þriðjudagur, maí 16, 2006

The perfect storm

Siggi Stormur á Stöð 2 er ömurlegur veðurfréttamaður. Hann er ekki ófrýnilegur í útliti, ekki með einkennilegan tón í röddinni, hvorki vandræðalegur né asnalegur og aldrei í ljótum jakka sem passar ekki við buxurnar. Hann stendur heldur aldrei álkulegur í fimm sekúndur áður en hann byrjar að tala eins og aðrir veðurfréttamenn. Hvernig fékk hann djobbið?

mánudagur, maí 15, 2006

Something better beginning

Hálftími í leik. Minn kæri skrjóður, Rósinant, var við það að gefa upp öndina sem og kortið mitt sem á einhvern óútskýranlegan hátt var ekki lengur í strauvænu ásigkomulagi. Síminn einnig í rugli eins og fyrri daginn. Mig vantaði bensín og fé til að komast inn á leikinn á KR-velli. Ég reytti hár mitt í svartasta þunglyndi á ÓB-bensínstöð við Fjarðarkaup og sparkaði ítrekað í Rósinant. Dagsverkið var einfalt þegar ég vaknaði í morgun; að fara á KR-FH. Í einskærri heimsku var ég að klúðra því. Ég sá fram á að missa af leiknum.

En glæpur minn og heimska fólst ekki í að vera með ónothæft kort, inneignarlausan síma og bensínlausan skrjóð. Nei, ég hafði um stund vanmetið fjölskyldu mína. Ég hætti að sparka í Rósinant þegar ég sá að annar bíll kom á bensínstöðina. Þar var á ferð kappi sem ég þekkti lítillega en heilsa alveg þegar ég rekst á hann á bensínstöðvum og svona. Hann spurði hvort ég ætlaði ekki að kíkja á leikinn og ég svaraði: “Jú, ég er að fara með þér”. Lagði svo bílnum mínum í snöggheitum og stökk inn í hans vagn. Örfáum mínútum og góðu spjalli síðar vorum við staddir í Frostaskjóli og ég fékk gamlan samherja úr 3. flokki til að lána mér fyrir miða á leikinn. Hljóp upp í palla og byrjaði að tala lágt en upphátt við leikmennina á vellinum.

Að fara á FH-leik er eins og að fara á risastórt ættarmót. Óteljandi hæ, handabönd og faðmlög eru ómissandi fylgifiskar. FH-krakkar, foreldrar, félagar, þjálfarar, stuðningsmenn og fyrrverandi samherjar út um allt.

Bakvörðurinn Gummi Sævars er einfaldlega einn af hættulegustu sóknarmönnum deildarinnar. Hann vissi nákvæmlega hvar Tryggvi var í bæði skiptin. Dyring djöfull var frábær. Davíð Þór Viðarsson er besti maður deildarinnar þegar hann hefur sókndjarfan miðjumann fyrir framan sig. Atli Viðar kláraði þetta eins og leigumorðingi. Ásgeir eins og bardagamaður á miðjunni. Tommy. Freyr. Helvítis Smárinn.

FH vinnur alltaf á KR-vellinum. Alltaf.

sunnudagur, maí 14, 2006

A well respected man?

“And he likes his own backyard and he likes his fags the best
Cos he's better than the rest and his arm sweat smells the best
And he hopes to grab his father's loot when Pater passes on
Cos he's oh so good, and he's oh so fine
And he's oh so healthy in his body and his mind
He's a well respected man about town
Doing the best things so conservatively”


Dreymdi í nótt mann sem fór í gegnum lífið án þess að hugsa.

