miðvikudagur, mars 29, 2006

Syndir

“Saturday night, dance, I like
The way you move
Pretty baby
It's party time and not one
Minute we can lose
Be my baby”

Vefútgáfan af Jóa félaga er sennilega ein heitasta síða alnetsins um þessar mundir. Hann lendir í mýmörgum ævintýrum í skóla og vinnu og skafar ekki utan af meiningum sínum. Stundum er jafnvel söguþráður og fléttur í gangi frá einni færslu til annarrar. Nú nýlega birti þessi grallaraspói erfðaskrá sína. Þar segir m.a.:

“Sérstaklega vil ég taka fram að Krissi á að fá Whigfield diskinn minn. Það kann að hljóma ótrúlega en Krissi er mikill aðdáandi hennar og gaf mér diskinn í 14 ára afmælisgjöf.”

Ég man reyndar ekki hvað ég gaf Jóa í 14 ára afmælisgjöf en veit að það var ekki Whigfielddiskurinn. Þessi ummæli kalla þó á að sagan verði sögð, ekki endilega til að svara fyrir mig heldur einfaldlega vegna þess að hún er skemmtileg minning.

Allt saman átti sér stað í Kringlunni fyrir ellefu árum. Voru þar á vappi unglingspiltar tveir er báru nöfnin Krissi og Jói. Við sprönguðum kampakátir um rúllustigana þennan dag enda átti Jói afmæli (varð 13 ára þennan dag). Bróðir hans hafði ákveðið að gefa honum gjöf tónlistar í afmælisgjöf en vildi leyfa Jóa sjálfum að velja diskinn. Við trítluðum því í Skífuna. Ég vildi eindregið aðstoða við leitina og sýndi honum nokkrar plötur sem ég hélt að höfðuðu til hans. Rak fyrst augun í ‘I should coco’ með Supergrass og sýndi afmælisbarninu. “Supergrass? Hvaða grasafræðingar eru það? Ég hef aldrei heyrt um þessa nóboddía áður”, sagði Jói og kvað mig þannig í kútinn. Næst fann ég plötu með Pulp er hét ‘Different class’ og veifaði henni. Jói gretti sig eins og hann hefði bragðað á sápu: “Oj! Ekki ætla ég að dilla mér við svona dópistamúsík”. Ég gafst ekki upp enda nóg af hljómsveitum í diskaflóðinu í Skífunni. Það hlaut að vera eitthvað fyrir Jóa þarna. Ég reyndi einu sinni enn, hóf á loft ‘Parklife’ með hljómsveitinni Blur. Loksins náði ég til Jóa. Hann kinkaði samþykkjandi kolli og sagði svo: “Já. Hef heyrt að þessi sé góð. En ég er búinn að velja mér disk”. Ég spurði yfirspenntur út í valið. “Ætla að taka þennan bara”, sagði Jói og sýndi mér samnefndan disk með síðdiskódrottningunni Whigfield. Mér féllust hendur. Hann hélt áfram: “Þú veist, Whigfield!”. Fólk var farið að stara á okkur. Ég var nær lamaður af skömm og reyndi að þagga niður í honum með augnaráðinu. Það gekk ekkert enda var hann í miðri frásögn: “Þú veist alveg hver hún er, var með lagið, þarna… When I think of you… I feel like flying, like a dream come true”. Á meðan hann stóð í miðri búð og söng hástöfum roðnaði ég allur og svitnaði í lófunum. Ég gekk til hans, klappaði honum fast á öxl og sagðist ætla að bíða fyrir utan. Skömmu seinna gekk alsæll Jói út með nýja diskinn sinn í bláum Skífupoka.

Þennan dag var Whigfield ekki rædd frekar. Enda má ekki stríða þeim sem eiga afmæli. Þeir eru friðhelgir og geta gert það sem þeir vilja. Ég þurfti því að harka af mér og hugsa til hinna 364 daganna sem eru í árinu.

Þess ber að geta, Jóa til málsbóta, að hann er með mjög góðan tónlistarsmekk í dag. Sannast því hið fornkveðna: Það þarf að þekkja vítin til að varast þau.

mánudagur, mars 27, 2006

Sameinumst hjálpum þeim

Nú nýlega söng landslið poppara fúla viðbjóðinn Hjálpum þeim inn á söngplötu og seldist óþrifnaðurinn eins og um heitar lummur væri að ræða. Ekki allir vita þó að í millitíðinni (þ.e. milli þess að upprunalega söngurinn var sunginn og áðurnefndur óskapnaður) var þessu lagi pakkað snyrtilega inn á skólaskemmtun.

Söngkeppni NFF 2000 var fyrir margt merkileg. Hún fór fram í gamla leikhúsi Hermóðs og Háðvarar sem búið er að rífa. Atriðin voru vel á annan tug og kenndi ýmissa grasa. Mikið fjör var jafnt á sviði sem áhorfendapöllum þetta kvöld en hvergi þó meira en baksviðs. Þar var hreinlega svallveisla. Fólk kepptist við að ölva í sig kjark áður en það steig á stokk og var upp til hópa sauðdrukkið. Fréttabréfið var þarna skráð til leiks og naut þeirra forréttinda að vera síðasta atriðið. Okkar lag var Hjálpum þeim. Öllum eitísjökkum móður Danna var tjaldað til, menn voru málaðir og hópdansar æfðir í þaula.

