Veruleikaflóttinn
“Ordinary life is so dull that I get out of it as much as possible”
-Steve Jones, Sex Pistols
Eins og það er leiðinlegt að hlusta á fólk tala um drauma er það ólíkt skemmtilegra að dreyma. Það að dreyma einhverja algjöra steypu jafnast á við gott fyllerí með félögunum - mínus samviskubitið. Þú mátt gera allan árann af þér. Fá útrás fyrir það sem þú þorir ekki að gera dagsdaglega. Freud sagði það, ekki ég.
Eins og það er leiðinlegt að vakna timbraður er oft stórfínt að vera ölvaður. Losa um stressið og leyfa sér smá kæruleysi. Njóta augnabliksins. Segja hluti sem maður segir ekki dagsdaglega. Vera fullur. Ekki benda á mig, Baudelaire var alltaf að tala um þetta.
Eins og fréttatíminn er alltaf stórkostlega niðurdrepandi er skáldskapur oft stórskemmtilegur. Að lesa og skrifa, búa sér til heim utan raunheims. Að upplifa drauminn frekar en að upplifa vonbrigðin. Laxness tönnlaðist á þessu.
Hvað er þá eftir? Jú, mér finnst reyndar ís góður.