Alltaf er þessi bolti eins.
Við höldum að okkar menn séu öllu vanir og klárir í slaginn. Komnir af fornhetjum sem hentu atgeirum í fornöld sem og sterkbyggðum bændum sem unnu ótrúleg erfiðisverk auk þess að berja alla niðursetningana og taka stundum netta bændaglímu. Okkar menn eru afkomendur Grettis sterka, Egils, Gunnars og Gísla Súrssonar (nema reyndar allir útlendingarnir í liðinu). Atgeirinn reyndar eftir heima en leðurtuðrurnar litlu sannarlega með í för. Og hetjurnar okkar eru sko ekkert að verpa eggjum með þessum skopparaboltum og hvað þá að fara í höfðingjaleik. Nei, þeir eru bardagamenn. Heimsklassaspilarar allir með tölu. Hvílíkir menn! Hvílíkar hetjur! Strákarnir okkar!
En illu heilli kemur að því að bölvaðir klumparnir klúðra þessu enn einu sinni.
Verða alltaf voða þreyttir í síðustu leikjunum. Bara úthaldslítil grey í kjánalegri íþrótt sem er svo kjánaleg að flestar skynugar þjóðir nenna ekki að stunda hana. Enda eru höfðingjaleikur og að verpa eggjum mun vinsælli leikir á heimsvísu. Og þá sér maður fyrir alvöru úr hverju þessi himpigimpi eru gerð. Ekki rassgat strákarnir okkar. Þetta eru strákarnir þeirra Gaupa, Eggerts Þorleifs, Atla Hilmars og kellingarinnar í Allt í drasli. Svo fámenn erum við að við þekkjum fjölskyldur þeirra betur en liðin sem þeir spila fyrir.
…
Íslenski stuðningsmaðurinn er geðklofi. Fagnar og formælir mönnum eftir því hvort tuðran fer í stöng og inn eða stöng og út. Vill ekki að menn geri bara sitt besta og sjái svo til. Það er bara Valgeir Guðjóns sem talar svoleiðis. Íslenski stuðningsmaðurinn vill vinna ellegar að vera fyrstur að finna skúrkana sem ollu tapinu. Vera fyrstur að benda á bjálfana sem klúðruðu mestu.
En það er líka á þeirri stundu sem hinir sönnu bjálfar koma í ljós. Það eru þeir sem benda. Og enginn þeirra getur útskýrt hvað ólögleg blokkering er.
Ég get varla beðið eftir vitleysunni. Ætla að blóta og benda og fagna eins og bavían eftir því sem á við.