Þegar við mættum á svæðið höfðum við, eins og svo margir keppendur aðrir, tryggt að fljótandi mjöður væri með í för til að liðka söngraddir sem og lund okkar. Þessi brella reyndist næstum okkar banabiti. Þegar vel var liðið á seinni hluta keppninnar og nokkuð skemmtilegt hlé var afstaðið reyndist aðalaktið okkar sofandi á gólfinu. Jói var bara útúr því. Við slógum hann í framan og öskruðum á hann en ekkert gekk. Hann virtist aldeilis ekki í stakk búinn að syngja á skólaskemmtun. Við brugðum á það ráð að reyna að kenna Sigga E (sem var bakrödd hjá Jóa Presley í sigurlagi kvöldsins og er nú bakari og fjölskyldumaður í Baunaveldi) línurnar hans Jóa. Siggi var búinn að taka þátt í sínu atriði og tók sér stöðu úti í horni þar sem hann þuldi línurnar hans Jóa aftur og aftur. Óðum styttist í atriði okkar, við Danni vorum að fara á límingunum og svitnuðum eins og feitir Finnar í sánu. Kallað var á okkur, og bakvið svart tjald stóðum við Danni og Siggi E, skítstressaðir. Siggi kunni ekki dansinn eða neitt. Við biðum bara þess að gjaldkeri nemendafélagsins benti okkur á að hlaupa inn á svið. En þá átti sér stað kraftaverk. Jói Skag reis frá dauðum, hrinti Sigga burt og sagði: “Af hverju létuð þig mig ekki vita að við værum næstir?”. Við Danni brostum allan hringinn.

Fréttabréfið var kallað fram og settum við okkur í stellingar. Dansatriðið í upphafi gekk klakklaust fyrir sig og í kjölfarið ómaði englasöngur. Við skiptum með okkur línum en góluðum viðlagið í sameiningu. Sviðsframkoma Jóa var sérstaklega lofsverð, hann stökk m.a. út í sal og dansaði eggjandi dans fyrir framan fremsta bekkinn. Ekki var að sjá að áfengi ætti nokkurn hlut í sjóinu. Undir lok lagsins, þegar viðlagið er sungið aftur og aftur og aftur, stigu allir keppendur kvöldsins fram á svið og sungu með okkur. Við lokuðum frábæru kvöldi með stæl. Fengum hrós fyrir. Engin verðlaun þó.

Og engum hjálpuðum við í raun. Enda kannski við sem vorum hjálpar þurfi.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Riddle me this, riddle me that

Varð eitt sinn viðskila við vini mína á laugardagskvöldi í bænum. Aleinn og týndur. Leitaði mikið en fann ekkert nema gamla bekkjarsystur sem ég hafði ekki séð lengi. Fór með henni á Kaffibarinn. Þar sáum við Krumma í Mínus og söngvarann í Vínyl og kom á daginn að þessi bekkjarsystir þekkti Krumma í Mínus. Hún fór því að spjalla við hann heillengi um daginn og veginn og ég settist að lokum hjá þeim. Krummi og bekkjarsystirin áttu ýmislegt vantalað og við Vínylgaurinn sátum bara luntalegir og störðum út í loftið. Lengi lengi. Loks datt mér í hug að reyna að koma af stað samræðum. Braut heilann um góða opnunarlínu og sagði svo: “Jæja... hvað segirðu, kanntu nokkuð einhverjar gátur?”. Þetta hélt ég að væri kúl lína. Söngvarinn í Vínyl brosti í kampinn, tók smók og setti upp töffarasvip (svona eins og honum væri illt í maganum). Ég beið lengi eftir svari og að lokum færði hann sig nær mér, klappaði mér á bakið og hóf að tala hratt og með djúpri röddu: “Þú ert staddur í myrkustu frumskógum Afríku og þarft að leita á náðir ættbálks sem getur gefið þér að borða. Valið stendur milli tveggja ættbálka og vandamálið er þetta: Annar er skipaður illræmdum mannætum sem segja aldrei sannleikann! Farir þú til þessa ættbálks ertu dauðans matur! Dedd es diskó! Hinn ættbálkurinn er góður. Þar segja allir alltaf sannleikann. Þú stendur frammi fyrir tveimur blámönnum úr sitthvorum ættbálknum og hefur einungis eina spurningu til að komast að því hvor tilheyrir góða ættbálknum og þar með; hvorum þú átt að fara með. Hvers spyrðu?”