Kornungur ákvað hann að fylgja öllum ákvörðunum og stefnumálum stjórnmálaflokksins sem pabbi hans vann stundum fyrir. Hann kaus alltaf sama draslið og tók alltaf upp hanskann fyrir flokkinn. Þetta var stór flokkur og í skjóli fjöldans sem studdi hann var nokkuð auðvelt að sannfæra sig um að allar ákvarðanir flokksmanna væru réttar, jafnt stórar sem smáar. Gaurinn var líka í trúarsöfnuði sem státaði af langri sögu og ævafornum hefðum. Þannig þurfti hann ekki að mynda sér skoðanir á siðferðislegum efnum, þær voru þegar skjalfestar í trúargögnum safnaðarins. Frá barnæsku hélt hann með Liverpool í ensku deildinni og alltaf stóð hann eins og klettur á bakvið allar ákvarðanir sem teknar voru á Anfield Road. Hann fann sér einnig snemma konu sem hann horfði á ædolið og basselörinn með. Þau áttu tvo eins leisíbojstóla og alveg eins rauða Kilmarnock-útivistargalla. Það var nú samt ekkert á milli þeirra nema hamingjan sem skildi þau að.

Hann haslaði sér völl sem bankamaður. Lærði reyndar fyrst viðskiptafræði alveg eins og pabbi hans. Á sínum yngri árum var hann svo duglegur að hann borðaði nær alltaf 1944 í kvöldmat. Stundum mismælti hann sig þegar hann ætlaði að kveðja konuna sína og í stað þess að segja ‘sjáumst’ sagði hann óvart ‘nasdad’. Hann hafði líka lítinn tíma til að leiðrétta sig. Og aldrei hugsaði hann. Þurfti þess ekki. Þótti betra að venja sig af því strax.Eða hvað? Eru svona menn nokkuð til? Ert þú kannski þessi maður? Við öll nokkuð?

fimmtudagur, maí 11, 2006

End of the season

Síðasti leikurinn var á útivelli. Og þó, Frostaskjólið hefur verið okkur FH-ingum hálfgerður heimavöllur í gegnum tíðina. Um leið og ég mætti á svæðið fór ég út á aðalvöll. Gekk teiga á milli og sá leikinn fyrir mér. Gamlar, sögufrægar orrustur komu upp í hugann. Grasið kemur vel undan vetri.

KR-völlurinn er ekki flottasti völlur á landinu, langt í frá. En dínamískur andi og magnþrungin stemmning er yfir svæðinu. KR-áran er alltumlykjandi. Það er meiri sál í KR en mörgum öðrum klúbbum. KR-ingar eru stoltir af félaginu sínu. Þess vegna eru leikir í Frostaskjólinu oft mikil upplifun. Það er krefjandi verkefni að næla sér í stigin þrjú. Mín augu voru á þessum stigum. Ég var klár í slaginn.

Þegar átökin hófust fór ég úr peysunni og spilaði í FH-treyjunni með númerið tólf á bakinu. Ég var ekkert stressaður. Bara einbeittur. Frá fyrstu mínútu ætlaði ég að rústa þessu. Ég vissi hvað til þurfti og nýtti tímann vel. Stigin voru aldrei í hættu. Tók þetta 4-0. FH vinnur alltaf á KR-vellinum. Alltaf.

...

Prófið var samansett af fjórum ritgerðarspurningum og ég leysti þær tiltölulega skammlaust af hendi. Ég nýtti þessa þrjá tíma vel og hefði í raun getað setið lengur og skrifað meira. Það var svo gott að vera búinn í prófum að ég léttist um fjögur kíló er ég gekk út úr KR-heimilinu. Furðulegt að þreyta próf þar. Fór beint í bjór með kollegum um kvöldið.

Ég er loks búinn að taka lóuna í sátt en þó var það annar fugl sem birtist mér í morgun sem táknmynd sumarsins. Sá heitir Eiríkur Svanur Sigfússon og kenndi mér leikfimi fyrir tíu árum. Hann óð með látum inn í herbergið mitt eldsnemma vopnaður myndavél og reif mig á fætur. Hann ætlar víst að reyna að selja húsið sem ég bý í. Eftir að Eiki var búinn að vekja mig áttaði ég mig á því að í dag þurfti ég ekki að lesa námsbækur. Það var ágætt. Eiki er fínn líka.

Síðasta prófið í KR-heimilinu markaði endalok þessa keppnistímabils. En í hverjum endalokum felst upphaf. Nýtt keppnistímabil hefst á sunnudag með leik KR og FH í Frostaskjóli klukkan 20. Það verður veisla. Við ætlum að sækja þrjú stig.