkur á priki á mánudaginn og hóf að sækja tíma. Reyndar sjaldan litist eins vel á framhaldið í upphafi annar og nú. Lenti m.a. í kennara sem hlóð bloggsíður lofi og smellti því verkefni á viðstadda að stunda dagbókarskrif. Og það jafnvel í formi bloggs. Geri ég það kvendi ábyrgt fyrir þessu síðuræksni.

Hlotið hef ég skrautlegan sessunaut í þessu námi mínu sem ég hef lengi eldað grátt silfur við. Hann er reyndar ekkert að fara hamförum þessa fyrstu daga enda telja einhverjir kennarar hann vera skiptinema. Hann er bara það góður í íslensku. Kaffiveðmál hafa einkennt sambúð okkar og hófst fyrsta umferð æsilegrar baráttu um bollana í dag. Vill svo til að meðal samnemenda okkar í einu faginu eru tveir frægir nagghundar sem stunda það að grípa fram í fyrir kennaranum og spyrja tilefnislausra spurninga. Hefur annar hlotið viðurnefnið Spaðinn í flimtingum og þykir konungur þessarar íþróttar. Hinn væri frekar krónprins, enda yngri, og er oft nefndur Króka-Refur vegna klækja sinna. Fór svo að ég veðjaði á að Króka-Refur ætti fleiri tilefnislausar athugasemdir í tímanum í dag en veðjaði sessunauturinn á Spaðann af gömlum vana. Fór fram hressilegasta viðureign sem endaði á sigri míns manns, Króka-Refs, og hlaut ég kaffibolla að launum. Endaði rimman 7-6. Saga kaffiveðmálanna er reyndar forn en tel ég þau örva mann til að mæta í tíma og valda því að maður er yfirleitt við fulla heilsu.

Jómfrúarfærslu er hér með lokið en vænti ég merkilegri skrifa í kjölfarið.

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Ein blog

Hmmm...