Ég veit ekki af hverju en mér var stórlega brugðið. Gaurinn hafði farið á gríðarlegt frásagnarflug og ég stóð eftir algjörlega áttavilltur. Ég sagði hikandi orð eins og “jájá”, “ég” og “hérna” og aulaði út úr mér að lokum einu “er að spá í að bara fá mér einn bjór.” Svo fór ég bara. Vínylgaurinn hef ég aldrei séð eftir þetta. Ekki nema í Popppunkti bara. Hann hræðir mig.

Spádómur Krizmodamusar

Einhvern tímann, eftir nokkur ár – jafnvel örfá, verður haldið partí. Þar verður samankomið margt fólk sem mun ræða ýmis mál í glaðværu og góðlátlegu skensi. Í miðju partíi mun einhver, maður eða kona, taka til máls og segja: “Hei, ég var að fatta eitt! Munið þið eftir Gillzenegger?”. Þá mun allt um koll keyra vegna hlátraskalla og kátínu partígesta.

miðvikudagur, mars 22, 2006

I read the news today oh boy...

Gluggaði lítið eitt í DV á bókasafninu í dag. Á forsíðu þar var greint frá árshátíð landlæknisembættis og að þar hafi verið stigin fugladans. Á forsíðunni var einnig frétt þess efnis að fermingardrengur hafi ælt í kirkju og á prest. Drengræfillinn var víst veikur. Þegar ég sá þetta var mér hugsað til hvað væri eiginlega á forsíðu Moggans þennan sama dag. Þar var fín frétt af brotthvarfi varnarliðsins. Einnig átti Bush í hótunum við forseta Hvíta-Rússlands og krafðist þess að sá léti endurtaka kosningar þar í landi. Þá var frétt um einræðisherra Túrkmenistan sem heldur því fram að ef þegnar landsins lesi nýútkomna bók hans þrisvar sinnum komist þeir pottþétt til himna.

Þegar ég bar forsíður blaðanna saman sást að ólíkur bragur er á vinnubrögðum. Ég velti þessu töluvert fyrir mér og með hverri sekúndu stigmagnaðist reiði mín í garð DV. Hvað voru þessar fréttir að gera á forsíðu? Hvað varða þær mig? Hvers konar fréttamennska er þetta? Og síðast en ekki síst: Hvernig á ég að vita hvað Gilzenegger og Fazmoklíkan og Silvía Nótt voru að gera um helgina ef blaðið eyðir öllu plássi í frásagnir af ælandi fermingardrengjum?

mánudagur, mars 20, 2006

HM II

“Deutschland, Deutschland, uber alles ...”

Fyrir tuttugu árum síðan, kom til stimpinga í blokkaríbúð miðaldra hjóna í Dusseldorf í Þýskalandi. Önugur eiginmaður tók upp á því að henda konu sinni út um glugga íbúðarinnar, sem var á annarri hæð. Konan stórslasaðist. Þegar lögreglan yfirheyrði karlinn og krafðist skýringa á hegðun hans stóð ekki á svörum. Helvítis kerlingin heimtaði að fá að horfa á Dallas á sama tíma og undanúrslitaleikur V-Þjóðverja og Frakka fór fram á HM í fótbolta.

Ég man ekki eftir þessum leik. Var bara fimm. Man bara EM ’88 þegar Holland vann.

En ég var á Ítalíu þegar ég var 9 ára. Heillaðist af strákunum frá Kólombíu. Mitt uppáhald var Valderrama. Markvörðurinn, Rene Higuita, lék ósjaldan á grandalausa sentera andstæðinganna eins og þeir væru dúkkur. Eina skiptið sem hann missti boltann var þegar gamli Kamerúninn Milla stal honum og sendi Kólombíu heim. Ég elskaði Kamerún. Einkum búningana þeirra. Mest elskaði ég V-Þjóðverjana. Brehme, Matthaus og Klinsarann. Það var frábær dagur þegar þeir hirtu titilinn. Hefði samt frekar vilja sjá Schillaci og Ítalana í úrslitum en Argentínu.

Og ég var í Bandaríkjunum þegar ég var 13 ára. Grét í alvörunni þegar Kólombía datt út í riðlinum. Grét líka seinna þegar Escobar, fyrirliði liðsins var skotinn heima í Kólombíu vegna sjálfsmarksins. Mitt lið var Nígería eftir þetta. Okocha, Yekini, Oliseth. Þeir náðu ekki eins langt og Kamerún áður. Ég fílaði Stoichkov. Ekki Svíana. Hélt með Brasilíu í úrslitum. Greyið Baggio. Greyið Baresi.

Í Frakklandi var ég þegar ég var 17 ára. Bekkmann eyðilagði mótið fyrir Englendingum. Mót sem raunar var í eigu Zidane. Brassarnir reyndar góðir. Bergkamp frábær. Owen. Hagi. Króatía í þriðja sæti. Tvíhöfði úrskurðaði Ronaldo látinn í úrslitaleiknum.

Ég var í Kóreu og Japan 21 árs. Senegalarnir stálu senunni í leikjunum en stálu af lýðnum á götumörkuðum milli leikja. Sigurstranglegu þjóðirnar ollu vonbrigðum. Nema Brassarnir. Ronaldinho var mættur í fyrsta sinn. Sama hversu hann auðmýkti gúbbana í vörn andstæðinganna og svívirti og hrellti var það samt hann sem leit út eins og auli þegar kameran sýndi hann í nærmynd. Hann var þó í skugganum á Ronaldo. Öfugt farið næsta sumar.

Mig langar til Þýskalands í sumarfrí. Fara í alvörunni. Ekki bara í gegnum sjónvarpið mitt. Ef ég missi af því núna fer ég kannski aldrei. Ef ég missi af því núna fá kannski saklausar konur og menn að fjúka út um glugga.

Er einhver með?

HM I

Og milljónir manna stóðu skyndilega upp og byrjuðu að fagna, hlæja, fallast í faðma og fella gleðitár.

Fólkið fagnaði ekki því að prinsinn hafði eignast lítinn erfingja. Það fagnaði ekki því að styrjöld væri loksins að enda komin. Það fagnaði ekki því að lækning við krabbameini væri fundin. Það fagnaði ekki áfanga í frelsisbaráttu kúgaðrar þjóðar. Frelsari mannkyns var ekki mættur á svæðið á ný.

Nei. Það var eitthvað miklu ánægjulegra. Kringlótt tuðra hafði lufsast yfir hvíta línu. Mark hafði verið skorað.

laugardagur, mars 18, 2006

Partíbær

“Vertu ávallt velkominn hér,
vinur Hafnarfjarðar.
Taktu þétt í hendin’ á mér,
vinur Hafnarfjarðar.”


Í gær fór ég á Hansen. Um helgi. Síðast þegar ég gerði það fengum við meðreiðarsveinar mínir morðhótun frá Ungfrú Íslandi. Ungfrú Íslandi 1956. Áttum það engan veginn skilið. Í gær var þó stuð. Hansen er að breytast úr skítugu ormabæli syndarinnar í búllu. Fíla það.

Í gær gat ég keypt Guinness á þrjúhundraðkall án þess að þurfa að fara inn í Reykjavík (í Reykjavík er reyndar ekki hægt að kaupa Guinness á þrjúhundruð kall).

Í gær óð miðaldra kona inn á mig þegar ég var á salerninu. Hún stóð álengdar og glápti á mig. Ég spurði hana hvort hún væri ekki á röngum stað. Hún ranghvolfdi augunum og sagði mér að slaka bara á, hún væri sviðsstjóri Þjóðleikhússins. Ég túlkaði orð hennar á þá vegu að sviðsstjórar sæu mikið af beru fólki og kipptu sér því aldeilis ekki upp við slíka sýn. Ég sagði: “jaaááá”. Eins og ég skildi hvað hún væri að fara.

Í gær héldum við Steinn Ármanni um herðar hvors annars og sungum Piano man af lífsins sálar kröftum. Gunni Helga horfði á og trallaði með.

Gærkvöldið var sönnun þess að hægt er að mynda roknastemmningu í Firðinum á annars venjulegu föstudagskvöldi. Það var ágætt að öllu leyti ef undanskilið er leiðindaatvikið með sviðsstjóra Þjóðleikhússins.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Lið

Hlustið bara á þetta.

Í stofunni liggur gamalt myndalbúm sem ég gluggaði í í dag. Myndir af mér fimm ára í Manchester United náttfötum. Á næstu síðu er ég á svipuðum aldri í Arsenalgalla. Svo átta ára í Tottenhambúningi. Um leið er ég minnugur þess að að herbergi mitt var veggfóðrað með Glasgow Rangers plakötum þegar ég var 12 ára og á sama tíma hélt ég með Blackburn Rovers í ensku. Þegar Newcastle komst upp tók ég ástfóstri við enn einu liðinu og hef reyndar haldið með þeim síðan. Hvert er samt málið með öll þessi lið? Er ég bara aum liðshóra?

Þetta minnir skuggalega mikið á vatnsberann fræga sem starfaði fyrir Fimleikafélagið lengi vel. Gaurinn sem alltaf var mættur með ískalt og svalandi vatn á annars flokks og meistaraflokksæfingar. Hann var líka boltasækir, hljóp eins og antílópa á eftir leðrinu ef menn skutu framhjá. Var kallaður Hr. Liverpool því hann fór aldrei úr Liverpool búningnum sínum. Og var sem húsgagn í Krikanum, svo harður FH-ingur var hann. Þangað til að hann yfirgaf Fimleikafélagið og gerðist vatnsberi hjá meistaraflokki KR af því þeir unnu svo marga titla um þær mundir. Skömmu seinna hætti hann að halda með Liverpool, gaf Stjána Finnboga allt Liverpool dótið sitt og fór að halda með Manchester. Þeir unnu jú titla. Fullorðinn maðurinn valdi bara ný lið eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það mætti jafnvel kalla þennan mann moldarhaus.

Í lífinu er margt hverfult. Hægt er að tilheyra mörgum fjölskyldum á lífsleiðinni. Margir skipta ört um kærustur eða kærasta, bíla, húsnæði, skoðanir, dekk, jafnvel störf. Þetta skil ég allt. Þetta má. En undir engum mögulegum kringumstæðum má skipta fótboltaliðinu sem þú styður út fyrir annað. Sannur stuðningur við liðið þitt er eilíft hjónaband. Það er hægt að skilja við konuna sína eða stjórnmálaflokkinn sinn og sleppa frá því með reisn. En ef þú skiptir skyndilega um fótboltalið til að styðja hefurðu engan trúverðugleika. Ekki einn.

Ég var auðvitað bara grandalaust smábarn þegar ég var klæddur í alla þessa búninga í æsku. Geri því greinarmun á mér og Hr. Liverpool. En ef ég eignast einhvern tímann barn mun ég læra af þessu. Það mun eiga FH-búning, Newcastle-búning og Barcelona-búning. Punktur. Ef krakkinn dirfist nokkurn tíma til að skipta um lið mun ég selja hann sígaunum. Vondum, harðbrjósta sígaunum. Ekki þessum skemmtilegu og fjörugu með mandólínin og fiðlurnar.

Min ven Thomas

Þegar ég var lítill þótti mikið sport að fleyta sem flestar kellingar. Ég átti vin sem hét Tommi og honum þótti líka gaman að fleyta kellingar.

Seinna fór allt að snúast um að fleka sem flestar kellingar. Þar skildu leiðir hjá okkur félögunum. Hann fékk þó góða vinnu við að flétta kellingar.

sunnudagur, mars 12, 2006

Uppgjör við Íslandssöguna

Kennarinn okkar í 4. bekk sagði okkur einu sinni að ef krakkarnir í unglingadeildinni reyktu á skólalóðinni mætti alveg henda snjóboltum í þá. Hljómaði vel þegar hann sagði það. Ekki eins vel eftir löngu frímínútur. Unglingarnir búnir að berja Hjalta og við hinir læstum okkur inni á klósetti svo þeir tækju ekki í lurginn á okkur. Kannski pínulítið okkur að kenna. Fórum yfir strikið er við grýttum mjólkuráskriftinni okkar í þá líka. Það kom okkur aldeilis á óvart að þegar við snerum til baka eftir þessa herferð okkar gegn reykingum var umsjónarkennarinn okkar ekki stoltur á svip.

Eftir gott spjall við yfirkennarann fórum við í Íslandssögu. Þar biðum við spenntir eftir að fá að læra um stærsta bardaga Íslandssögunnar, sjálfan Örlygsstaðabardaga. Loksins komið að kafla sem snerist ekki um langskip og aska heldur um blóð og atgeira. Það kom okkur hins vegar á óvart að úrræði helstu garpanna á 13. öld voru þau sömu og okkar strákanna. Að fela sig inni á klósetti. Og bardaginn í hnotskurn bara drullulummulegur.

Svolítið eins og öll saga þjóðarinnar. Afar lítið rokk í gangi. Enginn dó þegar við tókum kristni. Sjálfstæðisbaráttan var ekki blóði drifin, nema ef vera skyldi að einhver hafi skorið sig á pappír. Þorskastríðið var bara brandari. Það dóu ekki einu sinni smáfiskar í því. Við létum Dani, Norðmenn og Alsírbúa vaða yfir okkur. Ef dönskum stríðsfanga datt í hug að gerast konungur yfir Íslandi gerði hann það bara. Það var bara pís of keik. Við gortum í gríð og erg af tungumálinu okkar en eigum í raun merkilegheit þess að þakka pattaralegum Dana sem hét Rasmus. (Og sumir hata Dani. Það geri ég ekki. Þeir eru bara aular. Við létum hins vegar þessa aula leggja land okkar undir sig. Gátum ekki einu sinni látið sómasamlegt lið okra á okkur. Okkur er stjórnað af útslitnum hálfvitum. Algjörar skítaaðstæður til að búa við og allt helvítis ferska loft heimsins mun ekki breyta neinu, Tommi.)

Stundum vildi ég að ég væri Rómverji eða Mesópótami. Gæti montað mig af glæsilegri sögu og merkum forfeðrum. Væri laus við skömmustulegan feluleik inni á klósetti.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Hvammarnir

“Hvammahverfið, hér er ég!
Hér er gleði, hér er spé!
Hvammahverfið! Hér er ég!
Vó-ó-ó-ó.“
(Sungið við Ósílagið)

Suðurbæjarlaugin var ein helsta bækistöð krakkanna í Hvömmunum og hjarta hennar vitaskuld rauða rennibrautin. Oft beið ég ískaldur í langri röð eftir tækifæri til að troða sundskýlunni sem ákafast upp í afturendann á mér og brunaði svo niður gólandi eins og Móglí í skóginum (eða hét hann Múslí? Hver var Múslí?). Einn vinur hans Svenna var snillingur í þessu. Átti öll hraðamet í brautinni. Hann var svo hæfileikaríkur að þegar hann var sérstaklega góður með sig fór hann úr sundskýlunni á leiðinni niður, sveiflaði henni yfir höfði sér og rak á sama augnabliki upp hressilegt skaðræðisöskur sem var eiginlega hans vörumerki. Þegar hann lenti svo ofan í sjálfri lauginni var hann búinn að klæða sig aftur í skýluna. Það var ekki laust við að hinir krakkarnir í lauginni bæru óttablandna virðingu fyrir þessu atriði. Og gaurinn var sem guð. Kannski ekki beint leiðtoginn þegar vinirnir voru í fótbolta eða úti að leika sér en eftir að hann steig fæti úr strákaklefanum og í lögsögu laugarinnar átti hann pleisið. Hann var syndur sem silungur, undi sér í kafi eins og brúnþörungur og þegar hann stakk sér til sunds var hann eins og af höfrungakyni.

Þegar Stjáni Páls, bekkjarbróðir Svenna bróður og nágranni, bauð mér óvænt með öllum eldri strákunum í sund einn daginn vissi ég að eitthvað byggi undir. Annaðhvort ætlaði hann að gera mig að athlægi eða nota mig í bíræfnum tilgangi. Ég skellti mér samt með þeim með bros á vör. Var líka pínu að vonast til þess að fá loksins að sjá hið margfræga rennibrautarbragð vinar þeirra, hafmannsins mikla.

Krökkt var af krökkum þennan dag í lauginni enda glotti sólin stríðnislega framan í okkur. Þegar í Sveppinn var komið fór Stjáni Páls, nágranni minn að segja mér frá öllum brellum gullna sundfélaga þeirra og manaði mig til að biðja hann um sýnishorn. Ég safnaði kjarki og bað svo sjálfan garpinn um að sýna mér sundskýlubragðið. Hann var efins. Svenni bróðir pressaði þó á hann, sagði að ég hefði aldrei séð þetta og yrði að fá sönnun. Þá fyrst hugsaði sundguðinn málið. Hló svo á yfirlætisfullan hátt að mér, skvetti vatni framan í mig og sagði: “Viltu sönnun? Ég skal gefa þér sönnun!”. Svo skokkaði hann að rennibrautinni, ruddist framfyrir nokkra smástráka og setti sig í stellingar. Fyrst tróð hann skýlunni vel upp í ristil, framkvæmdi mikilfenglega mjaðmahnykki og fór síðan sem eldibrandur niður rennibrautina. Hann var skotfljótur úr skýlunni og byrjaði að sveifla henni yfir höfði sér hlæjandi. Við strákarnir horfðum agndofa á. Og formálalaust sást Kristján Páls dúkka upp við hlið rennibrautarinnar, klifra lipurlega upp hana og í einni svipan hrifsa skýluna af sýningarstjörnunni sem óðum nálgaðist neðsta hjall rennibrautarinnar. Sigurbros sundgarpsins breyttist í hræðslusvip og örvæntingarfullir píkuskrækir keyrðu upp úr honum er hann lenti skýlulaus í miðri laug með hendur fyrir leyndarlimum sínum. Stjáni Páls hljóp alla leið út á mínígolfvöll með skýluna og sundgarpurinn eigraði í gegnum krakkaskarann sem hló og benti svo hávaðinn var eins og í fuglabjargi. Alstrípaður og skömmustulegur þrammaði hann framhjá okkur í Sveppnum og inn í strákaklefa.

Hann var aðhlátursefni á eigin heimavelli þennan dag. Sumir vildu meina að hrokinn hefði orðið honum að falli. Hvað sem því líður er ljóst að frá þessari stundu var alltaf frekar stirt milli sundkappans og Kristjáns Pálssonar.

mánudagur, mars 06, 2006

Lost and found

Árans klandur. Ég skrifaði geðveikt langa færslu en svo datt hún út. Þetta átti að vera besta færsla internetsins og hefði fært ykkur sannleikann um lífið en guð má vita hvar hún er núna. Kannski skilar hún sér í óskilamuni internetsins. Hver er slóðin þar aftur?

...

Ég skrifaði reyndar enga færslu en er nokkuð viss um að þetta sé nýi bloggleikurinn. Verður jafnvel stærri en klukkið. Það eru bara allir að þessu.

Ég skora á Össur Skarphéðins, Unni Birnu og strákana á mbl.is að halda þessu gangandi.

Dancing fool

“I hear that beat; I jump outa my seat,
But I can't compete, 'cause I'm a
Dancin' fool, I'm a Dancin' fool”


Hann var fastagestur í DV fyrir tæpu ári þegar stofnfjáreigendur Sparisjóðs Hafnarfjarðar komust í fréttirnar. Hann hefur leikið í sjónvarpsauglýsingum með frábærum árangri og forðum daga var hann markvörður í handbolta. Allavega tvívegis fékk hann beint rautt spjald. Í annað skiptið spurði dómarinn hann númer hvað hann væri en þegar kappinn svaraði með uppréttri löngutöng var hann sendur í sturtu. Í hitt skiptið var hann að leika gegn liði Ögra sem einungis var skipað heyrnarlausum leikmönnum. Í miðjum leik komst einn Ögramanna í hraðaupphlaup, var einn gegn umræddum markmanni sem gerði enga tilraun til að verja heldur gaf hinum heyrnarlausa merki um að tíminn hefði verið stoppaður. Sá heyrnarlausi snarhemlaði og rétti markmanninum boltann. Augnabliki síðar fékk þessi bíræfni maður að fjúka úr búrinu sínu og af velli vegna óíþróttamannslegrar framkomu.

Markmaðurinn er auðvitað lífskúnstnerinn og gleðipinninn Fiddi. Veit ekki alveg hversu sannar þessar markmannssögur eru en mér finnst þær ágætar engu að síður. Fiddi er mikill sögumaður og um daginn er ég horfði á unga FH-inga kljást í bikarúrslitum í handbolta sagði hann mér frá sögulegum úrslitaleik bikarsins í 2. flokki karla fyrir svona 25 árum.

Þá voru FH-ingar með mikið yfirburðalið og mættu KR-ingum í úrslitum. Sjálfsagt mikið af þjóðþekktum kempum sem spiluðu leikinn þó ég hafi gleymt að spyrja Fidda út í það. Í bikarleikjum ræður stemmningin oft miklu og KR-ingarnir börðust eins og ljón og höfðu yfirhöndina lengst af þrátt fyrir að vera minni spámenn í þá daga. Þegar 12 sekúndur voru eftir var þeim að takast hið lygilega, að sigra firnasterkt lið FH. Þeir voru marki yfir, með boltann og virtust ekki eiga í neinum vandræðum með að halda honum út leiktímann. Markmaður þeirra var að fara yfir um af kæti og stökk út á punktalínu þar sem hann steig villtan stríðsdans. Stjáni Ara komst þá inn í sendingu KR-inga og skoraði bæði yfir endilangan völlinn og dansandi markmanninn sem vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið enda djúpt sokkinn í danssporin. FH vann í framlengingu. Sagan segir markmaðurinn hafi aldrei dansað eftir þetta. Ekki einu sinni í brúðkaupinu sínu.

Einhvern daginn ætla ég að safna kjarki og spyrja Fidda hvort ég megi skrifa ævisögu hans. Koma öllum sögum hans á blað. Eftir mikil heilabrot er ég þegar búinn að upphugsa titil á bókina. Hún gæti heitið: ‘Fiddi’.

laugardagur, mars 04, 2006

Þjóðarbókhlaðan

Sá frægu tvíburana úr MS, Ármann og Sverri Jakobssyni hanga saman í Hlöðunni í dag. Þeir eru snillingar. Hef lengi fílað þá. Álkulegir settust þær við borðið við hliðina á mér á kaffistofunni og þömbuðu kaffi. Þó þeir séu óneitanlega alltaf frekar kúl á því, lúkka þeir einhverra hluta vegna aðeins betur í sjónvarpinu en í raunheimum. Ég var sem í losti, var starsýnt á þessa mætu menn og snarhætti að hlusta á speki skólafélaga minna, þeirra Refs og Gnaþons. Að lokum gat ég ekki setið á mér lengur. Ég stóð upp, rétti bræðrunum stílabókina mína og bað um eiginhandaráritun. Svona menn hittir maður einfaldlega ekki á hverjum degi. Þetta virtist koma þeim pínulítið í opna skjöldu en eins og fagmennirnir sem þeir eru krotuðu þeir nöfn sín í stílabókina. Ég þakkaði pent fyrir mig og sagði að lokum: “Bara langar að segja ykkur að þið eruð með þeim svalari. Hlusta mikið á músíkina ykkar.”

Enn á ný var eins og ég kæmi þeim á óvart. Ármann svaraði brosandi: “Uuu... við erum ekki tónlistarmenn. Við erum háskólakennarar.” Sverrir tók undir orð bróður síns: “Það er rétt, Ármann. Og eitt sinn vorum við landsþekktir fyrir þátttöku okkar í spurningakeppni”.

Nú var það ég sem var hvumsa. Hugsandi settist ég aftur við borðið mitt og fór í huganum yfir stöðuna. Gat það verið ég sem var úti á þekju? Eða voru nærsýnu tvibbarnir eitthvað að grilla í mér? Ég þurfti að fá botn í málið. Ég gekk aftur að þeim og spurði þá hikandi: “Hverjir sungu aftur lagið þarna... um 500 miles og það?”. Ármann leit spyrjandi á bróður sinn og sagði: “Voru það ekki Proclaimers? Frá Skotlandi, ekki satt?”. Sverrir kinkaði kolli og sagði: “Jújú, Proclaimers hétu þeir. Lagið kom út á þeirra fyrstu plötu, Sunshine on Leith, ef ég man rétt. Þeir eru tvíburar ekki ólíkt okkur, Ármann”. “Jáááá, Proclaimers...”, umlaði ég og settist á ný hjá skólafélögunum.

Á vissan hátt er þetta galdurinn við háskólanám. Á hverjum degi tekst maður á við ögrandi verkefni, færir vitsmunaleg mörk sín sífellt lengra og lærir nýja og nýja hluti.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Vindmyllur

Þegar Don Kíkóti las yfir sig af riddarasögum í Mancha forðum daga átti hann erfitt með að festa hendur á raunveruleikanum. Gaurinn las sína andlegu heilsu í burtu og snappaði. Meiri aulinn. Þegar ég læri fyrir próf hræðist ég stundum svipuð örlög.

Þessi ótti er ekki síst til kominn vegna sögu sem ég heyrði eitt sinn af MR-ingi sem tók Don Kíkótann á þetta í stærðfræðiprófi eftir margar andvökunætur með bókunum sínum. Hann fór allt í einu að ráfa leitandi um kennslustofuna og þegar stærðfræðikennarinn spurði hvað væri í gangi sagðist hann vera að reyna að finna x-ið eins og fyrirmæli kváðu um í prófinu.

Ég vil meina að Þjóðarbókhlaðan sé annars helsta bækistöð íslenskra Don Kíkóta. Þar húka gjarnan gamlir kallar sem eiga það sammerkt að vit þeirra hafa lotið í lægra haldi fyrir bókalestri. Þeir eru flestir alveg gráhærðir, tala við sig sjálfa og tauta sífellt um handrit og gamla biskupa með geðveikisglampa í augum.

Sjálfur er ég vafalaust í áhættuhópi þegar próf berja að dyrum. Er nefnilega oft latur alla önnina en mökkast upp og læri óhóflega þegar prófin nálgast. Sem er auðvitað stórhættulegt. Í fyrra las ég Íslendingasögur til prófs og gekk í gegnum erfitt tímabil í kjölfarið. Ég lét kalla mig Kimba, var ofbeldisfullur og mjög áhugasamur um að brenna fólk inni. Þegar ég fór í próf í fornu máli fyrir jól talaði ég eins og árið væri 1200 og þegar ég var einn heima setti ég stundum plastvíkingahatt á mig. Um daginn var ég svo úti á þekju vegna prófs í fornum bókmenntum. Minnti skyndilega að ég væri hálfguð og var næstum búinn að færa sólarguðinum Sjamas brennifórn.

En lengst var ég þó leiddur þegar ég var við nám í hinum mikla kastala mennta og vísdóms, Flensborg. Hið goðsagnakennda tríó, ég, Danni og Jói, hafði legið yfir námsefninu í marga daga og við allir orðnir súrir og skemmdir. Ég var að lesa stjórnmálasögu 20. aldar og skrifaði nöfn allra helstu vinstrisinnuðu stjórnmálaleiðtoganna á vinstri skóinn minn en nöfn þeirra hægrisinnuðu á hægri skóinn. Eftir að hafa lært tímunum saman inni í íslenskustofu Símonar Jóns Jóhannssonar (sem opin var öllum námshestum) ásamt gommu af krökkum var ég hætt kominn vegna lestrar og á barmi snapps. Grafarþögnin sem lengi hafði ríkt í stofunni var rofin og ég fór að tafsa mjög lágt: “I’ve been cheated by you since I don’t know when...”

Fólk leit upp úr bókunum og sumir settu upp ófrýnileg glott. Hafði ég sagt þetta upphátt? Andrúmsloftið var óþægilegt. Í örvæntingarfullri tilraun til að bæta ástandið hélt ég áfram, en ennþá á mjög lágværum nótum: “So I made up my mind it must come to an end”.

Krakkarnir litu á mig undrunaraugun. Orð eins og spennitreyja hafa hugsanlega komið upp í huga þeirra. En á elleftu stundu kom björgunin. Á hárréttum tíma byrjaði Danni að kinka taktfast kolli og raula lágt með: “Look at me now, will I ever learn? I don’t know how but I suddenly lose control. There’s a fire within my soul”.

Jói spratt á fætur og skyndilega sungum við allir þrír hátt og snjallt undir forystu hans: “Just one look and I can hear a bell ring! One more look and I forget everything! Voú-ó-ó!”

Jói stökk upp á kennaraborðið og við Danni stóðum á fætur og öskruðum viðlagið: “Mama mia! Here I go again. My my, how can I resist you? Mama mia! Does it show again? My my, just how much I've missed you. Yes, I've been brokenhearted. Blue since the day we parted. Why, why did I ever let you go?”.

Við uppskárum klapp frá þeim sem könnuðust við okkur en busarnir voru bara vandræðalegir. Eins og ekkert hefði í skorist settumst við aftur og héldum áfram lestrinum. Pol Pot var að valda usla í Kambódíu og ég þurfti að bæta honum á vinstri skóinn.

Þetta var eina skiptið sem ég hef sungið lag með ABBA upphátt. Mér til varnar var ég í annárlegu ástandi og vissi ekki hvað ég var að gera. Hnepptur í álög af hinum fúla prófdjöfli.